Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 14:59:36 (6189)

2001-03-29 14:59:36# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[14:59]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af þeim ummælum hv. þm. að við beindum ekki augum okkar í nægilegum mæli til annarra átta en Evrópu þá vil ég taka fram að ég tel að það standist á engan hátt. Við höfum lagt mikla áherslu á samskiptin vestur um haf, bæði við Kanada og Bandaríkjamenn. Þau hafa m.a. verið í tengslum við landafundina og við höfum átt mikil samskipti við Bandaríkin út af varnarsamstarfinu, út af NATO og svo mætti lengi telja.

Við Íslendingar höfum beitt okkur sérstaklega fyrir því að styrkja norðursamstarfið. Við höfum verið forvígismenn á margan hátt umfram aðrar Norðurlandaþjóðir í þeim efnum. Við höfum lagt á það áherslu mjög lengi að Evrópusambandið komi að norðurstefnunni. Við fögnuðum því sérstaklega þegar Finnar tóku þetta mál upp í svipuðum anda og við höfum lagt áherslu á, m.a. í Norðurlandasamvinnunni.

Við höfum ákveðið að taka að okkur formennsku í Norðurskautsráðinu frá og með árinu 2002 og leggja þar með áherslu á að við erum tilbúnir að leggja mikið á okkur og kosta nokkru til í sambandi við það mikilvæga samstarf. Ég tel einmitt að við höfum beint augum okkar til allra átta og Norðurlandasamvinnan hefur verið mikið grunnstef í utanríkismálum okkar. Inn á það get ég komið í margvíslegu samhengi, t.d. að því er varðar Írak, t.d. að því er varðar Palestínu og mörg önnur mál þar sem við höfum átt mikla samleið með hinum Norðurlöndunum.