Þjóðhagsstofnun

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 10:40:26 (6140)

2001-03-29 10:40:26# 126. lþ. 102.91 fundur 436#B Þjóðhagsstofnun# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[10:40]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það má vel vera að rök séu fyrir því að gera einhverjar kerfisbreytingar á þessu sviði. Hins vegar skiptir verulegu máli hvernig það er gert og í þessu tilviki er mjög illa staðið að málum.

Hæstv. forsrh. gagnrýnir þingmenn fyrir að tala hér í kjaftadálksstíl. Ég sé ekki betur af fréttaflutningi af málinu, herra forseti, en að áform hæstv. forsrh. hafi komið þjóðhagstofustjóra og fleirum sem starfa við Þjóðhagsstofnun fullkomlega á óvart. Hver er þá að tala í kjaftadálksstíl, herra forseti?

Staðreyndin er sú að tónninn í skýrslu Þjóðhagsstofnunar er breyttur að þessu sinni. Hann er beittari, ákveðnari og lýsir meira sjálfstrausti en áður. Þjóðhagsstofnun spáir að þessu sinni nokkru meiri verðbólgu en Seðlabankinn og telur nauðsynlegt að taka verulega á í hagstjórn eigi ekki illa að fara. Stofnunin varar svo auðvitað við viðskiptahallanum eins og hér hefur verið komið inn á.

Viðbrögð forsrh. eru að sjálfsögðu skoðuð í ljósi þessa aðdraganda. Hæstv. forsrh. svaraði því til fyrr í vikunni í umræðu á þinginu að opinber gagnrýni hans á Þjóðhagsstofnun bæri vott um sjálfstæði stofnunarinnar, herra forseti. Hann sagði sem svo: Mönnum er ekki bannað hér að prenta neitt fyrir fram. Nei, þeim er ekki bannað að prenta neitt fyrir fram en þeir verða hins vegar að þola opinbera gagnrýni og verða að þola að ráðamenn finni að orðalagi í kjölfarið á slíkum prentuðum gögnum.

Herra forseti. Hvað gerist svo nokkrum dögum síðar? Næsta útspil hæstv. forsrh. er að hann hyggist leggja stofnunina niður. Það verður ekki litið fram hjá því, herra forseti, hvaða efnislegu rök sem kunna að vera fyrir áformum hæstv. forsrh. --- það er í rauninni efni í aðra umræðu --- að það hvernig staðið er að þessum málum er algerlega óþolandi. Hver er skilningur hæstv. forsrh. á því hvað sé sjálfstæð stofnun? Er það stofnun sem má segja hvað sem er og prenta hvað sem er en er síðan bara lögð niður í kjölfarið?