Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 15:05:57 (6214)

2001-04-02 15:05:57# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., Flm. GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[15:05]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 66/1995.

Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir og Ögmundur Jónasson.

Frv. er ákaflega skýrt og einfalt. Þar er gert ráð fyrir að við 1. mgr. 53. gr. laga bætist nýr málsliður svohljóðandi:

,,Heimildir, undanþágur eða tilraunastarfsemi samkvæmt þessari málsgrein geta þó aldrei falið í sér að sveitarstjórnir framselji öðrum ábyrgð og framkvæmd skólastarfs og kennslu.``

Þó að frumvarpstextinn sé stuttur býr mikið að baki. Hér erum við í raun og sanni að fást við grundvallaratriði stjórnmála, hvorki meira né minna, enda hefur almenn opinber umræða um þau mál sem hér eru til meðhöndlunar verið afskaplega mikil og sitt sýnist hverjum. Ég sagði grundvallarafstöðu til stjórnmála því að hér er hnykkt á því viðhorfi mínu og jafnaðarmanna að menntakerfið og heilbrigðiskerfið eiga ekki að fara undir mælistiku markaðarins heldur vera rekin á ábyrgð og fyrir tilverknað opinberra aðila á grundvelli samfélagslegrar þjónustu hvort heldur það er ríkisvaldið sem á í hlut ellegar sveitarfélög.

Í því felst einfaldlega sú sannfæring okkar jafnaðarmanna að til að tryggja jafnræði og jafnrétti þegnanna þegar kemur að heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu eða í afstöðunni til náms og menntunar, þá verði með skýlausum hætti þannig búið um hnúta að almenningur standi jafnfætis gagnvart þeim réttindum og þeim skyldum sem að baki búa og að þetta framboð þjónustu verði algerlega óháð efnahag, búsetu og félagslegri stöðu. Flóknara er þetta ekki.

Það er hins vegar alkunna að þau viðhorf hafa gjarnan verið á kreiki í Sjálfstfl. í gegnum tíðina að fela markaðnum stóraukið hlutverk, þar á meðal á vettvangi heilbrigðisþjónustu og skólamála. Víða erlendis hefur fengist nokkur reynsla af slíku og hún er afskaplega skýr. Innan skamms hefur fyrirkomulag þjónustu þróast í þann farveg að til hafa orðið tvö kerfi, annað sem er blanda opinbers reksturs og einkareksturs þar sem þeir sem meira mega sín sækja þjónustuna. Hins vegar er kerfi sem er algerlega fjármagnað og rekið á vegum hins opinbera og þangað sækja þeir þjónustu sem höllum fæti standa fjárhagslega. Um það hefur verið nokkuð góð almenn pólitísk sátt í gegnum tíðina, a.m.k. að undanskildum stærsta flokki þjóðarinnar, Sjálfstfl., að verjast slíkri öfugþróun erlendis frá sem ég vísaði til, þótt allnokkur þrýstingur hafi komið upp annað slagið þess efnis að hleypa markaðnum lausum, láta fjárráð notendaþjónustu ráða nokkru um umfang og gæði hennar. Enn þá hefur þó tekist að halda þeirri heillegu umgjörð og hinum rauða þræði jafnræðis og jafnréttis til náms og heilbrigðisþjónustu.

Nú er hins vegar enn ein atlagan gerð og er það sjálf grunnmenntunin, skólaskyldan í grunnskólunum sem er undir. Sannast sagna hafa þær raddir tæpast heyrst fyrr en nú, nema ef vera skyldi frá hreintrúuðum boðberum frjálshyggju sem eru sem betur fer fáir í þessu landi, að markaðsvæða ætti grunnskólana í landinu. En sjaldan er ein báran stök því að nú blasir það við að sjálfur menntmrh. hefur gefið meiri hluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, þar sem sitja flokksbræður ráðherrans og einn bæjarfulltrúi Framsfl., fyrirheit þess efnis að meiri hlutanum verði heimilað að bjóða út kennsluþátt í nýjum grunnskóla sem tekur til starfa þar í bæ nk. haust. Þetta útboð er yfirstandandi þessa dagana og verða tilboð að óbreyttu opnuð að örfáum dögum liðnum eða 6. þessa mánaðar. Þetta gerir hæstv. ráðherra á grundvelli 53. gr. grunnskólalaga og sveipar það hugtakinu ,,tilraun`` þótt fyrir liggi að ekki á neinu stigi máls frá því að grunnskólalögin voru samþykkt fyrst árið 1974 og að stofni til einnig áðurnefnd grein grunnskólalaganna, hefur nokkur ýjað að því að sú grein heimilaði ráðherra án atbeina Alþingis að bjóða út kennsluþáttinn gagnvart börnunum.

