Náttúruverndaráætlun

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:45:47 (6105)

2001-03-28 14:45:47# 126. lþ. 101.6 fundur 548. mál: #A náttúruverndaráætlun# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:45]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Spurt er:

,,Hvað líður gerð náttúruverndaráætlunar? Hvenær telur ráðherra að því verki verði lokið?``

Því er til að svara að skv. 65. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, skal umhvrh. eigi sjaldnar en á fimm ára fresti láta vinna náttúruverndaráætlun fyrir landið allt og leggja fyrir Alþingi. Náttúruvernd ríkisins skal í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrustofu og hlutaðeigandi náttúruverndarnefndir sjá um undirbúning og öflun gagna vegna áætlunarinnar. Í ákvæði til bráðabirgða í lögunum kemur fram að umhvrh. skuli eigi síðar en árið 2002 leggja fyrir Alþingi í fyrsta sinn náttúruverndaráætlun samkvæmt áðurnefndri 65. gr.

Vinna við náttúruverndaráætlun hófst á síðasta ári. Þá veitti Alþingi samkvæmt fjárlögum 5 millj. kr. til verkefnisins. Á yfirstandandi ári verður varið til verkefnisins 9 millj. kr. af fjárveitingu til Náttúruverndar ríkisins. Eins og kemur fram í áðurnefndri 65. gr. náttúruverndarlaga skal Náttúruvernd ríkisins í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands og fleiri aðila sjá um undirbúning og öflun gagna vegna áætlunarinnar. Náttúruvernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands eru sammála um að byggja vinnuna við áætlunina á þeim grunni sem svokallaður Bernarsamningur og Emerald Network og Habitat Directive Evrópusambandsins byggja á og sambærilegum viðmiðunum og vinnufyrirkomulagi og þar er notað, ásamt þeim leiðbeiningum sem koma fram í náttúruverndarlögunum.

Fyrsti þátturinn byggir á mati á ástandi tegunda, útbreiðslu þeirra, tegundum í hættu, sjaldgæfum tegundum, tegundum sem Ísland ber ábyrgð á, vegna þess að stór hluti stofnsins byggir afkomu sína hér á landi o.s.frv.

Hér er um að ræða vinnu sem byggist á upplýsingum sem er að finna í gagnagrunni Náttúrufræðistofnunar Íslands og útgefnu efni. Næsti þátturinn byggir á upplýsingum um vistgerðir, búsvæði og vistkerfi og mat á verndarþörf með tilliti til ákveðinna viðmiða og hefur Náttúrufræðistofnun Íslands undanfarið verið að móta vinnureglur og aðferðir við slíkt mat.

Þriðji þátturinn felst í samkeyrslu þessara upplýsinga og mat á því hvaða svæði talið er mikilvægast að varðveita eða vernda á grundvelli tegundafjölbreytni og vistgerða. Það verður hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands að vinna fyrstu tvo þættina og fella þá saman en Náttúruvernd ríkisins mun í framhaldi af því leggja gögnin saman með öðrum gögnum, svo sem frá Þjóðminjasafni Íslands og öðrum sem búa yfir sértækum upplýsingum sem nauðsynlegt er að taka tillit til við gerð slíkrar verndaráætlunar.

Sem stendur er unnið að söfnun upplýsinga frá sveitarfélögum, Náttúrustofu og ýmsum stofnunum sem búa yfir upplýsingum um náttúru landsins. Náttúruvernd ríkisins vinnur nú að því að útbúa tillögur um vinnuáætlun, þar sem m.a. er ætlunin að komi fram verkaskipting milli stofnana, ábyrgð þeirra á einstökum verkþáttum, áherslur, hver sé staða verksins í dag, hvernig verkfyrirkomulagi hefur verið háttað og jafnframt gerð áætlun um vinnulag þar til málið verður tekið upp á Alþingi.

Umhvrn., Náttúruvernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands mynda stýrihóp til að fara yfir áðurnefndar áætlanir. Gert verður ráð fyrir að náttúruverndaráætluninni verði lokið sumarið 2002 og hún verði lögð fram sama haust á Alþingi, þ.e. á haustþingi árið 2002.