Norrænt samstarf 2000

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 16:56:31 (6210)

2001-03-29 16:56:31# 126. lþ. 102.3 fundur 571. mál: #A norrænt samstarf 2000# skýrsl, SJS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[16:56]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það eru fyrst og fremst tvö atriði sem ég ætla að koma hér aðeins inn á í tengslum við umræður um skýrslu um Norðurlandasamstarfið og Norðurlandaráð. Hið fyrra lýtur að hlutdeild minni í því. Ég sit í svonefndri Evrópunefnd Norðurlandaráðs sem er ein af þremur nefndum sem starfið er byggt upp á og er afsprengi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðinu í kjölfar ákvörðunar á þingi þess í Reykjavík 1995 eins og menn muna. Evrópunefndinni var auðvitað komið á undir áhrifum af þeim miklu breytingum sem þá gengu yfir í Evrópu og vara út af fyrir sig enn.

Segja má að tvennt hafi aðallega drifið áfram þessar breytingar á Norðurlandaráði eða stjórnskipulagi þess. Annars vegar nýtilkomið sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og væntingar manna um samstarf við þau ríki og Rússland í kjölfar þess að múrinn var fallinn og allar þær breytingar orðnar. Hins vegar voru það Evrópumálin sem menn töldu, og telja út af fyrir sig enn, að hlytu að verða talsvert til umfjöllunar á norrænum vettvangi einnig. Þetta leiddi til þess að þessar tvær nefndir, fyrir utan þá þriðju sem er Norðurlandanefndin sjálf, voru settar á fót og starfinu skipt upp með þeim hætti í Norðurlandanefnd sem er stærst, nærsvæðanefnd og svo Evrópunefnd.

Evrópunefndin hafði margt á sinni könnu fyrstu missirin. Því er ekki að leyna að þá voru mörg verkefni sem menn töldu þörf á að taka fyrir. Nefndin beitti sér fyrir ráðstefnum um það sem efst var á baugi í Evrópusamstarfinu, Evrópusamrunanum, um niðurstöður Maastricht-fundanna, um upptöku evrunnar og myntbandalagið, um stækkunina til austurs og fleira mætti nefna. Nefndin hefur jafnframt á ýmsan hátt annan haft Evrópumál og ýmis tengd viðfangsefni uppi. Hitt er líka ljóst að það hafa að ýmsu leyti reynst minni innstæður fyrir því að byggja starfið á þessum grundvelli, a.m.k. hvað Evrópustoðina varðar, t.d. ber nokkuð á því að það sé heldur þunnskipað á dagskrá nefndanna núna.

Auðvitað er ekki hægt að halda endurtekið ráðstefnur um sömu atburðina í Evrópumálum og nægjanlegt að halda eina ráðstefnu um stækkunina á nokkurra missira fresti o.s.frv. Því verður að segja það eins og er að þessi verkefnaskipting þarfnast á ýmsan hátt endurskoðunar. Öll meginviðfangsefni hinnar hefðbundnu norrænu samvinnu liggja hjá Norðurlandanefndinni og hún er með langa og mikla dagskrá en á köflum eru viðfangsefni Evrópunefndar og nærsvæðanefndar takmörkuð.

Ég vil þó segja að starf Evrópunefndarinnar hefur verið ágætt og vel að því staðið. Það má enginn skilja mig svo að ég telji að tímanum hafi þar verið kastað á glæ. Engu að síður er ljóst að það er tilefni til að fara yfir skipulagið að þessu leyti. Það er einmitt á dagskrá núna og ég hygg að fleiri ræðumenn á undan mér hafi komið inn á það.

[17:00]

Þegar betur er að gáð þá máttu menn kannski segja sér að það væri rétt að fara varlega í að breyta sjálfu grundvallarskipulagi þessarar norrænu samvinnu sem hafði staðið alllengi, byggt á málefnalegri uppdeilingu eða faglegri uppdeilingu í svið eða flokka þar sem nefndir endurspegluðu meginmálefnasvið, þ.e. menningarmálanefnd, félagsmálanefnd o.s.frv., þó að slíkar breytingar yrðu í umhverfinu sem urðu um og upp úr 1990 og hrintu af stað þessari umræðu um endurskipulagningu hinnar norrænu samvinnu á landfræðilegum grunni, að þær forsendur kynnu að reynast tímabundnari en menn kannski ætluðu og það er hygg ég það sem er að koma á daginn.

Smátt og smátt verða ekki endilega tilefni til þess að aðgreina samskipti Norðurlandanna við nágrannalönd sín með þeim hætti sem hugsunin var á sínum tíma með nærsvæðanefndinni. Hið sama gildir um Evrópumálin. Það verða varla tilefni til þess að aðgreina þau landfræðilega eins og menn hugsuðu þarna á þessum tíma. Þá eiga menn að viðurkenna það að þegar betur er að gáð og í ljósi reynslunnar séu ekki forsendur til þess, a.m.k. ekki að viðhalda þessu fyrirkomulagi áfram, hvort sem menn láta nú liggja á milli hluta að segja að það hafi beinlínis verið mistök að fara út í þessar breytingar eða ekki. Þær voru reyndar gagnrýndar á sínum tíma af ákveðnum hluta þingmanna í Norðurlandaráði og uppi voru talsverðar efasemdir um að þær væru skynsamlegar, sem ég hygg að hafi nú flestar komið á daginn.

