Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 12:21:21 (6162)

2001-03-29 12:21:21# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[12:21]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hefur kosið að beina athyglinni að alþjóðavæðingu sem nú skapar í auknum mæli umgjörð um viðskipti í heiminum en hefur einnig haft djúp áhrif á stjórnmálaumræðu og stjórnmálaheimspeki.

Þessi flötur á utanríkismálum er í raun og veru undirliggjandi á flestum sviðum utanríkismálaumræðunnar og því vel til fundið að beina athyglinni sérstaklega að honum í dag. Ekki er síst mikilsvert að meta stöðu Íslands í þeirri þróun. Hnattvæðing viðskipta hefur í mörgum tilfellum skapað ný tækifæri fyrir smáríki og komið þeim að vissu leyti út úr skugga risanna. Ég nefni sem dæmi að þjóðríki hafa leitað mismunandi leiða til þess arna að Írland telur sig einmitt hafa komist út úr skugga Stóra-Bretlands í gegnum samstarf sitt við Evrópuþjóðirnar innan ESB, enda hefur landið ausið úr þróunarsjóðum ESB í ríkum mæli og breytt efnahagsþróun ríkisins m.a. fyrir áhrif þessara sjóða.

Annað dæmi um þetta er í raun og veru Ísland sem hefur ekki farið þá leið sem Írar hafa farið og ekki þegið af allsnægtarborði Evrópusjóðanna en hefur engu að síður styrkt stöðu sína í alþjóðlegum viðskiptum verulega. Að sjálfsögðu á aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu þátt í þessu en þó er þar um miklu flóknara samspil að ræða og þróunarferli því Íslendingar hafa gert sig mjög gildandi t.d. á sviði hátækni og hugbúnaðar nú á síðari árum og þau viðskipti beinast ekki síður í vesturátt og til Austurlanda fjær.

Staða smáríkjanna byggist upp á flóknu samspili menntunar, heimssamgangna og grunngerðar og stöðu þessara smáríkja innan svæðisbundinnar samvinnu stofnana. Ekki er nokkur vafi á því að smáríkin eiga góðra kosta völ ef þau tryggja sterka grunngerð og fjölbreytilega menntun, ef þau skapa sér stöðu í svæðisbundnum samstarfsverkefnum og tryggja sér jafnframt mikilvægan sveigjanleika á alþjóðlegum vettvangi. Í þeim vandasama jafnvægisleik verða þjóðirnar að hasla sér völl og völlurinn er síbreytilegur. Aðlögunarhæfni er því eitt af því sem markar samkeppnishæfni þjóða í alþjóðavæðingunni. Og aðlögunarhæfni smáþjóða getur á margan hátt verið meiri en stórþjóðanna. Þetta hafa Íslendingar að vissu leyti sýnt með þeirri þróun sem hér á landi hefur átt sér stað á síðustu áratugum en þó alveg sérstaklega á síðustu tíu árum.

En aðlögunarhæfni er aðeins einn af þeim eiginleikum sem sker úr um hæfni þjóða til að spjara sig í hnattvæðingunni. Sérstaða og stöðugleiki, bæði efnahagslegur og menningarlegur, skiptir líka miklu máli. Á tímum hnattvæðingar þegar hraði skiptir meginmáli, þegar viðskipti leita eftir alþjóðatungumáli og alþjóðlegum samkeppnisreglum, þegar flest er orðið samræmt og staðlað og þegar sérkenni hverfa verður sjálf stöðlunin og samræmingin, verður sjálft alþjóðaumhverfið og hraðinn sviplaus og leiðigjarn. Við þessar aðstæður öðlast menningarleg sérstaða sérstakt gildi og vaxandi gildi. Það er því tvíþætt verkefni sem Íslendingar verða að vinna ef þeir eiga að tryggja stöðu sína í alþjóðlegu umhverfi sem einkennist æ meir af hnattvæðingu og hraða. Um leið og þeir þurfa að rækta með sér viðbragðsflýti og aðlöðgunarhæfni þurfa þeir að rækta menningarlega og stjórnmálalega sérstöðu sína og styrkja undirstöður hvors tveggja.

Alþjóðavæðingin leysir okkur því ekki undan neinum skyldum sjálfstæðs ríkis. Þvert á móti leggur hún á herðar okkur sem sjálfstæðs ríkis auknar skyldur.

