Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 15:08:32 (6193)

2001-03-29 15:08:32# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um mikilvægi svæðisbundins samstarfs ríkja. Í mínum huga getur slíkt svæðisbundið samstarf átt sér ýmiss konar form. Stundum er aðeins um nokkur ríki að ræða og stundum er um mörg ríki að ræða. Evrópa er eitt slíkt svæði. Innan hennar má finna ýmis ríkjabandalög eins og hv. þingmanni er fullkunnugt um þannig að vissulega þurfum við að horfa í þá átt og fleiri áttir, bæði í austur og vestur hvað svæðisbundið samstarf varðar.

Mig langar líka til að taka undir hugleiðingar sem hér hafa komið fram um neikvæða þætti hnattvæðingarinnar og ekki síst flatneskju fjöldaframleiðslunnar sem henni fylgir. Það er þeim mun mikilvægara að ýta undir og viðhalda menningarlegri fjölbreytni á jörðinni. Hver þjóð á sína sögu. Hver þjóð hefur sína menningu að geyma og það er einmitt þannig nú á þessum hnattvæddu tímum að það sem hefur breyst er að hver þjóð er ekki endilega innan einna skilgreindra landamæra. Þess vegna er svo mikilvægt líka að vinna að menningarlegri fjölbreytni, ekki bara í samstarfi í millum ríkja heldur líka innan þjóðríkisins.