Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 16:09:33 (6222)

2001-04-02 16:09:33# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[16:09]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst ágætt að hafa fengið það á hreint og m.a. staðfest af þingmanni Samfylkingarinnar að núverandi meiri hluti í Hafnarfirði hafi tekið við þröngu búi. Það er ágætt að hafa fengið það staðfest. Þess vegna finnst mér málið enn frekar til marks um kjark og þor hjá meiri hluta Hafnarfjarðar, að fara út í merkilegar nýjungar að mínu mati, sem er ekki gert til þess að spara pening. Tilgangurinn er ekki að minnka fjárútlát bæjarsins á einn eða neinn hátt heldur er þetta tækifærið upp á framtíðina, til að þróa og efla og bæta kennsluhætti og rekstur skóla þar á meðal. Ég tel þetta vera tækifæri sem við eigum ekki að láta fram hjá okkur fara.

Mig langar hins vegar að spyrja, virðulegi forseti, hv. þm. Einar Má Sigurðarson hvort það sé rétt skilið hjá mér --- en svo virtist sem hv. þm. hefði lesið útboðsgögnin mjög vel --- að ef staðið hefði í útboðsgögnum að tryggt væri að foreldrar fengju rekstur þessa skóla og kennslu þá gæti hann sætt sig við fyrirkomulagið sem við erum m.a. að ræða hér.