Eftirlit með matvælum

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 15:28:05 (6122)

2001-03-28 15:28:05# 126. lþ. 101.10 fundur 579. mál: #A eftirlit með matvælum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[15:28]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. Í rauninni vil ég lýsa því yfir að ég tel að eftirlit með matvælum hér á landi sé betra en mjög víða í heiminum. Dæmi um það er að hingað hafa ekki borist eða hér hafa ekki komið upp ýmsir sjúkdómar sem hafa komið upp í öðrum löndum og ber að fagna því. Það skiptir mjög miklu máli að íslenskir neytendur geti treyst þeirri vöru sem hér er á boðstólum og þeir hafa getað gert það. Hins vegar hefur það orðið þróunin víða um heim að hinn almenni neytandi er farinn að gera vaxandi kröfur til matvæla. Í Evrópu er vaxandi eftirspurn eftir lífrænt ræktaðri fæðu. Þar er vaxandi andstaða gegn þauleldi og gegn erfðabreyttum matvælum svo eitthvað sé nefnt. Nokkur alvarleg slys í Evrópu á undanförnum árum, svo sem díoxín-mengun og kúariða og nú gin- og klaufaveiki, hafa orðið til þess að opna augu jafnvel hörðustu andstæðinga þess sem kallað hefur verið eftirlitsiðnaðurinn, með háðung. En sá iðnaður og það eftirlit hefur sýnt sig a.m.k. hér á landi að hafa haft mjög mikil og góð áhrif.

Réttur almennings til að fá ómengaða og ósýkta vöru sem framleidd er við umhverfisvæn skilyrði er leiðarljós í nýrri hvítbók frá Evrópusambandinu og lýtur hún að framleiðslu og eftirliti með matvælum. Í kjölfar hennar mun þess verða krafist að sett verði ný löggjöf í aðildarlöndum ESB. Maður veltir fyrir sér hvort einhver viðbrögð séu nauðsynleg hér á landi við þessari stefnumörkun ESB og hvort EES samningurinn leggur okkur skyldur á herðar í framhaldi af þeirri stefnumörkun eða þessari hvítbók.

En vegna síðustu orða ráðherrans um flókna stjórnsýslu þá mun það hafa a.m.k. verið gert í Danmörku að löggjöf um matvælaeftirlit, fiskafurðaeftirlit og yfirdýralækni hefur verið sameinuð.