Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 11:54:56 (6156)

2001-03-29 11:54:56# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[11:54]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í tilefni af þeim dæmum sem hæstv. utanrrh. tók þá vil ég nefna Íslenska erfðagreiningu, það er sérstök saga og við fórum að mínu mati öfuga leið. Við vorum ekki búin að setja lög sem sköpuðu nýtt umhverfi sem fyrirtæki gætu fótað sig í heldur settum við lög fyrir eitt fyrirtæki að einhverju gefnu tilefni og það er ekki sú aðferð sem ég vil sjá að Alþingi leggi fyrir sig.

Ég veit allt um erlenda fjárfestingu í virkjunum og m.a. er það ein höfuðumræðan hverju sinni að það verði að ná erlendu fjármagni og fjárfestingu inn í landið og þess vegna verði að fara í risavirkjun og ofurálver eða hvað það er hverju sinni. Ég veit líka að þegar við fluttum út landhelgina, þá varð mikill hagvöxtur hjá okkur og einhver stærsta uppsveifla og sömuleiðis þegar virkjanirnar komu og ekki síst vegna þess að í millitíðinni var atvinnulífið einhæft og þá munar svo feikilega um að grípa til slíkra stórtækra aðgerða. En ef við ætlum að hafa það þannig að við tökum ekki á málum þannig að atvinnulífið geti orðið mjög fjölþætt og hér geti skapast samspil hvort heldur er á þessum markaði eða hinum, þá erum við alltaf bundin við það að einu tækifærin verða þau að grípa gæsina sem er þá í formi þess að stórfyrirtæki vill koma hingað með álver eða aðra slíka stóriðju og geri kröfu um virkjanir til að svo geti orðið. Ég er ekki að hafna því en ég vil miklu fremur að við skoðum það að þær virkjanir sem reistar eru séu smærri og falli að umhverfinu, jafnvel að þjóðgörðum. Það er hægt, og að við ráðum ferðinni sjálf en séum ekki að bregðast við einhverjum öðrum sem komi utan frá.