Brjóstastækkanir

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:31:57 (6098)

2001-03-28 14:31:57# 126. lþ. 101.5 fundur 539. mál: #A brjóstastækkanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:31]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Katrín Fjeldsted beinir til mín nokkrum spurningum varðandi brjóstastækkanir. Eins og kom fram í máli hennar hefur þetta verið mjög í umræðu, bæði hérlendis og erlendis í fjölmiðlum.

Stærstur hluti brjóstastækkunaraðgerða hér á landi fer fram á einkastofum lýtalækna og liggja ekki fyrir endanlegar tölur um þann aðgerðafjölda hjá landlækni. Við samantekt hans, sé miðað við undanfarin ár, er talið að fjöldinn í heild sinni nemi 200--250 aðgerðum á ári. Eru þá meðtaldar aðgerðir sem gerðar eru á sjúkrahúsum. Um 90% aðgerðanna teljast fegrunaraðgerðir en um 10% eru aðgerðir vegna eftirstöðva brjóstakrabbameins og annarra slíkra sjúkdóma. Tryggingastofnun ríkisins greiðir eingöngu kostnað vegna endurbyggingar brjósta eftir brottnámsaðgerðir, t.d. eftir krabbamein, en ekki vegna fegrunaraðgerða.

Fyrirspyrjandi óskaði upplýsinga um endingu þeirra brjóstapúða sem komið er fyrir við aðgerðirnar. Því er til að svara að ending brjóstapúðanna er mjög mismunandi. Mjög sjaldan þarf að skipta um púða og eru enduraðgerðir mjög fátíðar. Eru þær helst gerðar vegna herslismyndunar í kjölfar örvefs eða vegna rofs sem verður á sílikonhylki. Fylgivandamál af þessum toga geta komið innan örfárra ára frá fyrstu aðgerð eða nokkrum áratugum síðar og er engin regla á því hvenær fylgikvillarnir koma fram.

Sílikon hefur lengi verið notað sem fyllingarefni. Í upphafi var því sprautað óbeislað inn í brjóstið en sú aðferð hefur aldrei verið notuð á Íslandi. Flestar aðgerðir eru gerðar með brjóstapúðum af mismunandi stærðum sem hafa verið fylltir með sílikonhlaupi.

Saltvatnsfyllingar eru einnig notaðar, einkum sé verið að endurbyggja brjóst eftir brottnám vegna krabbameins. Púðarnir eru miðaðir við gæðastaðla Evrópusambandsins.

Kvartanir vegna brjóstastækkunaraðgerða hafa verið talsvert í umræðu í fjölmiðlum að undanförnu. Landlækni hefur borist að meðaltali tæplega ein slík kvörtun á ári undanfarin tíu ár. Kvartanirnar hafa aðallega snúist um vonbrigði vegna þess að árangur aðgerðar hefur ekki verið sem vænst var vegna örvefsmyndunar og vegna sýkinga.

Virðulegi forseti. Ég tel mjög mikilvægt að áfram verði fylgst vel með framgangi þessara aðgerða hér á landi og þróun þeirra. Landlæknir er nú um þessar mundir að byggja upp gagnagrunn til að geta fylgst enn betur með þessum tegundum aðgerða og fleiri slíkum.

Það sem kemur ekki fram í fyrirspurninni en mig langar að komi fram hér, er að langalgengustu brjóstastækkanir eru gerðar á 25--35 ára konum en ef um yngri konur er að ræða er það venjulega vegna þess að brjóst hafa ekki þroskast.

En við getum líka spurt okkur að því hvaða ímynd erum við að gefa okkur af ungum konum ef það er svo mikið kappsmál fyrir ungar konur að láta stækka á sér brjóstin, og þá er ég að tala um mjög ungar konur, án þess að um sjúkdóm sé að ræða. Það er eitthvað sem ég held að samfélagið ætti að taka til umfjöllunar.

Ég vona að þetta hafi svarað fyrirspurn hv. þm.