Náttúruverndaráætlun

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:50:28 (6107)

2001-03-28 14:50:28# 126. lþ. 101.6 fundur 548. mál: #A náttúruverndaráætlun# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:50]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn og fagna því að sjálfsögðu að hæstv. umhvrh. skuli á jafnafdráttarlausan hátt og hún gerir segja okkur að haustið 2002 verði náttúruverndaráætlun tilbúin. Nú er það alveg rétt að besti mælikvarðinn á frammistöðu stjórnvalda í málaflokkum birtist í fjárlögum íslenska ríkisins. Sannleikurinn er sá að ekki hefur verið sett nægilega mikið fé til Náttúruverndar ríkisins í þessu tilliti, hvorki til gerðar náttúruverndaráætlunar né heldur til þess fræðsluhlutverks sem sú stofnun á að sinna.

Það kom glögglega í ljós á ráðstefnu sem haldin var norður á Húsavík í síðustu viku að Náttúruvernd ríkisins hefur ekki getað sinnt lögbundnu hlutverki sínu um fræðslu vegna fjárskorts. En ég vona sannarlega að stofnunin hafi þá fjármuni sem hún telur sig þurfa til að gera þá náttúruverndaráætlun sem hæstv. umhvrh., stofnunin sjálf, og við alþingismenn og þjóðin öll, getum verið stolt af.