Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 12:18:52 (6161)

2001-03-29 12:18:52# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[12:18]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Því miður er það ekki og hefur aldrei verið nein huggun fyrir fólkið sem sveltur og deyr í Írak að hörmungar þess séu Saddam Hussein að kenna. Þó að einhverjar peningar séu til inni á reikningum hjá Sameinuðu þjóðunum sem reyndar er heilmikill ágreiningur um hvernig standi, þá gegnir sama máli.

Það nýja í stöðunni er einmitt það að menn eru að hverfa frá því að nálgast málin með þessum útgangspunkti að frumkvæði Norðmanna sem ég fagna ákaflega og sýnir hvert gildi það getur haft að sjálfstæðar þjóðir þó smáar séu sem þora að hafa sjálfstæðar meiningar komist í aðstöðu eins og þá sem Norðmenn núna með aðild sinni að öryggisráðinu hafa, að þeir geta komið hlutunum á hreyfingu. Það sem þeim gengur til er að leita að breytingum á framkvæmd þessara viðskiptaþvingana gegn ógnarstjórn Saddams Husseins sem opna möguleika fyrir uppbyggingu og betri lífskjör fyrir almenning í Írak. Um það snýst málið og hefur allan tímann að mínu mati snúist um og hefur verið eina ástæða þess að ég hef hreyft þessu máli á Alþingi endurtekið, og flutt líklega sjö sinnum um það tillögur að Íslendingar taki upp þá stefnu á alþjóðavettvangi að gera nákvæmlega það sama og Norðmenn eru nú að reyna að gera, að skoða breytingar á þessum viðskiptaþvingunum þannig að þær bitni síður á saklausum almenningi en beinist með markvissari hætti að stjórnvöldum í formi t.d. vopnasölubanns, í formi þess að takmarka fjárfestingar og sölu á hátæknibúnaði og síðan öðrum aðgerðum sem menn vilja reyna þá að grípa til til að ná markmiðunum sem ætlunin var að ná með viðskiptabanninu en tíu ár og meira en tíu ár hafa sýnt að eru alls ekki að nást heldur kannski þveröfugt því að að flestra dómi hefur þetta því miður þjónað Saddam Hussein vel og hann er fastari í sessi en nokkru sinni fyrr.

En vonandi bregður nú til betri tíðar og ég er bjartsýnn á að kannski bíði þessarar tillögu minnar að lokum þau örlög að hún fáist afgreidd hér í einhverri mynd.