Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 11:29:15 (6149)

2001-03-29 11:29:15# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[11:29]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það fyrsta sem utanrrn. gerði varðandi þetta mál var að leita upplýsinga. Fengist hefur staðfest frá samgönguráðuneyti Japans að engar slíkar samningaviðræður eiga sér stað milli japanskra stjórnvalda og rússneskra stjórnvalda. Jafnframt hefur fengist staðfest frá opinberum yfirvöldum í Rússlandi að engar slíkar samningaumleitanir eigi sér stað milli þessara þjóða. Hvort einhverjar hugleiðingar kunni að vera uppi milli einstakra fyrirtækja hef ég ekki enn þá fengið upplýsingar um, en bæði japönsk og rússnesk stjórnvöld hafa borið þessa frétt til baka, sem betur fer, og ég tel ástæðu til að gleðjast yfir því, því að ef eitthvað slíkt væri í uppsiglingu, þá er alveg ljóst að bæði íslenska utanríkisþjónustan og utanríkisþjónusta margra annarra ríkja mundi bregðast mjög harkalega við.