Norrænt samstarf 2000

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 16:40:30 (6209)

2001-03-29 16:40:30# 126. lþ. 102.3 fundur 571. mál: #A norrænt samstarf 2000# skýrsl, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[16:40]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Gerðar voru víðtækar breytingar á skipulagi Norðurlandaráðs árið 1995 og síðan hefur Norðurlandaráð starfað á þremur meginsviðum eins og hér var rætt fyrr í dag, þ.e. samvinnu innan Norðurlanda, samvinnu Norðurlanda og Evrópu og samvinnu Norðurlanda og nærsvæða. Af þessum þremur sviðum hef ég aðallega starfað á því sviði sem hefur með samvinnu innan Norðurlandanna að gera og er afskaplega sæl með það.

Ég vil taka það fram í upphafi máls míns að ég er ein af þeim sem trúi á framtíð norræns samstarfs. Ég held að norrænt samstarf sé okkur ákaflega mikilvægt, ekki síst í þeirri stöðu sem við erum hér á Íslandi. Þar sem við erum utan ESB tel ég að norrænt samstarf, sérstaklega ef tekst að efla samstöðuna enn meir en hingað til hefur tekist, geti verið okkur mikilvægt í samskiptum við Evrópusambandið. Í tengslum við þær breytingar sem gerðar voru 1995 var forsætisnefnd Norðurlandaráðs einnig efld mikið. Gagnvart okkur Íslendingum fannst mér það koma þannig út að hún fengi nokkra yfirvigt. Það var eiginlega meginhlutinn af Íslandsdeildinni sem sat í forsætisnefndinni. Það hefur þó breyst eftir síðasta þing og er það vel.

Í kjölfar áðurnefndra breytinga 1995 var vægi flokkasamstarfsins einnig aukið mjög. Það var eflt mjög fjárhagslega og það er í raun grunnurinn í skipulagningu starfsins eins og það er í dag. Ráðið heldur árlega þing og þemaráðstefnu og á þessum þingum er fjallað sérstaklega um mál sem snerta eitt eða fleiri af þremur meginviðfangsefnum norrænnar samvinnu.

Ekki hefur tekist eins vel til og að var stefnt í að efla samstarf og samráð við önnur alþjóðaþingmannasamtök, einkum evrópsk. Verið getur að ástæða þess sé einkum að það dró úr vægi nefndastarfs þjóðþinganna innan Norðurlandaráðs við breytinguna og hefur það mjög verið gagnrýnt manna á milli.

Innan Norðurlandaráðs heyrast stöðugt þær raddir að hverfa eigi aftur til þess skipulags sem áður var og auka sérstaklega vægi fagnefndanna. Það mundi í sjálfu sér kalla á bætt samstarf og aukinn þrýsting á að norrænt samstarf sé sem víðast í öðru erlendu samstarfi og auðvitað er það oft þannig. Ég veit að víða vinna Norðurlöndin mikið saman. Á liðnu hausti þegar ég sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna varð ég t.d. vör við mjög sterka samvinnu norrænu landanna. Auðvitað gerði það okkur Íslendinga, sem erum nú venjulega frekar fáliðaðir á svona samkundum, mun sterkari en ella hefði verið, að hafa þetta mikla norræna samstarf á bak við okkur.

[16:45]

Menn hafa gagnrýnt nokkuð tímasetninguna á hinum stóru þingum Norðurlandaráðs, þ.e. að halda þau á haustin. Fólk talar um að það sé einmitt sá tími sem allra mest er að gera í þjóðþingunum. Fjöldamargir þingmenn eru þá bundnir yfir fjárlagavinnu og erfitt um vik að kalla saman fjölda manns til vinnu í útlöndum í marga daga. Hins vegar tókst ekki að ná samstöðu um að flytja þingið eins og áformað var um tíma. Það var ákveðið að halda það áfram á þessum árstíma.

Síðasta ár voru miklar vonir bundnar við niðurstöður frá svokallaðri vísra manna nefnd, sem hafði verið skipuð af norrænu ráðherranefndinni undir stjórn Jóns Sigurðssonar bankastjóra. Hún átti að koma fram með nýjar hugmyndir um starfsemi Norðurlandaráðs og nýja framtíðarsýn. Ég held að ýmsir hafi orðið fyrir vonbrigðum þegar tillögur hinna vísu manna voru opinberaðar. Í heild má segja að þær hafi hentað nokkuð vel fyrir samstarf ráðherranefndanna enda var það ráðherranefndin sem blés til þessa nefndarstarfs. Hins vegar má segja að mjög hafi hallað á hið venjulega þingmannasamstarf innan Norðurlandaráðs í hugmyndum vísra manna nefndarinnar. Auðvitað voru margar ágætar hugmyndir þar innan um sem verða nýttar en ég ætla alla vega að vona að ekki verði farið í að endurskipuleggja norrænt samstarf þingmanna algjörlega eftir tillögum nefndarinnar.

