Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 13:52:17 (6172)

2001-03-29 13:52:17# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[13:52]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ekki ætla ég að gera lítið úr þeirri þörf sem mannskepnan hefur til að biðja guð að hjálpa sér. Ég tek undir þau orð hæstv. ráðherra þannig að við getum hérna beðið þess saman að guð hjálpi íslenskri þjóð. En við gerum það hvort á sínum nótum. Við verðum trúlega seint sammála um hvað sé framsýni og hvað horfi til framtíðar.

Herra forseti. Hæstv. ráðherra talar með lítilsvirðandi tón um möguleika okkar til að koma á vetnissamfélagi, til að keyra samgöngutæki okkar á vistvænum orkugjöfum. Ég skil það svo. Hvað segir hann með því við sína eigin flokksmenn sem hafa gengið ötullega fram í baráttunni með því að tala fyrir vetnisframleiðslu á Íslandi? Hann talar með sömu lítilsvirðingunni við þá og hann talar við mig.

Herra forseti. Það er raunhæft að Íslendingar, þessi menntaða og auðuga þjóð, gangi í broddi fylkingar við að efla tæknivæðingu samfélagsins. Það er ekkert að því. En tæknivæðingin þarf ekki að vera eins og hún hefur verið frá þarsíðustu aldamótum, þ.e. frá aldamótunum 1900. Það er hægt að horfa til nýrra tækniframfara núna og nýrra aðferða. Það hafa verið nefndar rennslisvirkjanir í sambandi við mögulega vetnisframleiðslu sem henta ekki í stóriðjunni, vegna þess að stóriðjan lýtur öðrum lögmálum en möguleg framleiðsla á vetni. Þess vegna á hæstv. utanrrh. ekki að gera lítið úr hugmyndum um að Íslendingar geti gengið í broddi fylkingar í nútímavæðingu samfélagsins.

Þar stendur hnífurinn í kúnni. Við hæstv. utanrrh. verðum ekki sammála um hvað eiginlegar framfarir eru og hvernig við eigum að stefna til framfara á Íslandi.