Einkaframkvæmd í öldrunarþjónustu (Sóltúnsheimilið)

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 15:33:23 (6124)

2001-03-28 15:33:23# 126. lþ. 101.94 fundur 434#B einkaframkvæmd í öldrunarþjónustu (Sóltúnsheimilið)# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Fyrir Alþingi liggur skýrsla Ríkisendurskoðunar um samninga við Öldung hf. um að reisa og reka hjúkrunarheimili við Sóltún 2 í Reykjavík. Í skýrslunni kemur fram gagnrýni á hvernig staðið var að samningnum við Öldung hf. Auk þess sýnir skýrslan að Öldungur hf. nýtur ýmissa fríðinda umfram aðra sem reka hjúkrunarheimili. Eins og margir eflaust muna hófst þetta ferli með því að verkið var boðið út. Þrír aðilar lýstu áhuga, þ.e. Öldungur hf., Nýsir og Dvalarheimili aldraðra sjómanna, sem dró sig til baka þegar í ljós kom að ekki mátti bjóða upp á hagkvæmari kost með því að samnýta þjónustu sem fyrir var. Að sögn ríkisstjórnarinnar væri það ekki í anda góðra markaðsviðskipta ef einn aðili hefði forskot og virtist þá engu skipta þótt skattborgarinn hagnaðist.

Þegar upp var staðið var engu tilboði tekið heldur samið við fyrirtækið Öldung hf. sem er í eigu Aðalverktaka og Securitas. Um er að ræða mikla fjármuni, 11,7 milljarða kr. fyrir 25 ára tímabil.

Það sem ekki kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar er að þessi samningur er verðtryggður í bak og fyrir og eftir því sem ég fæ best séð, er það beinlínis rangt, sem staðhæft er í skýrslunni, að báðir aðilar, ríkissjóður og Öldungur hf., taki áhættu með samningnum. Mér virðist áhættan öll vera ríkismegin. Hún er það varðandi lyfjakostnað, varðandi hjálpartækjakaup og varðandi launaþróun sem er tryggð á þríþættan hátt. Gagnstætt því sem skilja hefur mátt af máli hæstv. heilbrrh. í fjölmiðlum undanfarna daga þá mun Öldungur fá hækkun á daggjöldum ef inn á heimilið koma sjúklingar sem þurfa á meiri umönnun en gengið er út frá í samningnum. Þá munu daggjöldin hækka.

Að því er ég fæ best séð gætir misskilnings hjá Ríkisendurskoðun varðandi húsnæðiskostnaðinn. Hlutafélagið Öldungur fær 2.420 kr. greitt með hverjum sjúklingi vegna húsnæðiskostnaðar. Þetta framlag núllar Ríkisendurskoðun út í samanburði við önnur hjúkrunarheimili, sem ekki fá þetta framlag vegna þess að kostnaður við að byggja hjúkrunarheimili hafi að stórum hluta verið borinn af ríkissjóði beint eða með framlögum úr Framkvæmdasjóði aldraðra, það sem á hafi vantað hafi ýmist eða bæði komið frá félagasamtökum og sveitarfélögum.

Samkvæmt mínum upplýsingum geta stofnanir sótt um framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra sem nemur 40% af kostnaði við byggingar auk þess sem 40% af meiri háttar viðhaldi hefur verið greitt úr sama sjóði. Annað er í óvissu. Öldungur fær hins vegar húsnæðiskostnaðinn greiddan að fullu frá ríkinu 2.420 kr. fyrir hvern legudag í 25 ár.

Hver er þá niðurstaðan? Ríkiendurskoðun segir að fyrir ríkið sé tilkostnaðurinn við Öldung 14% hærri en gagnvart öðrum. Álitleg upphæð, eða 1,5 milljarðar teknir upp úr vasa skattgreiðenda og enn hærri upphæð ef húsnæðiskostnaðurinn væri rétt metinn. Ef húsnæðiskostnaður væri ekki jafnaður út þá væri einkaframkvæmdin 17% dýrari samkvæmt Ríkisendurskoðun. Ég vildi síðan bæta við launaleiðréttingunni, sem Ríkisendurskoðun reiknar öðrum heimilum til tekna umfram Öldung hf. vegna misskilnings, og þá er munurinn kominn yfir 18%. Við gætum haldið áfram.

Ríkisendurskoðun fer ekki út í samanburð við önnur heimili, Grund og DAS svo dæmi séu tekin, þótt í spurningum mínum til Ríkisendurskoðunar sé vísað sérstaklega til þess að DAS vildi taka verkið að sér. Eftir því sem ég fæ séð er framlagið til Öldungs meira en 30% hærra en til DAS, án húsnæðiskostnaðar, samkvæmt tölum frá árinu 1999 og enn meiri ef þessir aðilar sætu við sama borð hvað húsnæði varðar.

Ríkisendurskoðun virðist ekki velkjast í vafa um hvernig réttlæta eigi muninn á framlagi til hjúkrunarheimila sem rekin eru til að veita þjónustu annars vegar og skapa eigendum sínum arð hins vegar. Hin fyrrnefndu eiga að jafnaði ekki að sýna hagnað af starfsemi sinni. Nú vitna ég beint í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:

,,Að sjálfsögðu á slíkt ekki við um hlutafélög og aðra sambærilega einkaaðila á borð við Öldung hf. Forsvarsmenn félagsins hljóta að gera eðlilegar kröfur um hagnað af starfsemi fyrirtækisins.``

Þetta segir Ríkisendurskoðun en ég segi: Einmitt á þessum forsendum hefur einkaframkvæmd verið gagnrýnd og í þessu tilviki hefur ríkisstjórnin svo sannarlega tryggt viðskiptavini sínum, Öldungi hf., arðinn og hagnaðinn.

Ríkisendurskoðun vísar til eðlilegrar arðsemiskröfu á markaði. Nú spyr ég hæstv. heilbrrh. hvernig hún réttlæti þennan samning þegar það hefur fengist staðfest af Ríkisendurskoðun að fyrir samfélagið og skattborgarann er miklu dýrara að fela fyrirtækjum á borð við Öldung hf., á grundvelli einkaframkvæmdar, rekstur þessarar þjónustu en að skipuleggja hana og starfrækja á vegum samfélagsins og fela hana aðilum sem ekki hafa gróðasjónarmið að leiðarljósi eins og verið hefur.