Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 15:49:58 (6221)

2001-04-02 15:49:58# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[15:49]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hér er á dagskrá frv. til laga um breytingu á lögum um grunnskóla. Eins og þingheimi er kunnugt hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til að fá ræddar á hinu háa Alþingi túlkanir menntmrh. á 53. gr. grunnskólalaga.

Segja má að ef sú grein væri túlkuð eins og flestir hafa viljað, þá væri þetta frv. til laga óþarft. En vegna túlkana menntmrh. og vilyrða hans til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um útboð á tilteknum grunnskóla þar í bæ var talið nauðsynlegt að flytja þetta frv. Hins vegar verður að taka fram að það er fremur leitt að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera viðstaddur umræðuna því að það er auðvitað við hæstv. menntmrh. sem helst er að ræða þetta mál en að sjálfsögðu er staðgengill hæstv. menntmrh. hér og við verðum að gera ráð fyrr að hæstv. dómsmrh. muni verða virkur þátttakandi í umræðunum og svara ýmsu því sem hæstv. menntmrh. hefði svarað við venjulegar kringumstæður.

Hæstv. menntmrh. hefur nýlega svarað fyrirspurn sem ég bar fram ásamt hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur þar sem m.a. var reynt að fá frekari upplýsingar um málið til að auðvelda þessa mikilvægu umræðu. Þar var spurt um í hverju þær tilraunir á grunnskólastigi eru fólgnar sem heimilaðar hafa verið allt frá árinu 1974 þegar fyrst voru sett lög um grunnskóla og þetta ákvæði fór fyrst inn í lög. Síðan hefur lagaákvæðið verið nær óbreytt, bæði við breytingu á grunnskólalögunum 1991 og einnig við breytingu á grunnskólalögunum 1995.

Í ljós kemur, herra forseti, að undanþágur samkvæmt þessari grein hafa alla þessa tíð í raun verið mjög fáar. Þegar grunnskólalögin voru sett var Æfinga- og tilraunaskóli Kennaraháskóla Íslands rekinn og ekki þótti ástæða til að nýta þessa lagaheimild til tilrauna þar vegna þess að skólinn starfaði samkvæmt lögum um Kennaraháskóla Íslands allt frá árinu 1971. Hins vegar hafði Fossvogsskóli tekið til starfa vorið 1972 sem var tilraunaskóli með svokallaðan opinn skóla, og hann er fyrsti skólinn sem hlaut viðurkenningu fræðsluyfirvalda sem tilraunaskóli samkvæmt þáv. 65. gr. laga nr. 63/1974, um grunnskóla.

Herra forseti. Þetta er eina heimildin sem veitt hefur verið samkvæmt þeirri lagagrein. Það segir okkur, herra forseti, að sú grein, sem eins og ég sagði áðan hefur verið í lögum allt frá 1974, fjallar eingöngu um að veita undanþágur sem varða nám, starfstíma grunnskóla, kennslutilhögun eða stundafjölda og annað þess háttar, þ.e. það sem snýr að innra starfi skólans.

Hér er hins vegar um allt aðra hluti að ræða og það er athyglisvert að bera saman þessa grein og síðan ýmis ummæli hæstv. menntmrh. sem m.a. komu fram í utandagskrárumræðu af þessu sama tilefni.

Herra forseti. Þar segir hæstv. menntmrh. m.a., með leyfi forseta: ,,Þegar grunnskólinn var fluttur frá ríki til sveitarfélaga efndi ég til fjölmargra funda til að ræða þessa miklu valddreifingu. Þá lét ég þess oft getið að ég liti á flutninginn sem fyrsta skrefið í þá átt að flytja skólann enn nær foreldrunum og hvatti til þess að þeir kæmu enn frekar að skólastarfinu. Þá sagði ég einnig að æskilegt væri að efla enn ítök einkaaðila í skólastarfi.``

Herra forseti. Þessi ummæli eru afar merkileg og í ljósi þeirra fór ég nákvæmlega í gegnum útboðsgögn bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði og leitaði með logandi ljósi að því hvar ég gæti fundið merki þess að verið væri að færa skólann nær foreldrum.

Herra forseti. Í þeim gögnum er hvergi nokkurs staðar að finna eitt einasta orð um að færa eigi þennan sérstaka grunnskóla á nokkurn hátt nær foreldrum, hvergi nokkurs staðar. Þannig að hér hefur óskhyggja hæstv. menntmrh. komið fram, því miður verð ég að segja því að ég er sammála hæstv. menntmrh. að afar mikilvægt er að færa grunnskólann sem allra næst foreldrum, og það hefði verið miklu mikilvægara fyrir framhald þróunar í grunnskólum landsins ef bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefði í raun og veru verið að gera tilraun með að færa skólann nær foreldrum. En til þess voru allt aðrar leiðir miklum mun einfaldari en þær að bjóða út rekstur skólans því að rekstur skólans kemur því máli í raun og veru ekkert við nema að það hefði verið skilyrt í útboðsgögnunum að foreldrar í hverfinu ættu að reka skólann. Á það er hvergi minnst. Það er því ekkert í útboðsgögnunum, herra forseti, sem færir rök fyrir þessum orðum hæstv. menntmrh.

