Póstþjónusta

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:10:42 (6089)

2001-03-28 14:10:42# 126. lþ. 101.4 fundur 546. mál: #A póstþjónusta# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:10]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Póstþjónustan er einn af grunnþáttum almannaþjónustu í landinu. Því leyfi ég mér, herra forseti, að beina eftirfarandi spurningum til hæstv. samgrh.:

1. Hvenær verða settar ákveðnar gæðakröfur um grunnpóstþjónustu í landinu sem taki meðal annars til póstmóttöku, póstdreifingar, aðbúnaðar, öryggismála, póstleyndar og aðgengis almennings að þessari þjónustu?

2. Hvaða skilgreindar kröfur eru nú gerðar um póstmóttöku og póstdreifingu, sem og fjölda, aðbúnað og þjónustustig póststöðva í landinu?

3. Hver tekur út og samþykkir færslu póstafgreiðslna, aðbúnað, öryggi, rekstrarform og þjónustustig nýrra póststöðva og hvernig er formlega staðið að þeirri úttekt?

4. Mun ráðherra láta afturkalla lokun pósthúsanna á Hofsósi og í Varmahlíð ef breytingin sem þar á að verða þýðir lakari gæði eða beinan niðurskurð póstþjónustu á þessum stöðum frá því sem áður var eða að hún samræmist ekki ákvæðum í starfsleyfi Íslandspósts hf. frá 28. jan. 1998?

Herra forseti. Samgrh. fer með yfirstjórn póstmála samkvæmt lögum. Enn fremur stendur í lögum um póstþjónustu að íslenska ríkið skuli tryggja landsmönnum reglulega grunnpóstþjónustu vegna eftirfarandi sendingartegunda sem eru síðar talin upp.

Í 1. gr. leyfisbréfs Íslandspósts frá 28. jan. 1998 er kveðið á um að Póst- og fjarskiptastofnun setji nánari reglur um framkvæmd grunnpóstþjónustu, svo og um þjónustumarkmið. Þessar reglur er mér ekki kunnugt um að hafi verið settar.

Í 3. gr. starfsleyfisins stendur að leyfishafi skuli taka við pósti frá almenningi án mismununar jafnvel þó þjónustan kunni að vera óarðbær. Þessi þjónusta og móttaka án mismununar hefur heldur ekki verið skilgreind.

Í 12. gr. leyfisbréfsins stendur: ,,Leyfishafa er óheimilt að framselja rétt sinn og skyldur samkvæmt leyfisbréfi þessu.``

Herra forseti. Hæstv. samgrh. hefur ítrekað lýst því á Alþingi að ekki standi til að skerða þjónustu Íslandspósts heldur að standa vörð um hana. Nú er mér kunnugt um að sú breyting sem varð á þjónustu póststöðvanna í Skagafirði þýðir mjög skerta þjónustu sem þær póststöðvar veita nú miðað við það sem áður var og engin aðstaða þar til að veita viðlíka gæði þjónustu. Sama mun verða uppi á teningnum á Skagaströnd 1. apríl þegar pósthúsinu þar verður lokað og póstþjónustufólk missir vinnuna.