Ég vil geta þess sérstaklega vegna þess sem fram kom áðan í ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, þar sem hún beindi spjótum sínum að einhverju leyti gegn þjóðríkinu, að sá málflutningur virðist að einhverju leyti vera byggður á misskilningi. Ekki er hægt að nefna það sem rök gegn þjóðríkinu þó að ákveðnir einstaklingar í sögu mannkynsins hafi misbeitt þjóðlegum verðmætum og notað þjóðlega hugsun sem kúgunartæki.

Við megum ekki gleyma því að þjóðleg menning átti líka þátt í því að mola niður Sovétríkin. Úr rústum Sovétríkjanna reis þjóðleg menning sem sterkt afl. Þjóðleg menning getur verið uppspretta framfara, sérstöðu og nýsköpunar og það hefur þjóðleg menning á Íslandi verið. Við eigum því ekki að leyfa harðstjórum sögunnar, harðstjórum fortíðarinnar og kynþáttafordómum að varpa neins konar skugga á menningarstarfsemi, á þjóðlega menningarstarfsemi því að hún er aflvaki meðal Evrópuþjóðanna og hún er viðurkennd sem aflvaki meðal Evrópuþjóða og þar á meðal af draumalandi hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, Evrópusambandinu. Það er því rétt að árétta þetta hér.

Alþjóðavæðing eins og aðrir alþjóðlegir stjórnmála- og viðskiptastraumar bjóða Íslendingum upp á tækifæri en bjóða einnig upp á hættur. Það er ljóst og kemur mjög vel fram í ræðu hæstv. utanrrh. að við leysum ekki fiskveiðistjórnarmál okkar á alþjóðavettvangi þótt við höfum lagt grundvöll að því viðfangsefni með hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við ætlum ekki heldur að stjórna nýtingu okkar eigin auðlinda hafsins með svæðisbundnu samstarfi Evrópusambandsþjóðanna þótt við viljum efla svæðisbundið samstarf þeirra þjóða sem hagsmuna eiga einkum að gæta á hafsvæðum sem við nýtum.

Samfara hnattvæðingu eru ýmis vandamál sem nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir. Ég vil í þessari stuttu ræðu dvelja aðeins við tvö slík tilvik. Í fyrsta lagi er ljóst að áhrif viðskiptaaðila á þróun heimsmála hafa aukist og það er ekki háð nokkrum vafa að það hefur í bili dregið úr áhrifum stjórnmálamanna á ýmis mikilvæg málefni. Vil ég nefna sérstaklega í þessu sambandi orkumálin en í orkumálunum hefur það aukist og eflst að viðskiptaaðilarnir leggja allar helstu línur, taka þær ákvarðanir sem mestu skipta og ráða í raun mestu um stefnumörkunina, m.a. vegna þess að stjórnmálamenn í helstu iðnríkjum hafa lagt sig fram um að skapa sem best skilyrði fyrir frjálsa samkeppni á sviði orkumála. Afleiðingin er sú að víðast hvar í heiminum er gnægð orku til á sögulega frekar lágu verði. Hins vegar taka orkuframleiðendurnir og viðskiptaaðilarnir enn mjög takmarkað tillit til þess að flest stærstu umhverfismál heimsins má rekja til framleiðslu, dreifingar og neyslu orku og til úrgangs frá orkuiðnaði. Ekki verður séð að á þessum tengslum milli orkumála og umhverfismála sé tekið af mikilli festu, hvorki af aðilum atvinnulífsins sem ráða í raun ferðinni né af stjórnmálamönnum sem hafa minni tök á þessum málum nú en þeir höfðu fyrir rúmum 20 árum á tímum olíukreppunnar. Ein af vísbendingunum um þá þróun mála eru í raun og veru niðurstöðurnar í Kyoto sem skapa mjög veikan ramma utan um umhverfisvandann sem á rætur í orkuframleiðslunni.

[12:30]

Enn einn veikleikinn í sambandi við aukin alþjóðleg viðskipti, sem er hluti af þessari hnattvæðingu, hefur nú komið í ljós í sambandi við viðskipti með landbúnaðarafurðir. Þau hafa aukist mjög verulega á innri markaðnum eftir að hann varð virkur. Þar hefur t.d. flutningur á lifandi dýrum stóraukist á síðasta áratug.

