Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 14:42:17 (6187)

2001-03-29 14:42:17# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[14:42]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að Alþjóðabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðaviðskiptastofnunin hafa oft komið til umræðu hér á þingi og við höfum oft skipst á skoðunum, ég og hæstv. utanrrh. um þau efni. En þau mál verða aldrei endanlega afgreidd vegna þess að við erum að tala þarna um ferli og ákvarðanir sem verið er að taka og breyta frá einum mánuði til annars. Og ég sakna þess að við fáum ekki að heyra hvaða hugmyndir eru uppi hjá íslenskum stjórnvöldum til þeirra breytinga sem eiga sér stað.

Varðandi sjávarútveginn, þá var ég einfaldlega að vara við alhæfingum í því efni. Ég sagði að styrklausir stórflotar hefðu í sumum tilvikum stundað ofveiði og rányrkju og í sumum tilvikum væri stundaður vistvænn sjávarútvegur með smábátaflota þótt byggðarlögin nytu einhverra styrkja, fámenn byggðarlög. Við þekkjum það frá grannríkjum okkar og við þekkjum þetta líka frá fátækari ríkjum heims. Ég er að vara við alhæfingum í þessu efni. Og ég er að vara við því að Íslendingar gangi fram fyrir skjöldu á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um að settar verði algildar reglur í þessu efni. Mér finnst það ekki rétt. Mér finnst að Íslendingar eigi að endurskoða stefnu sína í þessu efni.