Vegamálun hjá Vegagerðinni

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:08:12 (6088)

2001-03-28 14:08:12# 126. lþ. 101.3 fundur 538. mál: #A vegamálun hjá Vegagerðinni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:08]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það er kannski ekki rétt eins og kom fram hjá hv. þm. að búið sé að taka ákvörðun um að selja umræddan bíl. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það. Hann er ekki kominn til landsins en ég gat þess að á grundvelli vel rökstuddra ákvarðana tel ég að Vegagerðin eigi að draga sig út þar sem ekki er ástæða til að hún standi í samkeppni á markaði í þessari þjónustu eða annarri.

Aðalatriðið er það að í vegmálningu eins og nánast öllum öðrum þáttum í vegagerðinni, hefur framkvæmdin verið að þróast í þá átt að nánast öll verk fari á markað og að öll verk séu boðin út. Þessi málningarvinna vegna merkinga á vegum er engin undantekning og þegar búið er að ná góðum tökum á þessu öllu saman kemur væntanlega að því að forsvarsmenn Vegagerðarinnar skoði málið að nýju. Ég vona að gott samstarf náist um það og góð tilboð fáist í þau verk sem þarf að bjóða út í þessu sambandi.

Að öðru leyti þakka ég hv. fyrirspyrjanda fyrir þessar fyrirspurnir. Það er gagnlegt og nauðsynlegt fyrir okkur að fara yfir þessi mál í þinginu þannig að þingmönnum sé ljóst við hvað er að etja hjá Vegagerðinni eins og öðrum stofnunum.