Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 13:32:57 (6168)

2001-03-29 13:32:57# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KolH
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[13:32]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hnattvæðing var meginumfjöllunarefnið í ræðu hæstv. utanrrh. Honum var tíðrætt um ágæti hennar og kallaði hana forsendu ýmissa framfara. Hann talaði um tækifærin sem í henni felast, fyrirmyndarfyrirtæki sem eflast vegna hennar og hagsældina sem af henni leiðir. Síðan varð honum tíðrætt um misskilning þeirra sem skilja málin á annan hátt og þegar kemur að umhverfismálunum, þá eru umhverfisverndarsamtök í huga ráðherrans haldin ekki bara misskilningi heldur grundvallarmisskilningi hvað varðar hnattvæðinguna.

Herra forseti. Það er mikilvægt fyrir hæstv. utanrrh. að skilja það og gera sér grein fyrir því að skilningur hans á hnattvæðingunni byggir á hnattvæðingu fjármagnsins, hnattvæðingu markaðskerfisins, hnattvæðingu markaðsaflanna sem hann segir þó sjálfur að séu blind fyrir umhverfinu. Hæstv. ráðherra verður að átta sig á því að stórir hópar fólks um allan heim hafa mótmælt þessari tegund hnattvæðingar og reynt að vekja umræðu og skilning á annars konar hnattvæðingu, þ.e. hnattvæðingu félagslegs réttlætis.

Herra forseti. Þetta fólk er ekki haldið neinum misskilningi. Þetta fólk hugsar bara öðruvísi en hæstv. utanrrh., hæstv. ríkisstjórn Íslands. Gildismat þessa fólks er einfaldlega annað og það er barnalegt af hæstv. utanrrh. að klifa á því að þeir sem eru ósammála túlkun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í málefnum hnattvæðingarinnar séu haldnir misskilningi.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir minntist áðan á grein sem Kofi Annan skrifaði og birtist í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum. Í þeirri grein kemur vel í ljós hvernig sjónarmið víðsýnna manna stangast á við sjónarmið þau sem ríkisstjórn Íslands predikar um alþjóðavæðingu. Við höfum t.d. ekkert í höndunum varðandi skoðanir hæstv. ráðherra á því misrétti sem ríkir á milli þjóða austurs og vesturs eða hins iðnvædda hluta heimsins og hins sem ekki er eins iðnvæddur. Ráðherrann vill efla hátækniiðnað á Íslandi og laða til landsins erlend stórfyrirtæki sem þarf að búa sérstaklega ívilnandi skattaumhverfi en hver er skoðun hans á þeirri staðreynd að störf sem gefa mestan arð skuli öll unnin í vestrinu á meðan menn í öðrum heimshlutum geta ekki sinnt nauðþurftum sínum af þeim launum sem þeim standa til boða? Hver er ábyrgð okkar á því að flytja inn vörur frá löndum þar sem vinnuafli er haldið í þrældómi við að framleiða ódýrar vörur fyrir okkur ríka fólkið í vestrinu? Hver er skoðun hæstv. utanrrh. á því að í Vestur-Þýskalandi þurfi að greiða starfsmanni í bílaverksmiðju 50 mörk á klukkustund meðan laun í sambærilegum verksmiðjum í Austur-Þýskalandi eru 36 mörk, hjá Skoda-verksmiðjunum í Tékklandi 5 mörk og í Shanghai 1 mark? Hvaðan eru ráðherrajepparnir sem iðulega eru hafðir í lausagangi fyrir utan þetta hús sem við nú stöndum í og auka þar með á loftmengunina í nánasta umhverfi okkar, og hvað kostuðu þeir þegar þeir voru keyptir hér á landi og hver græddi á mismuninum? Úr því að ég minnist á ráðherrajeppana sem ganga í lausagangi, herra forseti, þá er kannski rétt að minna hæstv. utanrrh. á söguna af manninum í helgu bókinni sem var trúr yfir litlu.

Herra forseti. Umhverfisvandinn sameinar og skerpir vitund okkar um það að við eigum aðeins eina jörð, sagði í ræðu hæstv. utanrrh. Það er sannarlega rétt og gleymum því þá ekki að 70 hundraðshlutar jarðarinnar eru huldir hafi, hafinu sem hýsir matarkistu þá sem mannkynið hefur misnotað og ofnýtt svo að nú er svo komið að Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna heldur því fram að 60--70% allra fiskstofna heimshafanna séu ofnýttir og margir þeirra í útrýmingarhættu. Á sama tíma leggjum við okkar lóð á vogarskálarnar með því að skella okkur í stórfellt þauleldi á laxfiski af erlendum uppruna við strendur Íslands, sem samkvæmt upplýsingum færustu vísindamanna getur haft skelfileg áhrif á villta laxastofna hafanna umhverfis, að ekki sé talað um þörungablómann sem ógnar lífríkinu umhverfis þauleldi á fiski og stafar að öllum líkindum af lífrænum úrgangsefnum frá eldinu sjálfu. Hver er skoðun hæstv. ráðherra á boðskap þeirra sem á alheimsvísu boða öfluga náttúruvernd og halda því fram að í henni felist sönn auðlegð andstætt auðlegðinni sem felst í hinni vestrænu peningahyggju?

