Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 15:26:12 (6217)

2001-04-02 15:26:12# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[15:26]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. þm. er í dálitlum vandræðum með þetta mál og talar um grautarlega framsetningu mína. Ég get ekki séð að undirbúningur þessa frv. sé mikill. Í því eru fáeinar línur um grundvallaratriði sem hv. þm. telur í húfi. Þó virðist ekki hægt að setja lengri greinargerð en fimm línur fyrir því sem hv. þm. telur svo gríðarlega mikið hagsmunamál.

Hv. þm. talaði um valkvæða þjónustu. Það er að sjálfsögðu skylda skólayfirvalda að tryggja öllum jafnan rétt til náms. Við það er staðið. Leikskólar eru eitt af þeim skylduverkefnum sem sveitarfélögin hafa. Mörg sveitarfélög hafa boðið út leikskólaþjónustuna eða gert tilraunir með að fá aðila til þess að reka fyrir sig leikskólana án þess að gera það sjálf. Ég hef sjálfur staðið í því. Það hefur gengið alveg ágætlega. Hvort það er gert með útboðum eða samningum finnst mér eiginlega aukaatriði. Aðalatriðið er að fylgst sé með því að starfið sem þar fer fram sé samkvæmt þeim reglum sem hið opinbera setur og þar með þurfa menn ekki að hafa áhyggjur af því hverjir standa fyrir rekstri þessara stofnana.

Ég held, herra forseti, að hér sé einfaldlega reynt að gera eðlilega tilraun í skólakerfinu að máli sem hægt sé að tortryggja með upphrópunum. Ég lít svo á að þarna sé reynt að slá keilur í heimahéraði hv. þm. Hann á heima í Hafnarfirði og var þar einu sinni bæjarstjóri. Hann langar til að koma höggi á bæjarstjórnina. Hans flokkur er í minni hluta og rökin á bak við málflutning hv. þm. í raun engin og hafa ekki náð eyrum fólk. Menn trúa því ekki að hægt sé að gera einhverja vitleysu með því útboði sem þarna fer fram.