Ég vil einnig nefna annan flöt á heimsvæðingunni sem ástæða er til að huga að. Það er sú staðreynd að þessi heimsvæðing sem svo er kölluð hefur skapað ákveðna farvegi eða meginvettvang. Því fylgir að utan þessa meginvettvangs eru jaðarsvæði sem athyglin beinist lítið að. Þau eiga á hættu að missa vald á málum sínum. Innan þessara svæða er t.d. mestur hluti þróunarlanda heimsins. Ísland er í þessum efnum að vissu leyti á milli vita, stendur með annan fótinn í þjóðbraut heimsviðskipta, er opið fyrir áhrifum og hefur tök á að virkja afl sitt í heimsþorpinu sér til hagsbóta, en á hinn bóginn er Ísland með fótinn á jaðarsvæðum heimskautanna þar sem upp safnast mengun sem á sér uppsprettu annars staðar.

Þessi skipting heimsins í meginfarvegi og jaðarsvæði er umhugsunarefni fyrir okkur. Það er umhugsunarefni fyrir Íslendinga með hvaða hætti þeir geta tekið betur þátt í að beina athyglinni að þessum jaðarsvæðum. Þar eru fólgin verðmæti sem þeir eiga í raun og veru efnahag sinn og líf undir.

Af þessu tilefni sé ég í dag ástæðu til að ræða vaxandi samstarf átta heimskautaþjóða sem hafa einsett sér að beina athyglinni að þessum jaðarsvæðum, efla þar vísindi og rannsóknastarfsemi, styrkja grunngerð og nýta sem best nýjustu tæknimöguleika til að gera þeim sem á svæðinu búa kleift að taka þátt í hnattvæðingunni og varpa jafnframt ljósi á þær hættur sem hnattvæðingunni eru samfara fyrir jaðarsvæðin.

Hæstv. forseti. Sem fulltrúi Alþingis í þingmannanefnd um norðurskautsmál vil ég nota þetta tækifæri til að segja hv. þm. lítillega frá því sem er að gerast í samvinnu á sviði norðurskautsmála en þar er af nógu að taka.

Fjórða þing þingmannanefndar um norðurskautsmál var haldið í Rovaniemi í ágúst sl. Þar komu saman fjölmargir sérfræðingar og fulltrúar ríkisstjórna, samtaka og háskólastofnana. Ráðstefnan fjallaði um starfsemi Norðurskautsráðsins en jafnframt sérstaklega um efnahags- og félagslega uppbyggingu á Norðurskautssvæðinu og fjármögnun sjálfbærrar þróunar. Einnig voru tvær skýrslur lagðar fram á ráðstefnunni, stöðuskýrsla um starfsemi stofnana og samtaka sem komu að norðurskautsmálum og skýrsla um uppbyggingu norðurskautssamstarfsins, samin af dr. Oran Young. Meginniðurstöður ráðstefnunnar er að finna í ráðustefnuyfirlýsingu sem samþykkt var einróma af þingfulltrúum aðildarríkjanna. Aðildarríkin að þessu samstarfi eru Kanada, Danmörk og Grænland, Finnland, Ísland, Noregur, Rússland, Svíþjóð og Evrópuþingið. Þessi yfirlýsing hefur nú verið send til Norðurskautsráðsins og ríkisstjórna norðurskautsríkjanna auk annarra viðkomandi stofnana.

Í yfirlýsingunni eru þingmenn, ríkisstjórnir norðurskautsríkjanna og stofnanir Evrópusambandsins m.a. hvattar til að stuðla að félagslegri uppbyggingu á norðurskautssvæðinu, halda áfram stuðningi við Norðurskautsráðið og Barentsráðið og auka einnig samvinnu þessara tveggja stofnana. Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að gerð þróunarskýrslu fyrir norðurskautssvæðið, á ensku Human Development Report for the Arctic Regions, sé eitt af forgangsverkefnum þingmannanefndarinnar. Í aðdraganda ráðstefnunnar var tillaga um þetta efni lögð fram af fulltrúum Íslands og Finnlands og hlaut hún góðar undirtektir á ráðstefnunni. Megintilgangurinn með skýrslugerðinni er að varpa ljósi á sérstöðu íbúa norðursins, þar á meðal á það hve háðir þeir eru nýtingu náttúruauðlinda, hve miklu þá varðar að vel sé gengið um náttúruna og hve umhverfismál heimsins skipta íbúa norðursins miklu.

Herra forseti. Ég mun síðar á þessum fundi gera nánari grein fyrir störfum þingmannanefndar norðurskautssvæðanna og þeim vonum sem við þau störf eru bundnar.