Náttúruverndaráætlun

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:53:39 (6109)

2001-03-28 14:53:39# 126. lþ. 101.6 fundur 548. mál: #A náttúruverndaráætlun# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:53]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið hér. Það kemur reyndar svolítið á óvart þegar ramma\-áætlunin er dregin inn og talað um að þetta sýni forgangsröðun ríkisstjórnarinnar að settar séu ákveðnar fjárhæðir í ramma\-áætlunina, en eitthvað annað í náttúruverndaráætlunina. Ég tel að rammaáætlunin sé gífurlega mikilvæg fyrir umhverfismál í landinu. Þar er verið að skoða virkjunarkosti m.a. með tilliti til umhverfisins. Ég átta mig því ekki alveg á þessum samanburði eins og hann er settur fram hér.

Ég tel að það fjármagn sem við erum að setja í náttúruverndaráætlunina sé nægjanlegt. Menn eru að vinna í henni og sú vinna gengur ágætlega vel. Fyrsta áætlunin verður lögð fram á haustþingi 2002 og síðan verða þær lagðar fram á fimm ára fresti. Það er alveg ljóst að þær munu örugglega þróast með tímanum. Sú fyrsta er frumraun má segja en ég vona að hún verði góð og til þess ætlumst við að það sé unnið vel að henni. Við höfum stýrihóp til þess að vera með gott samráð við Náttúruvernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun svo að hægt sé að halda vel utan um þetta mál. Ég tel að Náttúruvernd ríkisins sem ber aðalábyrgð á málinu sé að vinna góða vinnu varðandi þessa áætlun.

Það kom fram að það vantaði fjármagn til fræðslumála hjá Náttúruvernd ríkisins. Af því tilefni vil ég taka fram að við síðustu fjárlög var bætt við sérstökum lið í fræðslumál hjá Náttúruvernd ríkisins, fræðslu sem lýtur að friðlýstum svæðum sem var fjárlagaliður upp á nokkrar milljónir þannig að ég tel að við sjáum fram á að hægt verði að sinna þeim fræðsluvettvangi mun betur en áður.