Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 12:12:13 (6158)

2001-03-29 12:12:13# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[12:12]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér afskaplega vel grein fyrir því að í þeirri stuttu ræðu sem ég flutti til hv. Alþingis og í þeirri ræðu sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flutti eru engin efni til að gera því stóra efni alger skil sem felst í hugtakinu hnattvæðing. Það má vel vera að það megi skilgreina þau hugtök betur en ég gerði í ræðu minni en það er a.m.k. tilraun af minni hálfu til þess að horfa á kosti og galla hnattvæðingarinnar í ljósi hagsmuna Íslands.

Auðvitað eru bæði bjartar og dökkar hliðar á því sem við köllum hnattvæðingu en meginniðurstaða mín er sú að það skipti afskaplega miklu máli fyrir Íslendinga að vera virkir þátttakendur í því sem þar á sér stað. Í stuttu máli er þetta nútíminn. Þetta er þróun sem orðið hefur og mikil bylting. Það er okkur Íslendingum í hag að taka fullan þátt í því starfi sem þar á sér stað.

Að því er varðar hinar dökku hliðar hnattvæðingarinnar tek ég undir með hv. þm. að þar eru ýmis vandamál sem við höfum ekki séð fram úr, t.d. í Afríku. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þau vandamál leysum við ekki nema með alþjóðlegu samstarfi og almennt það sem hv. þm. nefndi hér, hvort sem það er á sviði umhverfismála eða annarra mála, m.a. það sem hann nefndi um Bandaríkin, leysum við ekki nema með samstarfi við Bandaríkin, og vonandi taka þau fullan þátt í því eins og önnur ríki heimsins. Bandaríkin hafa þar skyldur og ber að taka þátt í því eins og önnur ríki að mínu mati.