Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 13:46:34 (6169)

2001-03-29 13:46:34# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig gott að við þessa umræðu koma fram andstæð sjónarmið um eðli hnattvæðingar og þýðingu hennar fyrir Ísland. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir leyfði sér að halda því fram að ég liti aðeins á hnattvæðingu með augum fjármagnsins og markaðarins. Ég held að það séu óbreytt orð hennar. Það er alls ekki rétt. Hins vegar erum við hluti af fjármálalegum heimi þar sem markaðsöflin eru allsráðandi. Að ætla sér að útiloka markaðinn og útiloka fjármagnið í einhverjum ímynduðum heimi hv. þm. er náttúrlega ekki að horfast í augu við raunveruleikann.

Það kemur fram hjá hv. þm. að hún telur að náttúruvernd og nýting náttúrunnar fari alls ekki saman. Ég skil hana þannig. Það má ekki setja lax í sjó. Það má ekki virkja. Eða halda menn að Kárahnjúkavirkjun sé reist í þeim tilgangi að raflýsa Möðrudal? Það liggur ljóst fyrir að það er ekki hægt að reisa þá virkjun án stóriðju. Hv. þm. á þá ósk heitasta að við náum nú ekki samningsmarkmiðum okkar að því er varðar Kyoto og vill fá upplýsingar um hvað verði nú ef svo slysalega vildi til að Íslendingar kæmu því fram. Við erum að berjast að því af fullum krafti, hv. þm., að ná markmiðum okkar og erum vongóð um það þrátt fyrir bölsýni hv. þm. Ég bið hv. þm. sjálfa að svara þeirri spurningu hvað verði um íslenskt samfélag ef við getum ekki nýtt alla þá endurnýjanlegu orku sem sjálfsagt er að nýta hér á landi.