Þjóðhagsstofnun

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 10:35:37 (6138)

2001-03-29 10:35:37# 126. lþ. 102.91 fundur 436#B Þjóðhagsstofnun# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[10:35]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Framganga hæstv. forsrh. í málefnum Þjóðhagsstofnunar er vægast sagt stórbrotin. Það er eiginlega ekki hægt annað en hrósa hæstv. forsrh. fyrir hugkvæmnina, að hafa þróað enn nýtt stig, einhvers konar hástig agavaldsins yfir embættismönnum og opinberum stofnunum. Nú er ekki lengur látið nægja að slá á fingurna á mönnum og segja: Svona gerir maður ekki. Það er ekki látið við það sitja að leiðbeina mönnum um hvað sé viðeigandi orðalag í áliti frá opinberri stofnun. Það er ekki látið nægja að hóta mönnum því að flytja þá ef þeir séu með óþægð, eins og alsiða hefur verið ef stofnanir eða opinberir embættismenn hafa ekki lotið vilja valdsins, þá er þeim hótað að þeir verði fluttir norður á Strandir eða austur á land. Nei, nú er komið nýtt hástig þessa tyftunarvalds og það er að leggja þá bara niður. Ef menn dirfast að vera með óþægð og múður þá verða þeir bara lagðir niður.

Þetta er auðvitað alveg ótrúleg framganga, herra forseti, og segir allt sem segja þarf um þau viðhorf sem að baki liggja og hvernig stjórnin kýs að fara með vald sitt, svo ekki sé minnst á þessa dæmalausu framkomu í garð starfsmanna stofnunarinnar sem í hlut á, að búa við það að fá slíkar fréttir í kvöldfréttum eins og þarna gerðist. Nei, herra forseti, þessi framganga dæmir sig sjálf.

Ég vil hins vegar koma að einni hugmynd sem ég tel að væri skoðunarverð og ekki síst nú í ljósi þess að hæstv. forsrh. er greinilega ekki hæfur til þess að vera yfirmaður Þjóðhagsstofnunar. Hún er sú að Þjóðhagsstofnun eða a.m.k. meginhluti starfsemi hennar verði færð til Alþingis. Það er að sönnu ekki alveg ný hugmynd og hefur stundum áður borið á góma, að Þjóðhagsstofnun sem öflug, óháð eftirlitsstofnun og fagstofnun á þessu sviði, væri betur komin í skjóli Alþingis eins og Ríkisendurskoðun og umboðsmaður Alþingis. Stofnunin gæti þannig betur sinnt sínu mikilvæga hlutverki. En að leggja hana bara niður sisona í geðvonskukasti er fráleitt, herra forseti.