Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 15:10:20 (6194)

2001-03-29 15:10:20# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[15:10]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Nú erum við svo sammála að það er til verulegra vandræða. Ég hef svo sem ekki mikið um þetta að segja annað en bara taka undir undirtektirnar. Ég vil þó kannski aðeins bæta því við að auðvitað er svæðasamstarf af margvíslegum toga, tekur til misstórra svæða o.s.frv., og það er kannski ákveðin þörf á því að menn skilgreini hugtök og skýri vel hvað þeir eiga við. Það samstarf sem ég var fyrst og fremst að ræða hér var samstarf fullvalda ríkja, þjóða og svæða sem getur verið með ýmsum hætti eins og við t.d. sjáum í heimskautasamstarfinu þar sem sjálfstæð þjóðríki, héruð eða fylki og sjálfsstjórnarsvæði eru öll saman í góðum félagsskap og er að mörgu leyti mjög merkilegt að kynnast. Evrópusambandið er hins vegar í mínum huga í raun meira en það sem maður mundi venjulega flokka undir svæðisbundið samstarf ríkja því þar er gengið mun lengra í þá átt að færa vald til sameiginlegra stofnana og samstarfsformið er farið að taka á sig miklu meiri einkenni ríkis en við erum yfirleitt að tala um, held ég, þegar við ræðum svona svæðasamstarf ríkja. Enda sagði merkur fræðimaður á þessu sviði við okkur sem vorum úti í Strassborg fyrir nokkrum dögum síðan og hlýddum á hann ræða um Evrópumál og svara spurningunni um sambandsríkið Evrópu, að hann teldi þetta úrelta umræðu því að í raun væri þetta þegar og fyrir alllöngu síðan orðið að mörgu leyti að sambandsríki, þetta væri allt saman bara spurning um nafngiftir en þegar menn hefðu komið sér upp sameiginlegum seðlabanka, mynt og væru á góðri leið með að fá sameiginleg landamæri o.s.frv., þá væri það eiginlega orðinn orðaleikur að velta fyrir sér spurningunni um sambandsríki eða ekki sambandsríki.

Um menninguna erum við alveg hjartanlega sammála og ég endurtek bara það sem ég sagði áðan og ég á reyndar ekki höfundarrétt að heldur fyrrverandi menningarmálaráðherra Finna, Claes Anderson: Öll menning er staðbundin.