Við flutningsmenn höfum látið fara yfir umræður, nefndarálit og allt það sem á góma hefur borið í umræðum um grunnskólann á þessum rúma aldarfjórðungi og aldrei fyrr en nú hefur nokkur þingmaður né ráðherra nefnt þann möguleika að sú grein grunnskólalaganna heimilaði ráðherra að leyfa slíkt. Það skal því fullyrt hér og nú að hæstv. menntmrh. er á afskaplegum hálum ís, svo ekki sé fastar að orði kveðið, þegar hann telur sig hafa heimild til að leyfa slíkt útboð og úr því álitaefni hefur ekki verið leyst og gæti komið til úrskurðar dómstóla eða umboðsmanns Alþingis áður en yfir lýkur.

Hins vegar er auðvitað langeðlilegast að það verði Alþingi sjálft sem kveði upp úr með þetta, löggjafarvaldið, löggjafarsamkundan sjálf. Það þarf auðvitað ekki að rekja það hér, enda hefur verið vakin rækileg athygli á því í þessum ræðustóli fyrr nú á útmánuðum að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi undir forustu Sjálfstfl. hefur lagst gegn því að sérnefnd Alþingis í þessum efnum, menntmn., fari faglega yfir þetta sérstaka álitaefni, þ.e. um heimild eða heimildarleysi hæstv. ráðherra, og að nefndin geri sjálfstæða athugun á því hvort nefndin fari á svig við gildandi lög. Talsmenn Sjálfstfl., þar á meðal formaður menntmn. og formaður þingflokks Sjálfstfl. auk sjálfs forsrh., hafa í málsvörn sinni vegna fælni menntmn. á að taka á málinu bent á að það frv. sem hér er til 1. umr. lægi fyrir þinginu og eðlilegast væri að Alþingi tæki afstöðu til málsins á grundvelli þess. Ég hlýt þá að skilja það á þann hátt að það sé almennur vilji í þinginu, þvert á alla stjórnmálaflokka, að þetta frv. fái hér hraða og snaggaralega en ítarlega umfjöllun í menntmn. og komi til efnislegrar afgreiðslu áður en þing er úti í maímánuði nk. Ég hlýt að líta þannig til, herra forseti, að á þessu sé almennur vilji.

Í frv. okkar eru tekin af öll tvímæli og skýrt kveðið á um að sá andi grunnskólalaga sem fram að þessu hefur verið öllum skýr og augljós gildi áfram, nefnilega að ekki sé til staðar heimild handa sveitarfélögum að framselja öðrum ábyrgð og framkvæmd skólastarfs og kennslu. Ekki síst er þetta mikilvægt í ljósi þess að samkvæmt yfirlýsingum forustumanna fjögurra stjórnmálaflokka og þingflokka af þeim fimm sem starfa á Alþingi, þ.e. Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Frjálslynda flokksins og Framsfl., hefur því verið lýst skýrt yfir að útboð á kennsluþætti grunnskóla sé þvert á stefnu þessara flokka í menntamálum. Þannig vil ég vekja sérstaka athygli á því að formaður Framsfl., nýkjörinn varaformaður Framsfl. og sjálft flokksþing Framsfl. um miðjan síðasta mánuð hafa tekið af öll tvímæli í þessa veru og lýst yfir því að þau áform sem uppi eru í Hafnarfirði og önnur ámóta falli ekki að stefnu flokksins í málefnum grunnskólans. Það er því ljóst að Sjálfstfl. er einn á báti í þessum efnum. Ég hlýt auðvitað að vænta þess að málsvarar Framsfl. í menntamálum taki þátt í þessari umræðu og skýri á eigin forsendum afstöðu flokksins til þessa mikilvæga málaflokks.

Ég minni enn fremur á að í varaformannskjöri á flokksþingi Framsfl. var m.a. tekist á millum kandídata um þetta grundvallaratriði og það var hv. þm. og hæstv. ráðherra, Guðni Ágústsson, sem vann þann slag eins og mönnum er í fersku minni. Hann tók af öll tvímæli í þá veru að slík stefna félli ekki að sjónarmiðum hans og flokksþingið tók undir þau viðmið. Á hinn bóginn var hv. þm. Jónína Bjartmarz með aðra sýn á þetta, enda tapaði hún í kosningunni. Við skulum því halda þessu mjög ákveðið hér til haga og ég vænti þess að Framsfl. standi fast í báðar fætur í þessu máli en hrekist ekki af leið í því nána ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstfl. sem því miður allt of oft hefur gerst.

[15:15]

Herra forseti. Hér er auðvitað ekki um það að ræða að einn skóli í Hafnarfirði skeri sig úr í þessum efnum. Það er ljóst að sjálfstæðismenn í Hafnarfirði eru eingöngu undanfarar í þessu máli og eiga að ryðja brautina fyrir aðra. Það er með öðrum orðum verið að brjóta í blað og opna gátt fyrir markaðsvæðingu grunnskólanna í landinu, hvorki meira né minna.

Hún er auðvitað alkunn sú aðferðafræði Sjálfstfl. að lauma inn einkavæðingaráformum og markaðsvæðingu bakdyramegin í nafni tilraunastarfsemi og þróunarstarfs. Rekja mætti fjölmörg dæmi um það. Stuðningur forustumanna Sjálfstfl. við þessa hugmyndafræði ber einnig með sér að þarna er verið að framkvæma stefnu Sjálfstfl. í menntamálum.