Okkur kemur við hvað menn eru að losa í sjóinn handan hafsins, sagði hæstv. ráðherra. Það er hverju orði sannara. En gerir hæstv. ríkisstjórn nægilega mikið til að stemma stigu við þeim ósóma sem viðgengst hjá einni af nágrannaþjóðum okkar sem stöðugt losar geislavirk efni út í hafið sem okkar eigin fiskstofnar synda í?

Ráðherrann talar um þróttmikið samstarf þjóða í millum. Hvernig stendur þá á því, herra forseti, að enn fara bresk kjarnorkuyfirvöld fram á framlengingu á starfsleyfi Sellafield-stöðvarinnar í óbreyttu ástandi? Við höfum orðið vör við hávær mótmæli Norðurlandaþjóðanna en satt að segja saknar maður þess að viðbrögð ráðherra okkar séu með þeim hætti að nægilegur sómi sé að. Allt um það, ég ætla ekki að gera lítið úr þeim áhyggjum sem ég veit að hæstv. utanrrh. hefur af mengun hafsins, en ég spyr: Hvers vegna hefur öflug samstaða Norðurlandaþjóðanna ekki dugað til þess að fá kjarnorkuendurvinnslustöðvunum í Bretlandi lokað? Í því sambandi ítreka ég spurningu hv. 3. þm. Norðurl. e.: Er hæstv. ráðherra tilbúinn að beita sér fyrir því að hafsvæðið umhverfis Ísland verði friðlýst, lýst friðhelgt fyrir kjarnorku hvort sem um er að ræða vopn, vopnaflutning eða flutning á kjarnorkuúrgangi? Að síðustu er lífsnauðsyn að við gleymum heldur ekki því að við getum hvorki vakandi né sofandi verið án þess að anda að okkur andrúmsloftinu, eða eins og hæstv. ráðherra orðaði það, okkur kemur það við hvernig og hvort menn bregðast við loftmengun hinum megin á hnettinum. Herra forseti. Það er hverju orði sannara.

Nýlokið er heitasta áratug sem mannkynið lifði á síðustu öld. Áhrif loftslagsbreytinganna eru áþreifanleg um alla jörð. Að minnsta kosti 13 þjóðir á smáeyjum í Kyrrahafinu eru nú þegar að berjast við rof sjávar á sandrifjum við eyjarnar. Kóralrif eru tekin að kalka og lífríkið í kringum þau að visna. Sameinuðu þjóðirnar gera það sem í þeirra valdi stendur til að hefta eyðimerkurmyndun vegna þurrka. Í nýjustu skýrslum stofnunarinnar kemur fram að 2,3 milljarðar manna standi nú frammi fyrir alvarlegum vatnsskorti og það er 60% hærra hlutfall en stofnunin hafði spáð í síðustu skýrslu þar á undan. Sömu sögu er að segja um allar spár og allar rannsóknir sem fjalla um áhrif hlýnunar lofthjúps sem stafar af kapphlaupi iðnvæddra þjóða eftir efnislegum gæðum sem okkur hefur verið kennt, herra forseti, að geri okkur svo hamingjusöm.

Jöklar á Alpasvæðunum í Evrópu hafa hopað um helming síðan 1850 og okkur nægir auðvitað að líta til Vatnajökuls. Á óbeinan hátt hefur hlýnunin vegna gróðurhúsaáhrifanna aukið virkni ósoneyðandi efna sem enn er að finna í gufuhvolfinu. Nú mælist gatið á ósonlaginu yfir 44 þúsund ferkílómetrar að stærð og í fyrsta sinn í fyrra náði það yfir stór byggð svæði í Suður-Ameríku með ófyrirséðum afleiðingum fyrir þá sem þar búa nú. Því er jafnvel spáð að eftir 20 ár séu líkur á því að gat á ósonlaginu yfir norðurpólnum verði álíka stórt og það sem nú er yfir suðurskautinu. Samt var gripið til aðgerða fyrir mörgum árum að útrýma ósoneyðandi efnum af jörðinni.

Herra forseti. Þannig getur sú losun sem fram fer í dag haft áhrif á lofthjúpinn okkar eftir 20 eða 30 ár, losunin sem við erum ábyrg fyrir í dag. Nú hefur Bandaríkjaforseti gefið út yfirlýsingu um að hann vilji bara ekkert með þessa Kyoto-bókun hafa. Hún geri ekkert annað en eyðileggja viðskiptahagsmuni Bandaríkjanna, en með þessum orðum, herra forseti, er hann að ganga erinda stórfyrirtækjanna í Bandaríkjunum, stórfyrirtækjanna um allan heim sem framleiða olíu og kol.