Annað sem hæstv. menntmrh. sagði í þessum sömu umræðum, með leyfi forseta: ,,Meðal annars færi þetta form rekstur skóla enn nær vettvangi og geti stytt allar boðleiðir í skólastarfinu.``

Og enn, herra forseti, fór ég og leitaði í útboðsgögnum. Hvergi nokkurs staðar er að finna neitt sem bendir til þess að þetta form rekstrar eigi að færa skólana eitthvað nær vettvangi. Skólinn er hverfisskóli og almennur grunnskóli í dag, hefur miklar skyldur gagnvart umhverfi sínu og það er ekki að sjá neins staðar í útboðsgögnum að verið sé að færa auknar skyldur á herðar þessum skóla til að vera nær vettvangi.

Herra forseti. Enn til þess að ítreka það sem áður hefur komið fram vil ég að lokum vitna, með leyfi forseta, aftur í hæstv. menntmrh.: ,,Varðandi það sem menn sögðu þegar grunnskólinn var fluttur frá ríkinu til sveitarfélaga, þá sótti ég fjölmarga fundi og lá aldrei á þeirri skoðun minni sem ég lýsti í svari mínu áðan að ég teldi að þetta væri fyrsta skrefið til að færa skólana enn nær foreldrunum og taka upp nýja starfshætti við stjórn skólanna eins og verið er að gera með því útboði sem Hafnfirðingar ætla að fara af stað með.``

Herra forseti. Hér er fullyrt að verið sé að færa skólann nær foreldrum og talað er um að taka upp nýja starfshætti við stjórn skólanna. Herra forseti. Enn á ný leitaði ég í útboðsgögnum og fann hvergi stoðir fyrir þeim orðum hæstv. menntmrh. Þess vegna, herra forseti, er nauðsynlegt að starfandi hæstv. menntmrh. geri okkur gleggri og betri skil á þeim orðum hæstv. menntmrh. og finni stoðir í útboðsgögnunum fyrir þeim vegna þess að ég ítreka enn og aftur, herra forseti, að það að færa grunnskólann nær foreldrum er býsna mikilvægt og þarf að finna leiðir til þess þó svo mjög víða hafi grunnskólar stigið stór skref í þessa átt og það hefur aukist á hinum seinni árum. Fróðlegt hefði verið að sjá í útboðsgögnum eða hreinlega í stefnu Hafnarfjarðarbæjar að þetta væri mörkuð skólastefna bæjarins og þá er ég viss um að þeir grunnskólar sem þar eru til staðar, ég tala nú ekki um hina ágætu skólaskrifstofu sem þeir reka þar, hefðu getað fundið leiðir til að færa skólann nær foreldrum og ekki hefði þurft að fara þessa sérkennilegu krókaleið til þess og þar að auki leið sem hvergi er að finna að nokkurs staðar tryggi það að aðkoma foreldra verði betri í þessum skóla en öðrum skólum í Hafnarfirði.

Herra forseti. Einnig væri hægt að færa frekari rök fyrir því að 53. gr. grunnskólalaganna heimilar í raun hvergi þá leið sem hér er verið að ýja að að verði farin. Þegar farið er í gegnum umræður, athugasemdir og breytingar sem gerðar hafa verið á lögunum frá 1974 er hvergi að finna stafkrók um að menn hafi látið sér detta í hug að nýta mætti þá lagagrein í þessa átt. Og rétt er í þessu samhengi að minna á að t.d. stjórn Félags grunnskólakennara hefur ályktað sérstaklega vegna þessa máls og hefur komist að þeirri niðurstöðu, eins og segir, með leyfi forseta, orðrétt úr ályktun þeirra: ,,Félag grunnskólakennara telur að ákvæði grunnskólalaga um tilraunaskóla geti ekki átt við um þessa áformuðu einkaframkvæmd.`` Þar eru að sjálfsögðu innan veggja ýmsir sem fylgst hafa með allri þeirri lagasetningu sem átt hefur sér stað frá árinu 1974. Þess vegna er hér líka verið að fara í mótsögn við samtök grunnskólakennara og það er að sjálfsögðu ekki til þess fallið að auka frið eða sátt um slíka framkvæmd.