Á síðasta ári áttum við Íslendingar forseta Norðurlandsráðs. Sigríður Anna Þórðardóttir var kjörin forseti ráðsins í Stokkhólmi í nóvember 1999 og tók formlega við embættinu um áramót. Ég vil segja það hér að mér fannst Sigríði Önnu Þórðardóttur farast þetta ákaflega vel úr hendi. Það er mikilvægt, þegar við Íslendingar þurfum að gegna slíkum ábyrgðarstöðum innan þess erlenda samstarfs sem við tökum þátt í, að fólkið sem tekur það að sér gegni því af jafnmikilli kostgæfni og Sigríður Anna Þórðardóttir gerði. Hún vitnaði áðan í söguna um vinnukonuna í Mosfellssveitinni sem villtist með brauðin og snerti þau ekki, því eins og hún sagði: Því sem manni er trúað fyrir er manni trúað fyrir. Ég held að það megi einmitt segja um Sigríði Önnu Þórðardóttur í starfi hennar sem forseti Norðurlandaráðs, hún lagði hart að sér og gegndi því starfi vel. Ég vil þakka henni sérstaklega fyrir það.

Íslandsdeildin hélt nokkra fundi á árinu og m.a. einn með Siv Friðleifsdóttur, samstarfsráðherra Norðurlanda, í ráðherrabústaðnum. Þar var m.a. farið yfir drög að dagskrá þings Norðurlandsráðs sem var auðvitað gríðarlegt verkefni sem Íslandsdeildin hafði á sinni könnu, auðvitað með ágætri aðstoð embættismanna þingsins og jafnvel ráðuneytanna. Þetta var sérstaklega erfitt þar sem þingið hafði verið stytt um einn dag og ramminn var þannig þrengdur gífurlega. Það hefði ekki verið hægt að koma svo mikið sem einum stuttum dagskrárlið þar inn með skóhorni og ég verð að segja að það kom mér eiginlega á óvart hve vel tókst til með þetta þing. Mér fannst búið að þrengja allt of mikið að þessu þingi með því að stytta það um einn dag, sérstaklega að frjálsu umræðunni. Segja má að þetta hafi haft þau áhrif að fólk tók þetta til sín og setti sig ekki á mælendaskrá á sama hátt og áður hefur verið. Það gerði sér grein fyrir því hversu tímaskorturinn var mikill og þess vegna gekk þingið náttúrlega snurðulaust fyrir sig.

Ég tók þátt í starfsemi Norðurlandanefndar sem vinnur fyrst og fremst að hinu eiginlega norræna samstarfi, t.d. á sviði menningar og mennta, jafnréttismála og réttindamála. Unnið var eftir sérstakri vinnuáætlun á þessu starfsári, árinu 2000. Þar var fjallað um menningu, kvikmyndir, miðlun, tungumál, menntun og rannsóknir, félagslegar aðstæður, t.d. barna og unglinga, og jafnréttismál. Eins og allir heyra var þetta mikið prógramm og mörgu voru gerð skil með því að halda svokölluð málþing, m.a. var haldið málþing í Helsinki um baráttuna gegn eiturlyfjum. Haldið var málþing um líftækni og lífsiðfræði á vegum nefndarinnar í Stokkhólmi. Málþing um svæðasamstarf var haldið í Torneå/Haparanda, sem er varla hægt að segja hvort er í Finnlandi eða Svíþjóð en bæirnir eru auðvitað á landamærunum. Þessir tveir bæir, annar í Svíþjóð og hinn í Finnlandi, hafa gríðarlega mikið samstarf sín á milli yfir landamærin sem ýmislegt mætti læra af. Loks var haldin ráðstefna um kynþáttafordóma og óvild í garð útlendinga í Vesterås.

Þessar ráðstefnur voru allar mjög góðar og mikilvægar fyrir þá þingmenn sem áttu þess kost að taka þar þátt. Ég verð þó að segja að það skortir nokkuð á að næg eftirfylgni sé eftir þessar ráðstefnur. Til dæmis er engin smuga fyrir þá þingmenn sem sækja ráðstefnurnar að segja frá því hér í þinginu sem þeir upplifa og verða áskynja á þessum ráðstefnum eða útdeila þeim pappírum sem þeir fá þar. Ég verð að segja að mér finnst að eitt af því sem þarf að taka á innan norræna samstarfsins sé að tryggja slíka eftirfylgni. Hið sama má kannski segja um annað erlent samstarf líka.

Að lokum vil ég minnast á afhendingu umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs sem fram fór í Háskólabíói í tengslum við þing Norðurlandsráðs, í hádeginu að sjálfsögðu því þar mátti engan tíma missa til neins. Norsku umhverfissamtökin Bellona hlutu þessi verðlaun og komu fyrir um tveimur vikum síðan til Íslands til að kynna mál sín hérna. Þau gerðu það á fundi í Norræna húsinu. Ég vildi óska að fleiri þingmenn og fleiri embættismenn hefðu sótt þann fund vegna þess að það var afar lærdómsríkt að sitja fundinn og heyra það sem þessir ungu menn höfðu fram að færa. Mér finnst að maður verði bara aldrei samur maður eftir. Ég vildi óska að sjónvarpið eða einhverjir aðrir fylgdu eftir komu þessara manna til Íslands og hefðu sérstaka kynningu á þessu verkefni. Þetta verkefni fjallar um umhverfismál á hafsvæði norðurskautsins og Norðvestur-Rússlands. Samtökin hafa einbeitt sér að hættu af geislamengun á Barentssvæðinu og starf þeirra hefur leitt til þess að fjölmörg alþjóðleg verkefni hafa verið sett í gang til að taka á umhverfismálum svæðisins, enda ekki vanþörf á. Maður skilur það eftir kynningu á þessu verkefni í Norræna húsinu um daginn. Ég vil þakka hæstv. samstarfsráðherra okkar Íslendinga, Siv Friðleifsdóttur, fyrir að standa að þeirri kynningu.