Það var einkum þetta tvennt, herra forseti, sem ég ætlaði að ræða, þ.e. annars vegar hlutverk Evrópunefndar Norðurlandaráðs sérstaklega og síðan þessar stjórnkerfisbreytingar eða skipulagsbreytingar sem ég bind vonir við að takist að leiða til lykta farsællega á næstu mánuðum eða missirum þannig að aftur verði horfið að meira faglegri og málefnalegri aðgreiningu eða uppdeilingu starfsins. Ég held að það sé vænlegra og á það eigi að stefna. Mér sýnist reyndar líta alveg þokkalega út með að um það geti orðið sæmileg samstaða.

Þá er ég líka bjartsýnn á að Norðurlandasamstarfið sé komið í gegnum þann brimgarð sem það hefur vissulega verið að sigla í gegnum síðustu tíu ár eða svo því auðvitað hefur Norðurlandasamstarfið ekki farið varhluta af því umróti öllu sem orðið hefur í alþjóðastjórnmálum og þá ekki síst í heimshluta okkar með þeim miklu breytingum sem orðið hafa af ýmsum toga í Evrópu. Það var ekkert sjálfgefið að við mundum horfa á það í sinni mynd inn í framtíðina, a.m.k. ekki í óbreyttu formi eða óbreyttu umfangi. En mér segir svo hugur um að ef mönnum tekst vel til með þær breytingar sem þá eru aftur fram undan á skipulagi samstarfsins, sé það komið á lygnari sjó og að ekki muni verða uppi miklar umræður um að slá það af eða draga úr umfangi þess eða gildi, enda engin tilefni til slíks.

Ég held að við munum sjá á komandi árum, eða það er von mín að við munum sjá á komandi árum vaxandi áhuga á nýjan leik hjá þeim Norðurlandaþjóðum sem kannski hafa lagt minnsta orku í að sinna því núna upp á síðkastið af að mörgu leyti skiljanlegum ástæðum. Við skulum bara nefna það eins og það er að t.d. Svíar og Finnar hafa verið mjög uppteknir af nýfenginni aðild sinni að Evrópusambandinu og kannski hefur önnur samvinna haft meiri tilhneigingu til að mæta þá afgangi í bili. Danir sem hins vegar eru búnir að vera miklu lengur meðlimir í Evrópusambandinu hafa, eins og ég hef stundum orðað það, áttað sig á því að það er nú ekki sjálfvirk uppáskrift að því að leysa öll heimsins vandamál að vera með í Evrópusambandinu. Ég segi stundum að þeir séu komnir heim aftur, þ.e. áhugi þeirra á norrænni samvinnu sé meiri á nýjan leik en hann kannski var um skeið þegar þeir voru svipað og Svíar og Finnar eru nú, uppteknari af sinni nýlega tilkomnu aðild að Evrópusambandinu.

Fari þetta nú svo, og sá sem hér talar reynist spámannlega vaxinn, að áhugi Svía og Finna glæðist á hinu klassíska eða hefðbundna norræna samstarfi Norðurlandaþjóðanna eða ríkjanna fimm og sjálfsstjórnarsvæðanna þriggja sem kannski taka breytingum og öðlast aukið sjálfstæði eða fullt sjálfstæði eins og frændur okkar Færeyingar á komandi árum þannig að fjölgi í hópnum, þá held ég að full ástæða sé til að vera bjartsýnn fyrir hönd norrænnar samvinnu. Það vil ég alla vega vera. Ég trúi á að hún hafi hlutverki að gegna og muni gera það áfram á tímum hnattvæðingar eða hvað menn vilja kalla það. Ég held að menn muni átta sig á því smátt og smátt að það breytir engu um gildi þess að rækta góð tengsl við sína næstu nágranna og það gildir fyrir Norðurlöndin. Samstaða þeirra, samvinna og samstaða í heiminum hefur tvímælalaust reynst þeim ákaflega vel og m.a. átt sinn þátt í því að áhrif þeirra og vægi á alþjóðavettvangi eru langt umfram það sem búast mætti við miðað við smæð þjóðanna sem til samans eru ekki nema eins og meðalríki eða þjóð að fólksfjölda í Evrópu. En enginn deilir um að norrænu ríkin til samans hafa haft umtalsverð áhrif og hafa á alþjóðavettvangi. Og hér fyrr í dag var einmitt til umræðu nýtilkomin aðild Norðmanna að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna sem er eitt gott dæmi um afraksturinn af góðri norrænni samvinnu því hinar Norðurlandaþjóðirnar stóðu þétt á bak við Norðmenn í framboði þeirra til þess sætis.

Herra forseti. Ég læt þetta duga af minni hálfu í umræðum um norrænt samstarf á þessu ári.