Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 14:44:26 (6188)

2001-03-29 14:44:26# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[14:44]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur atriði í viðbót sem ég ætlaði að koma nánar inn á og mér gafst ekki tími til í fyrri ræðu minni. Það fyrsta sem ég ætla þá að ræða er staða Íslands út frá svæðisbundnu samstarfi ríkja sem komið er inn á í ræðu hæstv. ráðherra, á bls. 14. Það bar svo við í því tilviki að ég lýsti mig í raun sammála nálgun hæstv. ráðherra hvað það varðar að ég held að enginn vafi sé á því að svokölluð hnattvæðing og alþjóðavæðing og mikið alþjóðlegt heimssamstarf hefur á hinn bóginn ýtt undir ýmiss konar svæðismyndun og bandalagamyndun ríkja sem eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta og liggja nálægt hvert öðru.

[14:45]

Um þetta höfum við mýmörg dæmi frá síðasta áratug eða svo hér á Íslandi. Ætli það sé ekki á einum fernum vígstöðvum sem Íslendingar eru nú þátttakendur í svæðisbundnu samstarfi, einhvers konar samstarfi ríkja eða ríkjahópa, sem bókstaflega var ekki til fyrir 1990. Þar má nefna Barentsráðið, Eystrasaltsráðið, heimskautaráðið o.fl.

Ég held að skynsamlegast sé að Íslendingar fari yfir stöðuna af sinni hálfu, út frá þeirri þróun sem orðið hefur að þessu leyti. Við getum þar litið til fordæma margra annarra þjóða, nálægra ríkja sem hafa einmitt endurskilgreint að ýmsu leyti framgöngu sína og skipt henni upp eftir því hvort um er að ræða svæðisbundið samstarf og til hvaða áttar það horfir. Flest nágrannaríki okkar hafa t.d. mótað sér sérstaka norðurstefnu sem tekur til samstarfs ríkja og svæða á norðlægum breiddargráðum. Þetta hafa Bandaríkjamenn gert, þetta hafa Kanadamenn gert, þetta hefur Evrópusambandið gert og fleiri þjóðir. Finnar hafa haft forgöngu um að afla hinni svokölluðu norrænu vídd eða norrænu hugsun innan Evrópusamvinnunnar fylgis og fleira mætti telja í þessum efnum.

Ég vísa þá aftur til þáltill. sem hér hefur verið dreift á borð þingmanna, sennilega í gær. Það er 601. mál, till. til þál. um eflingu vestnorræns samstarfs og mótun íslenskrar nærsvæðastefnu. Ég ætla ekki að ræða hana efnislega að öðru leyti enda er hún ekki á dagskrá hér heldur almenn umræða um utanríkismál. Ég leyfi mér þó að vekja athygli á henni vegna þess að hún fellur að því sem komið er inn á í ræðu utanrrh. um svæðisbundið samstarf ríkja og varðar vissulega utanríkismál sem hér eru á dagskrá. Þetta er að mínu mati --- þar er ég að ég held sammála hæstv. utanrrh. --- alls ekki í mótsögn þó að sumir kunni að kjósa að stilla því þannig upp. Þörfin fyrir og áherslan á nærsvæðasamstarf og svæðisbundið samstarf er hluti af auknu alþjóðlegu samstarfi á heimsvísu. Það er einmitt mjög líkleg niðurstaða að menn leiti að ýmsu leyti eftir nánari samvinnu við þá sem næstir þeim eru þegar heimurinn opnast allur meira og minna og verður eitt hvað varðar pólitíska, viðskiptalega og efnahagslega samvinnu þjóða.

Menningin hefur lítið verið rædd hér. Hins vegar væri ástæða til að halda eins og eitt stykki seminar um menninguna á tímum hnattvæðingar. Ekki eru áhyggjur manna minnstar á því sviði, af því að þar kunni ýmislegt að glatast ef menn gæti ekki að sér og heimsins bíði heldur flatneskjuleg stöðluð heimsmenning sem drekki staðbundinni menningu. Þá gerist það aftur á móti, eins og þróunin sýnir líka sem betur fer, að eftirspurn eftir því staðbundna eykst til mótvægis við hnattvæðinguna. Menn leggja meiri rækt við heimamenningu sína og hið svæðisbundna sögulega menningarsamstarf sem þeir eru hluti af, enda er öll menning í eðli sínu staðbundin. Ég held að við Íslendingar þurfum að skoða þá þróun, m.a vegna þess og þó ekki kæmi annað til en það að staða okkar er um margt mjög sérstæð í þessu efni. Landfræðileg lega Íslands er sú sem raun ber vitni. Við erum stödd á hnettinum, úti í miðju Atlantshafinu mitt á milli heimsálfanna og tilheyrum þeim í raun báðum að ýmsu leyti, a.m.k. jarðfræðilega. Að ýmsu leyti tilheyrum við þeim einnig sögulega, samgöngulega og menningarlega.

