Einkaframkvæmd í öldrunarþjónustu (Sóltúnsheimilið)

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 16:01:29 (6134)

2001-03-28 16:01:29# 126. lþ. 101.94 fundur 434#B einkaframkvæmd í öldrunarþjónustu (Sóltúnsheimilið)# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[16:01]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegur forseti. Mér finnst menn gleyma aðalatriðinu í þessu máli. Við erum að reisa hjúkrunarheimili fyrir 92 sjúklinga sem eru í bráðri þörf. Við gerum miklar kröfur til þess að þessir sjúklingar fái fullkomna aðstöðu. Við tölum um að sérhver einstaklingur fái einbýli. Þjónustan er meiri en almennt gerist vegna þess að við erum að tala um mörk þess að vera á sjúkrahúsi fyrir aldraða sjúka. En það er það sem menn vilja ekki ræða í þessu sambandi. Og varðandi það að menn hafi ekki fengið að keppa í þessu útboði þá er einfaldlega ekki rétt. Það kemur einmitt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar á bls. 31 að hvergi hafi verið girt fyrir það til að mynda að Hrafnista gæti keppt um þetta.

Hér kemur hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson upp og segir að það hafi verið útilokað fyrir þá að taka þátt í útboðinu. (Gripið fram í.) Ríkisendurskoðun segir allt annað í sinni skýrslu. Og nú finnst mér að menn eigi að fletta upp á bls. 31. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Að mati Ríkisendurskoðunar er ekki hægt að fallast á það sjónarmið að skilmálarnir hafi girt fyrir þátttöku í útboðinu.``

Þetta stendur í skýrslu Ríkisendurskoðunar og segir kannski meira en mörg orð. Þetta verða menn að hafa hugfast þegar þeir tala um að þeir hafi ekki getað tekið þátt í þessu útboði.

En það er alveg ljóst að við þurfum að gera betur hvað öldrunarþjónustuna varðar. Það þarf að endurbyggja mörg eldri heimili og við þurfum að byggja fleiri. (ÖJ: Ráðherrann ætti að lesa samninginn.)