Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 12:52:01 (6164)

2001-03-29 12:52:01# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[12:52]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér er það hulin ráðgáta hvernig hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir túlkar orðið kyrrstaða. Hún sagði að ræðan einkenndist af kyrrstöðu. Ef það er kyrrstaða að hafa tekið þátt í alþjóðavæðingunni eins og íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á á undanförnum árum þá veit ég ekki hvað kyrrstaða er. Og ef það er kyrrstaða að gera tilraun til þess að líta fram á veg og ræða hvernig við eigum að þróa okkar þátttöku þá veit ég heldur ekki hvað kyrrstaða er.

Það má vel vera að hv. þm. líti á það sem kyrrstöðu að verja hagsmuni Íslands í sambandi við Kyoto-málið og koma þeirri skoðun á framfæri að það eigi að nýta endurnýjanlega orkugjafa, en ekki koma í veg fyrir það. Nú eru Bandaríkjamenn komnir fram með þá skoðun að það eigi jafnvel að auka notkun á jarðeldsneyti, sem ég tel mjög óheppilegt. En hv. þm. hefur barist fyrir því á hv. Alþingi að Íslendingar skrifuðu undir alla skapaða hluti umyrðalaust í þessum málum. Ef eitthvað væri til þess að kalla fram kyrrstöðu hér á landi þá er það nú það vegna þess að ef við getum ekki nýtt okkar auðlindir í framtíðinni, hvar erum við þá stödd? Og það sem er að koma fram í þessum málum nú um þessar mundir í Bandaríkjunum sýnir einmitt fram á hvað við höfum haldið vel á okkar málum. En ef við hefðum haldið á þeim eins og hv. þm. hefur haldið fram á Alþingi þá skal ég lofa henni því að það yrði kyrrstaða á Íslandi næstu áratugina.