Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 14:40:01 (6186)

2001-03-29 14:40:01# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[14:40]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég og hv. þm. höfum skipst á skoðunum áður um Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ég vísa m.a. til þess. Að því er varðar Alþjóðaviðskiptastofnunina þá gagnrýndi hv. þm. mig fyrir að vera að berjast gegn ríkisstyrkjum í sjávarútvegi og fyrir afnámi tolla í sjávarútvegi. Ég hef sannfæringu fyrir því að slík stefna hefur stuðlað að rányrkju og ofveiði í heiminum. Það hefur ekki verið neitt vandamál fyrir okkur Íslendinga að aðskilja þessi mál frá stefnunni í landbúnaðarmálum. Þar gilda önnur lögmál. Þar gilda önnur viðhorf. Og það hefur ekki verið okkur nokkurt fótakefli í þeirri umræðu að viðhalda ákveðinni verndarstefnu í landbúnaðarmálum.

Hins vegar er það svo að við erum þeirrar skoðunar að þarna geti Íslendingar einmitt lagt mikið af mörkum í umhverfismálum í heiminum. Að berjast fyrir því að heimshöfin séu nýtt með sjálfbærum hætti. Að berjast fyrir því að menn hætti að menga heimshöfin eins og gert hefur verið. Þar höfum við tekið mjög eindregna afstöðu í málum þar sem við höfum þekkingu og reynslu. Og við höfum verið teknir alvarlega og okkur hefur tekist, þrátt fyrir sterka andstöðu m.a. frá Evrópusambandinu, að þoka þeim málum áfram. Ég tel að þetta sé mikilvægt framlag af hálfu Íslendinga í þessum mjög svo þýðingarmiklu málum, ekki bara fyrir okkur, heldur alla heimsbyggðina vegna þess að fæðuöflun byggist að mjög miklu leyti á heimshöfunum.