Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 11:52:58 (6155)

2001-03-29 11:52:58# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[11:52]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Þó að mikilvægt sé að auka erlendar fjárfestingar hér á landi, þá megum við heldur ekki vanmeta gildi erlendra fjárfestinga í landinu á undanförnum árum og mikilvægi þeirra í þeim hagvexti sem hér hefur orðið. Ég vil nefna í því sambandi stækkun álversins í Straumsvík, byggingu álversins á Grundartanga, stækkun járnblendiverksmiðjunnar, stofnun Íslenskrar erfðagreiningar sem að hluta til er fjármagnað með erlendu hlutafé og þær fyrirætlanir sem eru um álver á Austurlandi í samvinnu við íslenska aðila. Hér er að sjálfsögðu um erlenda fjárfestingu að ræða sem skiptir sköpum fyrir uppbyggingu hagkerfisins. Jafnframt má nefna fyrirætlanir um fiskeldi í sjó sem byggist að verulegu leyti á erlendri fjárfestingu þannig að sem betur fer hafa erlendir aðdilar verið að fjárfesta í íslensku atvinnulífi. Það sem ég hef sérstaklega viljað benda á er að æskilegt væri að auka fjölbreytni í slíkri fjárfestingu sem ég er alveg viss um að er til góðs fyrir íslenskt þjóðfélag.

Hins vegar hafa ekki allir verið sammála um þessar fjárfestingar og verulegur andróður hefur verið gegn þeim. Þó að við séum almennt hlynnt því að auka hér erlendar fjárfestingar, þá hefur það samt kallað á verulega andstöðu gagnvart einstökum framkvæmdum.