Norrænt samstarf 2000

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 16:38:55 (6208)

2001-03-29 16:38:55# 126. lþ. 102.3 fundur 571. mál: #A norrænt samstarf 2000# skýrsl, SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[16:38]

Sigríður A. Þórðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég bendi á það að í skýrslu svokallaðrar vísra manna nefndar sem skilaði af sér í haust var lögð sérstök áhersla á að Norðurlöndin ættu að leggja sig fram um að tala einum rómi. Í kjölfarið var bent á að það væri kannski ekki alltaf hægt. Það má vel vera að svo sé og við verðum að átta okkur á því að við höfum valið okkur misjafnar leiðir í alþjóðlegu samstarfi. Ekki þarf annað en að minna á að þrjár þjóðanna eru í NATO en tvær eru utan NATO. Þrjár þjóðanna eru innan ESB og tvær eru aðilar að EES-samkomulaginu. Þannig er þetta auðvitað. Við höfum valið okkur mismunandi leiðir hvað varðar þetta alþjóðlega samstarf en ég er hins vegar ekki í vafa um að Norðurlöndin geti talað einum rómi á afar mörgum sviðum. Það er ekki nokkur spurning um að saman erum við miklu sterkari en hver þjóð fyrir sig og getum gert miklu meira ef við leggjum saman heldur en ef ekki væri.