Af þessum sökum tel ég tímabært að fara yfir þessi mál af Íslands hálfu og líta þá til allra átta, ekkert síður í vesturátt og norðurátt og svæðanna hið næsta okkur eins og austur um til Evrópu, jafnmikilvægt að sjálfsögðu og það er. Eitt má ekki bera annað ofurliði í þessum efnum og mér hefur á köflum þótt á skorta á, í hinni þungu Evrópuumræðu undanfarinna mánaða og missira, að menn muni eftir öðrum hlutum jafnframt og gleymdu þeim ekki, t.d. vestnorrænni og norrænni samvinnu, tengslum okkar vestur um haf og öðru í þeim dúr.

Í öðru lagi, herra forseti, vildi ég á nýjan leik nefna þau tíðindi sem borist hafa vestan frá Bandaríkjunum um afstöðu Bandaríkjaforseta í umhverfismálum. Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra geti komið inn á það í svörum sínum eða í seinni ræðum í umræðunni. Þau kalla á að menn taki þessi mál fyrir í nýju samhengi, ósköpin og þau ótíðindi sem þar hafa verið að gerast. Þetta er þeim mun svakalegra sem á borðum manna eru nánast glænýjar skýrslur, þar á meðal og ekki síst frá loftslagsráði Sameinuðu þjóðanna --- ég kýs að þýða það svo --- um áhrifin af hlýnandi loftslagi og gróðurhúsaverkan í lofthjúpnum. Þar eru nánast allar spár færðar til hins verra frá því sem áður var. Endurmat og endurreikningar færustu vísindamanna heimsins, 2000 talsins á vegum á annað hundrað ríkisstjórna sem að þessu samstarfi koma og verður tæpast sagt að auðvelt sé að ýta þeim aðilum út af borðinu bara af því að þeir hafi ekki sæmilegt vægi í þessum efnum, leiðir í ljós að þeir hafa því miður dekkt spár sínar, nánast að öllu leyti. Hlýnunin er sett innan mun hærri marka en áður var, frá 1,5--2 og upp undir 6° á Celsiuskvarða á hinni nýbyrjuðu öld. Áhrifin á vistkerfi jarðarinnar, á landbúnaðinn og matvælaframleiðsluna, eru nú talin mun alvarlegri og horfurnar verri en eldri spár gerðu ráð fyrir.

Auðvitað er áfram þessi óvissa sem allir viðurkenna að er þegar spáð er fyrir um sveiflukennd fyrirbæri og flókin eins og eðliseiginleika lofthjúpsins og veðráttunar. Hins vegar er ekki hægt og ekki frambærilegt, þegar jafnvandaður undirbúningur liggur til grundvallar eins og af hálfu Sameinuðu þjóðanna að þessu leyti, að ætla að ýta því út af borðinu, t.d. eins og hæstv. forsrh. hefur ítrekað gert í ræðum, m.a. í áramótaræðu sinni, ef ég man rétt, fyrir ári. Hann virtist enn vera við sama heygarðshornið, hæstv. ráðherra, norður á Húsavík á ráðstefnu á dögunum með því að tala um að hvimleiðir menn væru alltaf að mála skrattann á vegginn.

Kannski er það svo að hæstv. forsrh. eigi sér skoðanabróður sem gegnir viðlíka embætti vestur í Bandaríkjunum, þ.e. forsetanum þar. Það er ekki fagnaðarefni. Fróðlegt væri að heyra hvað ríkisstjórn Íslands segir um þessa stöðu. Eigum við þá kannski að hafa í sviga frammistöðu Íslands, þá sérstöðu Íslands sem ríkisstjórnin er að vinna að að fá viðurkennda og við höfum oft rætt áður og munum sjálfsagt gera áfram? Setjum það þá í sviga og berum spurninguna fram: Hvað finnst forráðamönnum Íslands á sviði utanríkismála um þessa stöðu almennt í heiminum? Hafa þeir kynnt sér nýjustu niðurstöður, loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna? Hafa þeir áttað sig á því hversu skelfilegar afleiðingarnar verða ef þróunin verður í líkingu við það sem þar er gert ráð fyrir og hvað finnst Íslendingum að gera beri í þeim efnum?

