Náttúruverndaráætlun

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:42:32 (6104)

2001-03-28 14:42:32# 126. lþ. 101.6 fundur 548. mál: #A náttúruverndaráætlun# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Herra forseti. Meðal nýmæla í lögum um náttúruvernd frá 1999, er ákvæði um gerð náttúruverndaráætlunar fyrir landið allt, áætlunar sem skuli lögð fyrir Alþingi. Mér leikur forvitni á að vita hvernig vinnu við áætlunargerðina vindi fram og hvort hæstv. umhvrh. sjái nokkra meinbugi á því að leggja áætlunina fyrir Alþingi á næsta þingi.

Í 65. gr. laga um náttúruvernd segir að við gerð áætlunarinnar skuli Náttúruvernd ríkisins í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrustofu og hlutaðeigandi náttúruverndarnefndir sjá um undirbúning og öflun gagna vegna áætlunarinnar. Hæstv. umhvrh. mun væntanlega geta gert okkur grein fyrir því hvernig það samstarf fari fram.

Herra forseti. Gerð náttúruverndaráætlunar er í senn viðamikið og vandasamt verkefni enda verið að leggja grunninn að náttúruvernd hér á landi næstu ár. Við gerð hennar þarf m.a. að taka tillit til menningarlegrar og sögulegrar arfleifðar, nauðsynjar á endurheimt búsvæða, nýtingar mannsins á náttúrunni og ósnortinna víðerna, eins og segir í 66. gr. laganna.

Í fjárlögum þessa árs eru veittar 4 millj. kr. til tveggja ára til gerðar náttúruverndaráætlunar. Í fyrra voru 5 millj. kr. veittar til verkefnisins. Þannig hefur Náttúruvernd ríkisins samtals úr 9 millj. kr. að spila en einn starfsmaður hefur verið ráðinn til verksins enn sem komið er til þess að sinna því á skrifstofu Náttúruverndar ríkisins.

Ég leyfi mér að efast um það, herra forseti, að fjárveitingin dugi til þessa viðamikla og mikilvæga verkefnis. Efasemdir mínar eru ekki síst sprottnar af samanburði við fjárveitingar til gerðar rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Þar hafa menn úr tugum millj. kr. að spila. Í ár er áætlaður kostnaður Orkusjóðs og Orkustofnunar af rammaáætluninni t.d. 113 millj. kr., herra forseti. Þótt framlag til gerðar náttúruverndaráætlunar væri tífaldað næði það ekki þeirri upphæð sem varið er á einu ári til gerðar rammaáætlunarinnar.

Það er umhugsunarverð staðreynd og segir okkur í raun allt um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í náttúruverndarmálum. Náttúruvernd ríkisins hafði áætlað kostnað vegna gerðar náttúruverndaráætlunarinnar, samtals um 25 millj. kr. Ekkert bendir til annars en þar sé um raunhæfa og faglega áætlun að ræða. Tillaga frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og fleirum um að auka fé til náttúruverndaráætlunar var felld við afgreiðslu fjárlaga í desember sl. eins og hv. þm. muna sjálfsagt en þó samt í ljósi þess að það hefur í raun legið fyrir að 9 millj. mundu kannski ekki duga. Ekki síst í ljósi þess að náttúruverndin þarf að kaupa margs konar sérfræðivinnu af öðrum opinberum stofnunum, t.d. kortagrunn af Landmælingum ríkisins, vinnu sérfræðinga hjá Náttúrufræðistofnun og Orkustofnun, svo dæmi séu nefnd.