Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 16:10:44 (6223)

2001-04-02 16:10:44# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[16:10]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég er hræddur um að hv. þm. hafi nú ekki hlustað á ræðu mína með fullri athygli. Hjá henni gætir einhvers misskilnings. Ég var að vitna í bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og las upp orð hans um hið þrönga bú sem bæjarstjórnin hefði tekið við. Ég var að leiða líkur að því að þess vegna væri m.a. gripið til þessa ráðs. Það segir ekkert til um skoðun mína á því hvernig búið var sem þeir tóku við. Á því hef ég einfaldlega ekki neina þekkingu. Ég hef ekki kynnt mér fjárhagsstöðu Hafnarfjarðarbæjar þegar þessi meiri hluti tók við. Hins vegar held ég að öllum sé kunnugt að a.m.k. í seinni tíð hefur fjárhagsvandinn verið verulegur í Hafnarfjarðarbæ, hverju sem þar er um að kenna. Þetta er raunar ekki vettvangurinn til að velta því fyrir sér. Ég var sem sagt ekki að greina frá skoðun minni en það getur vel verið að búið hafi verið þröngt engu að síður. Ég hef bara ekki þekkingu á því. (GÁS: Allt í stakasta lagi.) Ég efast ekkert um að það hafi verið í stakasta lagi, a.m.k. lengi framan af síðasta áratug.

Herra forseti. Spurning hv. þm. var um hvort ég hefði, ef tryggt væri að foreldrarnir kæmu að rekstrinum, getað samþykkt þessa leið. Enn á ný virðist hv. þm. hafa misskilið mig. Þar vitnaði ég í hæstv. menntmrh. sem talaði um að mikilvægt væri að tryggja að foreldrar kæmu sem allra mest og best að rekstri grunnskólans. Ég bætti því reyndar við að ég væri sammála hæstv. menntmrh. í að mikilvægt væri að tryggja að foreldrar kæmu að rekstrinum. Ég sagði hins vegar einnig að til væru miklu þægilegri leiðir til að tryggja foreldrunum aðgang að skólunum en að fara þessa krókaleið sem hvergi nokkurs staðar í útboðsgögnunum er tryggt að muni færa skólann nær foreldrum. Það eru margar fleiri leiðir til þess og miklu einfaldari sem hafa verið gerðar tilraunir með víða um land. Ég segi aftur, herra forseti: Það er ekkert í útboðsgögnunum sem tryggir að foreldrarnir verði nær þessum skóla en öðrum.