Brjóstastækkanir

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:28:57 (6097)

2001-03-28 14:28:57# 126. lþ. 101.5 fundur 539. mál: #A brjóstastækkanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:28]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Fyrirspurn mín um brjóstastækkanir er borin fram vegna umræðu sem átt hefur sér stað víða um heim vegna aukaverkana og vandamála sem komið hafa upp vegna notkunar sílikons í brjóstafyllingar. Brjóstastækkunaraðgerðir eru eins og margir vita bæði gerðar í svokölluðu fegrunarskyni en einnig er þeim beitt hjá konum sem hafa þurft að láta fjarlægja brjóst vegna krabbameins. Ég hef þess vegna lagt svohljóðandi fyrirspurn fyrir heilbr.- og trmrh.:

1. Hefur ráðherra upplýsingar um það hve margar brjóstastækkunaraðgerðir hafa verið gerðar hér á landi sl. 5--10 ár, annars vegar hjá konum sem fengið hafa krabbamein í brjóst og hins vegar sem fegrunaraðgerð eingöngu?

2. Hve lengi endast brjóstapúðar sem komið er fyrir við aðgerðirnar?

3. Tekur Tryggingastofnun ríkisins þátt í kostnaði við brjóstastækkunaraðgerðir?

4. Í hve mörgum tilvikum hefur silíkon verið notað sem fyllingarefni?

5. Er silíkon enn notað við brjóstastækkanir hér á landi sem fylliefni eða utan um saltvatnsfyllingar?

6. Hvers konar brjóstapúða er heimilt að nota við aðgerðirnar og við hvaða staðla er miðað?

7. Er vitað hve margar konur hafa kvartað til landlæknis um aukaverkanir af silíkonpúðum?

[14:30]

Ég ber þessa fyrirspurn fram vegna þess sem ég nefndi í upphafi. Hér á landi er vitað að nokkur hópur kvenna, sem kallar sig Von, hefur tekið sig saman til að reyna að hjálpa konum sem hafa lent í vandræðum út af aðgerðum af þessu tagi. Nýlega hefur það verið lagt fyrir Evrópuþingið að herða reglur um aðgerðir af þessu tagi, einkum hvað varðar ráðgjöf til kvennanna fyrir aðgerð og eftir aðgerð. Sömuleiðis að fleiri en einn læknir komi að þeirri ákvörðun, að þá sé gert skylt eða gert auðvelt að fá álit annars læknis áður en í aðgerðina er farið. Og sömuleiðis að skráning aðgerða sé gerð örugg þannig að vita megi og fylgjast megi með þessum málum. En það sem ég nefndi gerðist á Evrópuþinginu eftir 10 ára vinnu að því verki. Þess vegna er fróðlegt að heyra hvað heilbrrh. hæstv. hefur um málið að segja hér á landi.