Viðbrögð við skýrslum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 15:09:41 (6115)

2001-03-28 15:09:41# 126. lþ. 101.9 fundur 578. mál: #A viðbrögð við skýrslum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[15:09]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Spurt er: Hafa skýrslur fjölþjóðlegrar sérfræðinganefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar verið til umfjöllunar í ráðuneytinu?

Því er til að svara að ráðuneytið hefur fengið drög að skýrslum milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, eða IPCC, til umsagnar. Milliríkjanefndin er alþjóðleg stofnun sem komið var á af Alþjóðaveðurfræðistofnuninni og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eiga aðild að IPCC. Skýrslur nefndarinnar eru sendar sérfræðingum og stjórnvöldum til umsagnar, þannig að umhvrn. hefur haft hana til umfjöllunar en við höfum ekki séð ástæðu til að senda sérstakar athugasemdir við skýrsluna sjálfa.

Samantekt um helstu niðurstöður og ályktanir nefndarinnar eru lagðar fyrir fundi aðildarríkja til samþykktar. Skýrsla IPCC er í þremur hlutum. Fyrsti hlutinn fjallar um sjálfar veðurfarsbreytingarnar og orsakir þeirra, annar hlutinn um afleiðingar og þriðji hlutinn um leyfi til þess að bregðast við og kostnað sem af því verður.

Hver hluti er unninn af sérstakri undirnefnd og hafa fundir aðildarríkjanna í Shanghai í janúar, Genf í febrúar og Accra í Ghana í mars, samþykkt samantektir þessara þriggja nefnda. Samantekt um skýrsluna í heild verður lögð fyrir fund aðildarríkja IPCC í London í september.

2. spurning: Hyggst ráðherra bregðast við niðurstöðum þeirra með sýnilegum hætti?

Því er til að svara að skýrslan mun hafa umtalsverð áhrif á umræðuna á alþjóðavettvangi um loftslagsmál. Mjög hefur dregið úr óvissu um áhrif mannsins á veðrakerfi jarðarinnar frá því síðasta skýrsla IPCC kom fram 1995. Niðurstöður nefndarinnar sýna að hér er um umhverfisvandamál að ræða sem bregðast þarf við.

Samkvæmt niðurstöðu þriðju undirnefndarinnar er talað um að kostnaður við aðgerðir til að takast á við þetta vandamál sé viðráðanlegur, eins og þar stendur, sem er jákvætt. Skýrsla IPCC verður notuð við vinnu hér innan lands varðandi aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hana munum við einnig nýta á alþjóðavettvangi í stuðningi okkar við að lokið verði við að semja um útfærslu Kyoto-bókunarinnar á fundi aðildarríkjaþings loftslagssamningsins, vonandi sem fyrst. Og þar verður skýrsla IPCC einnig lögð fram.

Ég get einnig bætt því við að okkar helsti sérfræðingur í loftslagsmálum, Halldór Þorgeirsson, er til reiðu fyrir þá sem vilja nýta hans miklu sérþekkingu á þessu máli og er m.a. á morgun á sérstökum fundi hjá Landvernd einmitt um þessa skýrslu.

3. spurning: Munu niðurstöður nefndarinnar hafa áhrif á umhverfisstefnu ríkisstjórnarinnar, t.d. á þann hátt að farið verði að virkja vind- og sólarorku í auknum mæli hér á landi?

Niðurstöður IPCC kalla ekki á grundvallarstefnubreytingu í umhverfismálum hér á landi. Hins vegar er ljóst að taka verður tillit til loftslagsmála á öllum sviðum þjóðlífsins. Nú er unnið að því að móta stefnu um það hvernig Ísland getur staðið við skuldbindingar Kyoto-bókunarinnar. Sú vinna mun hafa bein áhrif á mótun stefnu Íslands við sjálfbæra þróun til næstu 20 ára sem nú er í vinnslu og kynnt var í frumdrögum á umhverfisþingi í janúar sl.

Árangur Íslendinga við að virkja endurnýjanlega orku skapar okkur mjög sterka sérstöðu þegar kemur að loftslagsmálunum. Eins og margoft hefur komið fram er framleiðsla okkar á t.d. áli og járnblendi líka í hnattrænu samhengi mikilvægt framlag vegna þess að við þurfum ekki að nota kol eða olíu við þá framleiðslu. Ljóst er að draga verður hins vegar úr losun m.a. frá samgöngum og sjávarútvegi með þeim ráðum sem tiltæk eru.

Varðandi það að framleiða vind- og sólarorku, þá hafa slíkir orkugjafar ekki fengið mikla athygli hér á landi m.a. vegna þess að við framleiðum allt okkar rafmagn með endurnýjanlegum orkugjöfum í dag. Hins vegar er spurning hvort hægt sé að nýta þá orkugjafa, vind- og sólarorku, í staðinn fyrir þá olíu sem við notum eins og á bíla, skip og flugvélar. En þróunin er ekki komin það langt að við sjáum það í hendi okkar á næstunni. Líka má benda á að einhver neikvæð umhverfisáhrif eru einnig af þessum orkugjöfum.