Þess vegna, herra forseti, er nauðsynlegt að spyrja hæstv. starfandi menntmrh.: Hvers vegna, ef áhuginn er slíkur fyrir þessari leið, var ekki valið, til að taka af allan vafa, að leggja fram formlega breytingartillögu við grunnskólalögin þannig að hægt hefði verið að fara almennilega í umræðuna og taka hana efnislega um það að fara þessa leið því að hún hlýtur, miðað við þann áhuga sem er að finna í meiri hluta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, að vera þess virði að hún sé rædd? Þess vegna er óskiljanlegt að farið sé með þetta mál í ófriði gegn og í andstöðu við stéttarfélag grunnskólakennara og í bullandi andstöðu við minni hlutann í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og í raun og veru í bullandi andstöðu við stóran hluta þeirra sem starfa við skólamál í landinu.

[16:00]

Herra forseti. Hvert er bæjarstjórn Hafnarfjarðar eiginlega að fara? Hver er tilgangurinn með þessari leið? Ég hef reynt að komast að því en hef átt afar erfitt með það. Í laugardagsblaði Morgunblaðsins steig fram á ritvöllinn eini bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, sá sem myndar meiri hlutann með Sjálfstæðisflokknum í bæjarstjórninni. Ég held að sé rétt að lesa upphafsorð þeirrar greinar. En þar segir, með leyfi forseta:

,,Í Hafnarfirði tóku Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur við þröngu búi að afloknum kosningum 1998.``

Herra forseti. Er þetta virkilega skýringin? Hið þrönga bú bæjarsjóðs Hafnarfjarðar? Eru sem sagt fjárhagslegar ástæður fyrir því að þeir leita leiða til þess að komast billegar frá rekstri grunnskóla en ella hefði orðið? Ef svo er þá er verr af stað farið en heima setið. (Gripið fram í: En félagsíbúðakerfi Reykjavíkur?) Herra forseti, vegna frammíkalls hv. þm. sem er vonandi að reyna að ná þræðinum í umræðunni þá vona ég að hann komi með fullum þunga inn í umræðuna á eftir, leiði okkur í allan sannleikann um málið og skýri fyrir okkur hvert bæjarstjórnarmeirihlutinn í Hafnarfirði er að fara. Hv. þm. ætti mikla þökk skilda ef hann gæti gert slíkt, því við höfum ekki fengið skýringar.

Herra forseti. Eitt enn úr þessari ágætu grein gæti líka leitt í ljós hvert meiri hluti bæjarstjórnar er að fara. Þorsteinn Njálsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, segir, með leyfi forseta:

,,Ég segi stoltur frá því að börnin mín hafi verið í Ísaksskóla, Miðskóla og Tjarnarskóla og eru þau hreykin af því.``

Herra forseti. Ég efast ekki um að hér er um ágæta skóla að ræða. Hér er um einkaskóla að ræða. Það var vissulega einn möguleikinn fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar, að setja upp einkaskóla í sveitarfélaginu. Um slíkt er hins vegar ekki að ræða. Hins vegar getur þetta líka sagt til um ástæður þess að menn fara þessa leið, þ.e. að bæjarfulltrúinn sjálfur virðist ekki hafa treyst sér til þess að láta börnin sín í grunnskóla í Hafnarfirði. Hver ástæðan er er mér gjörsamlega hulin ráðgáta. Fróðlegt væri ef einhverjir hv. þm. og flokksbræður bæjarfulltrúans gætu frætt okkur um ástæðurnar fyrir slíku.

Eitt, herra forseti, er nauðsynlegt að fram komi úr útboðsgögnum bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði. Þar er ákveðið orðalag sem vekur örlítinn ugg. Ég tala nú ekki um ef ætlunin er að leita ódýrari leiða til að reka grunnskóla, eins og hægt var að álykta út frá grein bæjarfulltrúans frá því á laugardaginn. En hér segir, með leyfi forseta:

,,Tilboðsverð skal innifela nægilegan hagnað og allan kostnað m.a. vegna ...`` --- síðan kemur löng upptalning. En, herra forseti, ég vek sérstaka athygli á þessu orðalagi ,,nægjanlegan hagnað``. Nægjanlegan hagnað takk! Hver á að fá þennan hagnað? Jú, að sjálfsögðu sá sem býður í. Það á sem sagt að tryggja honum nægjanlegan hagnað. Hvaða möguleikar eru þá eftir ef ekki á að spara peninga? Það hlýtur þá að þurfa að draga úr kostnaði einhvers staðar. Þess vegna, herra forseti, er nauðsynlegt að við fáum skýringar á því hvernig draga eigi úr þessum kostnaði.