Ég hefði einnig gjarnan viljað heyra hæstv. utanrrh. tjá sig aðeins um nýjustu atburði í Palestínu. Við erum hér að ræða utanríkismál almennt og það sem efst er á baugi í þeim efnum þó að fyrsta ræða ráðherrans hafi verið byggð upp með tilteknum hætti. Því er ekki að leyna að maður fyllist nánast skelfingu þegar maður hugsar til þróunar mála á síðustu mánuðum. Það er nánast ekki hægt að segja annað en Óslóarfriðarferlið sé gufað upp með öllu og ástandið sé jafnvel síst skárra heldur en það var fyrir daga þess þegar fyrri Intifata-uppreisnin var í algleymingi. Illskan í samskiptum aðila, ástandið, hörmungarnar og hin mannlega neyð er þar svo yfirgengileg að það tekur engu tali. Palestínsku þjóðinni, þeirri sem er innan hernumdu svæðanna, er haldið fanginni. Hægt og hægt er í raun verið að svelta þetta fólk í hel. Þar er öll efnahagsstarfsemi lömuð. Stór hluti íbúanna er án nokkurra tekna. Þeim er meinað að stunda þá vinnu sem þeir hafa haft, þurfi þeir að færa sig út fyrir svæðið til þess, og þar fram eftir götunum.

Ég hef ekki áhuga á því, herra forseti, að kenna einum um fremur en öðrum þegar slíkir harmleikir verða. Sjaldan veldur einn þá tveir deila og oftast er það nú þannig í stríði að óhæfuverkin eru á báða bóga. En mér er ómögulegt að segja annað en það, sem er sannfæring mín eftir að hafa skoðað þetta, að heimsbyggðin verður að fá Ísraelsmenn til að horfast í augu við það að þeir eru sá aðilinn sem hefur tögl og hagldir á þessum svæðum og meðan þeir ekki breyti um afstöðu sé borin von að þar náist nokkur friður. Ég hefði viljað sjá að Ísland tæki upp harðari afstöðu í þeim efnum. Stundum er jafnvel enn haldið á lofti, kannski ekki með jafnmiklu stolti lengur og áður var, sögulegri aðild Íslands að tilurð Ísraelsríkis. En berum við þá ekki líka mikla siðferðilega ábyrgð á því sem þar hefur gerst síðan ef við viljum halda til haga okkar þætti í tilurð ríkisins? Hvernig hefur þessi rúma hálfa öld verið sem þetta ástand hefur staðið? Þriðja og jafnvel fjórða kynslóð Palestínuaraba elst upp í flóttamannabúðum í nágrannalöndunum og á sér enga framtíðarvon. Hátt í tvær milljónir Palestínuaraba búa innan girðinga í fangabúðum í Sýrlandi, Jórdaníu, Líbanon og víðar. Ástand þeirra sem enn búa innan landamæra Ísraels og á hernumdu svæðunum er eins og raun ber vitni.

Ég minni aftur á þá spurningu sem ég bar upp til hæstv. ráðherra varðandi Írak og óska eftir að ráðherra tjái sig um frumkvæði Norðmanna í öryggisráðinu og mögulegan stuðning Íslands sem ég vonast eftir við það, t.d. í því formi að afgreiða þá tillögu sem hér hefur lengi legið fyrir um mjög hliðstæða nálgun, að menn taki upp viðleitni til þess á alþjóðavettvangi að endurskoða framkvæmd þessara viðskiptaþvingana.

Ég fagna framboði Íslands til sætis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það hef ég reyndar áður gert. Eftir að hafa fylgst með því hvílíkum gríðarlegum fjármunum Norðmenn hafa varið, ekki bara til núverandi starfsemi, þ.e. til að stórefla sendiráð sitt í New York og ráðuneyti heima fyrir og kostað til miklu m.a. vegna sérstakra verkefna fyrir hönd öryggisráðsins, t.d. í eftirlit með málefnum Íraks, heldur komu einnig af því fréttir að þeir hefðu varið um 300 millj. kr., ef ég man rétt, til kynningar á framboði sínu til öryggisráðsins, þá verður væntanlega ekki hjá því komist að við kostum einhverju til. Ég veit svo sem ekki hvort Íslendingar ætla sér að vera jafnstórir í stykkinu en svo fremi sem það sé innan viðráðanlegra og hófsamlegra marka þá finnst mér að við eigum að fara í þetta framboð. Það er hluti af því að hafa sjálfstraust sem sjálfstæð þjóð og trúa á að við getum látið gott af okkur leiða á þeim vettvangi sem við viljum leggja okkar lóð á vogarskálar. Sameinuðu þjóðirnar og valdamesta stofnun þeirra, öryggisráðið, hlýtur að vera einmitt dæmi um slíkt.