Við sem varað höfum við þessari þróun og lagst gegn hugmyndum í þessa veru höfum verið úthrópaðir í almennri umræðu sem talsmenn afturhalds og íhaldssemi. Af hverju má ekki prófa þetta? Af hverju má ekki gera þessa tilraun? Við því er þetta svar: Menntun á grunnskólastigi hefur tekið miklum breytingum og mikil þróun hefur átt sér stað á þessum vettvangi í tímans rás. Þar hafa kennarar og skólayfirvöld með eða án atbeina menntmrn. og sveitarfélaga lagt metnað sinn í að þróa kennsluhætti og kennslufyrirkomulag í ljósi breyttra tíma á síðasta aldarfjórðungi. Um það er allt gott að segja og það styð ég heils hugar. Ég styð hins vegar ekki tilraunir sem miða að því að verðleggja grundvallarþjónustu við börn samkvæmt lögmálum markaðarins. Í því ljósi hef ég talað um útboð á börnum. Það er vitaskuld fjöldi barnanna, aldur þeirra og hæfni þeirra sem einstaklinga, sem nemenda, sem mun ráða því af hálfu bjóðenda hvert endurgjaldið verður. Flóknara er þetta ferli ekki. Öll lögmál útboðsins gilda hér. Hins vegar er ekki verið að sækja lágt verð til markaðarins vegna byggingar fasteigna heldur vegna kennslu barna á aldrinum 6--16 ára. Þar er hin rauða lína sem skilur í milli. Það þarf auðvitað ekki frekari vitnanna við því að í útboðsskilmálunum sjálfum segir að við mat á tilboðum skuli fjárhagslegir þættir vega 40%. Einnig er kveðið á um eðlilegan hagnað bjóðanda, enda fyrirliggjandi á þessum vettvangi markaðarins að tæpast muni nokkur aðili sækjast eftir þessum verkefnum eða öðrum í opnu útboði nema einhver peningalegur hagnaður sé í húfi.

Nú er það þannig, herra forseti, að grunnskólamenntun er ekki eingöngu réttur barna og forráðamanna þeirra heldur einnig skylda. Sá skóli sem hér um ræðir er hefðbundinn grunnskóli þar sem íbúum viðkomandi hverfis er gert að koma börnum sínum til skóla á tilsettum tíma. Þar er ekkert val. Það er því fjarri öllu lagi þegar ákafir talsmenn þessarar markaðshyggju í grunnskólahaldi ræða í sömu andrá um að einkaaðilar standi fyrir samgönguþjónustu og einkaaðilar standi fyrir framleiðslu á gosdrykkjum fyrir neytendur. Það eru röksemdir af þessum toga sem bæjarstjórinn í Hafnarfirði hefur beitt í málsvörn sinni. Talsmenn þessa hafa einnig bent á að starfsemi íþróttafélaganna sé á hendi einkaaðila eða félagasamtaka.

Herra forseti. Í öllum þessum tilfellum er um valkvæða þjónustu að ræða. Fólk getur einfaldlega valið hvort það notar viðkomandi þjónustu eða hvar hún er keypt. Það er með öðrum orðum samkeppni á þessum vettvangi og þessi samjöfnuður stenst því engan veginn skoðun.

Þegar menn tala um jafnrétti til náms, herra forseti, þá er það ekki bara innihaldslaus yfirlýsing á hátíðlegum stundum. Við sem tökum stjórnmál alvarlega viljum að hugur fylgi máli, að verkin sýni merkin. Þess vegna viljum við einfaldlega að samfélagsleg ábyrgð sé að baki þegar kemur að kennslu grunnskólabarnanna okkar.

Viðstödd þessa umræðu er starfandi menntmrh., hæstv. dómsmrh. Sólveig Pétursdóttir. Ég óskaði eftir því í fjarveru hæstv. menntmrh. Björns Bjarnasonar að starfandi ráðherra væri hér á staðnum. Ég óska eftir því að hún lýsi viðhorfum sínum og framtíðarsýn Sjálfstfl. í þessum efnum. Er það á grundvelli samkeppni markaðarins, þar sem lögmál framboðs og eftirspurnar ráða ríkjum, sem hann og flokkur hans vill tryggja jafnrétti til náms? Það er mín grundvallarspurning. Ég hygg að við hv. þingmenn eigum rétt á að fá svör við þessari spurningu sem lýtur að grundvallarviðhorfum til menntunar í landinu.

Herra forseti. Hér er kveðið skýrt á um stefnu okkar í þessum efnum. Við viljum byggja menntun á grunni samfélagslegrar ábyrgðar og réttinda.

Að lyktum legg ég til að málinu verði vísað til umfjöllunar menntmn. að aflokinni 1. umr. og árétta það sem ég nefndi fyrr. Ég vænti þess að menntmn. sé í stakk búin til þess að haska sinni umfjöllun en vanda hana þó jafnframt með það í huga að málið komi aftur til umfjöllunar á hinu háa Alþingi áður en þing er úti að vori.