Hér hefur verið nokkuð gumað af eftirliti, m.a. hefur hæstv. menntmrh. bent látlaust á að það eigi að vera alveg sérstakt eftirlit á þessum skóla --- sérstakt eftirlit. Ég fór sérstaklega yfir þessi útboðsgögn til að kanna í hverju þetta sértaka eftirlit væri fólgið. Ég fullyrði að það er ekkert sérstakt eftirlit á þessum skóla umfram aðra skóla í Hafnarfirði, þ.e. skólaskrifstofan hefur nákvæmlega sama aðgang og eftirlit í þessum skóla og öðrum skólum. Í leyfi ráðuneytisins verður væntanlega aðeins um það að ræða að skila skuli inn skýrslum á ákveðnu tímabili og ráðuneytið geti haft eftirlit með skólanum.

Herra forseti. Ég vek athygli á því að ráðuneytið hefur þessa eftirlitsskyldu gagnvart öllum grunnskólum í landinu. Það hefði verið nær fyrir hæstv. menntmrh. að leggja fyrir okkur áætlun um það hvernig ráðuneytið ætlar að standa að þessari eftirlitsskyldu sinni. Menntmrn. er reyndar ákaflega vanbúið til að sinna þessari lagaskyldu sinni, því miður. Þess vegna hefði verið nær að hér hefðu legið fyrir áætlanir um eftirlitið eða beiðni um að fá aukið fjármagn til þess að sinna þessari eftirlitsskyldu. Þessi eftirlitsskylda er því miður nær eingöngu falin í því að ráðuneytið getur skoðað niðurstöður samræmdra prófa. Það er afskaplega lítið annað sem gert er, nema safna saman tölum um nemendafjölda hjá Hagstofunni. Hvað segir það okkur um grunnskólann? Afskaplega lítið. Mjög takmörkuð mynd sem þetta gefur okkur af starfi í grunnskóla. Þetta gefur í raun oft hættulega mynd vegna þess hve einsleit hún er. Menn hafa því miður freistast til þess æðioft að draga rangar ályktanir út frá slíkum upplýsingum.

Herra forseti. Fleira vekur athygli í þessu máli. Vilyrði ráðherrans í sérstöku bréfi, dagsettu 6. mars 2001, vekur líka verulega athygli, sérstaklega vegna þeirra laga sem talin eru upp í bréfinu, um hvaða lög skuli sérstaklega halda í heiðri í þessu útboði. Sérstaklega eru það lög nr. 72/1996, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, sem rétt er að vekja sérstaka athygli á. Það er mikilvægt fyrir þá sem munu bjóða í þessa starfsemi að átta sig á því hvað felst í bréfi ráðherrans. Það er meira að segja eðlilegt velta því fyrir sér --- ég vona að hæstv. starfandi menntmrh. geti svarað því hér á eftir --- en það er freistandi, herra forseti, að álykta sem svo að í þessu bréfi hafi hæstv. ráðherra fundið smugu til þess að koma í veg fyrir að þessi leið verði farin.

Hvers vegna segi ég þetta, herra forseti? Jú, vegna þess að í lögum um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda í grunnskólum segir m.a. að menntmrn. skeri úr um það ef ágreiningur er um það hvort þessi lög eigi við eða ekki. Það segir í 2. mgr. 1. gr. að ef ágreiningur verði um það hvort kennari eða skólastjóri skuli sæta ákvæði nefndra laga, skeri menntmrh. úr. Herra forseti, menntmrh. hefur skorið úr. Í bréfinu frá 6. mars 2001 segir hann að þessi lög gildi.

Hvað felst í því að þessi lög gilda um kennara og skólastjórnendur í þessum skóla? Meðal annars er í því fólgið að ráðningarsamningar við kennara og skólastjórnendur séu skriflegir, gerðir á samræmd eyðublöð sem Samband íslenskra sveitarfélaga lætur í té og að sveitarfélög setji starfsmönnum, þ.e. í þessu tilfelli kennurum og skólastjórnendum, erindisbréf. Sveitarfélagið er með öðrum orðum vinnuveitandinn. Sveitarfélagið sem kemst ekki hjá því að bera ábyrgð á þessum starfsmönnum, þrátt fyrir að einhver þriðji aðili eigi að koma að því að reka skólann.

Í áðurnefndum lögum er einnig tekið fram að kennarar og skólastjórnendur taki laun samkvæmt kjarasamningum og ráðningarsamningum, sbr. 24. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Það segir með öðrum orðum að kennari og skólastjórnendur skuli að lágmarki taka laun samkvæmt kjarasamningum Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga. Það þýðir líka að þeir njóta lífeyrisréttinda sem opinberir starfsmenn. Er skrýtið að maður velti því fyrir sér að hæstv. menntrmh. hafi í raun verið að finna sér leið til þess að koma í veg fyrir að af þessu yrði?

Herra forseti. Að lokum er rétt að taka fram að það mun ekki standa á minni hluta menntmn. að hraða afgreiðslu þessa máls í gegnum nefndina. Við vonum að meiri hlutinn verði liprari í að ræða þetta mál en ýmislegt annað sem minni hlutinn hefur farið fram á í nefndinni.