En hann er líka, herra forseti, að ganga á bak orða sinna því í kosningabaráttunni lofaði hann öllu fögru, enda vissi hann að 73% Bandaríkjamanna telja hlýnun andrúmsloftsins alvarlega ógnun og 80% Bandaríkjamanna vildu í kosningabaráttunni að yfirvöld efndu til öflugra aðgerða til að draga úr losun. En það samrýmist ekki hagsmunum þeirra sem greiddu fyrir kosningabaráttu hans og föður hans á sínum tíma, herra forseti. Olíuiðnaðurinn hagnast ekki á því að Kyoto-bókunin taki gildi. Og í dag mótmæla þjóðir heims.

Í morgun birtust í Washington Post kröftug mótmæli frá Japönum sem standa þó með Íslendingum, Bandaríkjamönnum, Norðmönnum, Áströlum og fleiri þjóðum undir regnhlífinni sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir nefndi hér áðan og spurði hæstv. utanrrh. hvort hann ætlaði að standa áfram undir, en hann gaf ekkert svar. En, herra forseti, það er nauðsynlegt að við fáum skýr svör við þessu frá hæstv. utanrrh. Ætlar hann að starfa áfram undir regnhlífinni með Bandaríkjamönnum? Hvernig ætla íslensk stjórnvöld að haga sér í Jóhannesarborg að ári liðnu? Ætla íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir því að Kyoto-bókunin geti tekið gildi þó svo að Bandaríkin ætli ekki að vera með? Hver er stefna íslenskra stjórnvalda nú?

Herra forseti. Við vitum að Bandaríkin, sem einungis teljast 4% mannkyns, losa 24% allra gróðurhúsalofttegunda og samtals losa iðnríkin 2/3 hluta þeirra gróðurhúsalofttegunda sem losuð eru út í andrúmsloftið. Þess vegna er eðlilegt og það er sanngjarnt að þessi ríki axli ábyrgð sína með því að draga úr útblæstri. Ekki að auka hann heldur draga úr. Það er eina ráðið. Það er ekkert annað ráð, herra forseti. Hvar ætlar hæstv. utanrrh. að skipa sér í raðirnar í framhaldi af þeim tíðindum sem okkur berast frá Bandaríkjunum?

Hæstv. utanrrh. hefur lagt í það heilmikinn tíma og heilmikla orku að fá afslátt frá Kyoto-bókuninni fyrir Íslendinga með því að halda losuninni frá stóriðju utan Kyoto-bókhaldsins. Þessa framgöngu hefur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð gagnrýnt harðlega og telur hana ekki bera vott um ábyrga stjórnun í þessum mjög svo erfiða málaflokki. Og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð telur utanrrh. ekki hafa tekið þeim áskorunum sem að honum hefur verið beint varðandi málefnalega umræðu um þessi mál.

Herra forseti. Því er spáð að árið 2050 gætu 200 milljónir manna verið komnar á vergang í heimalandi sínu ellegar flúnar til annarra landa vegna breytinga á loftslagi og bara á árinu 1999 er talið að 25 milljónir manna hafi verið fluttar milli landsvæða vegna áhrifa frá loftslagsbreytingum. Þá stafar einnig fjölbreytileika lífríkis á jörðinni stórfelld hætta af hækkun hitastigs og hver er ábyrgð Íslands í þeim efnum, herra forseti? Hún er bara talsverð. Ísland er aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika og þess vegna er ástæða til að spyrja hæstv. utanrrh.: Hvenær megum við eiga von á því að fari að finna stað í auknum mæli þeim samningi í íslenskri lagasetningu?

Herra forseti. Það mátti skilja á máli hæstv. utanrrh. áðan í andsvari við hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur að búið væri að samþykkja sérákvæðið er varðaði Ísland í Kyoto-bókuninni. Varla á ráðherrann við þá útfærslu sem íslenska sendinefndin í Haag barðist svo ötullega fyrir að fá framgengt, en það er rétt að óska eftir svari við því í andsvari mögulega á eftir. Og í framhaldi af því: Hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera ef sú útfærsla nær nú ekki fram að ganga á vettvangi samningsins? Og síðan hitt: Hefur ríkisstjórnin metið hvaða áhrif það muni hafa á aðra hagsmuni þjóðarinnar t.d. möguleika okkar á að hafa áhrif á mengun hafsins eða allt sem lýtur að þeim málaflokki? Eða þá hvaða áhrif það geti haft á viðskiptalega hagsmuni okkar í fiskiðnaði, að ekki sé talað um aðra matvælaframleiðslu?

Herra forseti. Ísland er auðugt land. En ég er því miður ósammála hæstv. utanrrh. um að við séum að gæta alls þess auðs sem skyldi.