Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 15:04:03 (6191)

2001-03-29 15:04:03# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[15:04]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Svæðisbundið samstarf er í mikilli þróun í heiminum. Ég er þeirrar skoðunar að það sé hvergi lengra komið en einmitt í okkar nágrenni. Norðurlandasamstarfið er einstakt í sinni röð. Það er m.a. ástæðan fyrir því hve Norðurlöndunum vegnar vel. Menn líta öfundaraugum til þess svæðasamstarfs sem við höfum verið að byggja upp og þróa, hvort sem það er á vegum Norðurlandaráðs, Eystrasaltsráðsins, Barentsráðsins eða Norðurskautsráðsins. Ástandið á Balkanskaga hefur m.a. ekki komið mjög til umræðu á Alþingi í dag. Það er eitt af þeim málum sem skiptir miklu fyrir Evrópu og heimsbyggðina hvernig kemur til með að leysast og þróast. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að þau mál muni ekki enda farsællega nema svæðisbundið samstarf í þeim ríkjum komi til með að stóraukast, að það sé leiðin til þess að auka skilning, auka umburðarlyndi og virðingu fyrir mannréttindum og lýðræði. Þetta samstarf á afskaplega langt í land. Það er alveg ljóst að þessi ríki líta mjög til þess árangurs sem náðst hefur á norðurhveli jarðar að þessu leytinu til.

Það er líka að mínu mati fagnaðarefni að Evrópusambandið lítur miklu jákvæðar til þessa svæðisbundna samstarfs en áður var. Þar tel ég að áhrifa Norðurlandanna gæti. Eftir að Finnar beittu sér mjög í þessu máli hefur komið upp nýr tónn frá löndum Evrópusambandsins og það er vel. Ég legg því á það áherslu og tek undir það með hv. þingmanni að við höldum áfram að þróa þetta samstarf. En ég tel að þar hafi margt verið vel gert.