Norræna ráðherranefndin 2000

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 16:02:33 (6202)

2001-03-29 16:02:33# 126. lþ. 102.2 fundur 543. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2000# skýrsl, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[16:02]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir viðbrögð hennar og jákvæða afstöðu hennar til verkefnisins sem ég vakti athygli á. Vissulega er vandasamt að gera slíkt verkefni á einu svæði án þess að það mismuni öðrum. En einhvers staðar verður á stórum þáttum að byrja. Hvort sem þeir eru stórir eða smáir þá verður alltaf að byrja. Ef við óttumst það að byrja, sem ég er alls ekki að gera hæstv. ráðherra upp, þá munum við ekki gera neitt. Þarna eru mikil menningarverðmæti í húfi fyrir nútíð og framtíð sem geta fljótt orðið forgengileg og menning okkar skroppið meira saman í einu vetfangi en við mundum vera sátt við. Ég fullyrði að þjóð okkar og menning væri fátækari ef ekki tekst að nýta þann mikla menningararf sem er að finna í þessu litla samfélagi.

Ég hvet hæstv. ráðherra, sem ég heyri að ber hlýjan hug og góðan hug til þessa máls, að beita orku sinni og afli til að styðja að verkefni í þá veru sem Landvernd hefur beitt sér fyrir og tekið þátt í en miklu fleiri aðilar koma að og geta tengst.