Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 16:15:55 (6226)

2001-04-02 16:15:55# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[16:15]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Það er nokkuð undarlegt að sitja undir ræðum hv. þm. stjórnarandstöðunnar. Í rauninni er verið að endurtaka umræðu sem þegar hefur farið fram á hinu háa Alþingi utan dagskrár þann 12. febrúar sl. Nú er að vísu um að ræða frv. um breytingu á lögum um grunnskóla, og hv. þm. 1. flm., Guðmundur Árni Stefánsson, óskaði eftir því að ég yrði viðstödd umræðuna sem staðgengill hæstv. menntmrh. Þetta er auðvitað 1. umr. um frv. sem mun væntanlega fá vandaða skoðun hjá hv. menntmn. þingsins. Engu að síður tel ég rétt að fara yfir nokkur atriði í tengslum við þetta mál, ekki síst í ljósi þeirra fullyrðinga sem hér hafa verið settar fram.

Hér er komið fram frv. sem á að mati hv. flutningsmanna væntanlega að girða fyrir að Hafnarfjarðarbær geti innleitt þá nýjung í skólastarfi sem er nú í undirbúningi. Eins furðulegt og það nú er, að reyna á hinu háa Alþingi að grípa inn í ákvarðanir lýðræðislega kjörinnar stjórnar í sveitarfélagi, þá þjónar frv. ekki einu sinni afdráttarlaust yfirlýstu markmiði. Flutningsmenn frv. telja að efni þess taki af tvímæli um skyldu sveitarstjórna til að bera sjálfar ábyrgð á kennslu og framkvæmd skólastarfs í grunnskóla. Þessi skylda er ljós samkvæmt núgildandi lögum og hefur ekki verið fallist á að sveitarstjórn geti komið sér hjá þeirri ábyrgð, þar með talið með tilraunastarfi í grunnskólum, á grundvelli 53. gr. grunnskólalaga.

Ef tilgangur frv. er sá að banna útboð á skólastarfi hefði verið betra að tillaga frv. að lagatexta fjallaði um það efni sem hún gerir ekki afdráttarlaust. Eins og frv. er orðað eru sveitarstjórnum engar frekari skorður settar hvaða rekstrarform þær kjósa við rekstur grunnskóla.

Ábyrgð samkvæmt grunnskólalögunum er skýr. Skyldur sveitarstjórna til að veita nemendum lögboðna fræðslu samkvæmt grunnskólalögunum er fyrst og fremst gagnvart nemendum og forsjármönnum þeirra. Sveitarstjórnum eru ekki settar strangar skorður við því hvernig þær standa að því að reka grunnskóla, svo fremi að sveitarstjórnir standi undir þeirri ábyrgð sem grunnskólalögin kveða á um gagnvart nemendum og forsjármönnum þeirra. Kemur þessi afstaða skýrt fram í bréfi menntmrn. til Hafnarfjarðarbæjar, dags. 6. mars sl., vegna breytts fyrirkomulags á rekstri grunnskóla í Hafnarfirði og er leyfi menntmrn. til Hafnarfjarðarbæjar bundið þessu skilyrði.

Með leyfi virðulegs forseta, vil ég fá að vitna í þetta bréf:

,,Í erindi yðar kemur fram að verkefni það sem boðið er út falli undir einkaframkvæmd í opinberum rekstri með því að sveitarfélagið hyggst leita samstarfs við einkaaðila um úrlausn verkefnis á vegum sveitarfélagsins. Ráðuneytið lítur svo á að með því sé átt við að sveitarfélagið beri eftir sem áður ábyrgð á rekstri skólans í samræmi við ákvæði grunnskólalaga og starfsemi einkaaðilans við rekstur grunnskólans lúti stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.`` --- Síðar í bréfinu segir:

,,Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn þeirra málefna sem grunnskólalögin taka til og hefur eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli ákvæði laganna, reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra og aðalnámskrá grunnskóla. Allur kostnaður og rekstur vegna grunnskólahalds er á höndum sveitarfélaga. Sveitarstjórn ber því ábyrgð á öllum daglegum rekstri og framkvæmd skólastarfsins innan sveitarfélagsins. Samstarf sveitarfélags við einkaaðila um rekstur grunnskóla, með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í útboðsgögnum Hafnarfjarðarbæjar, verður að tryggja að réttur nemenda samkvæmt grunnskólalögum, reglugerðum settum samkvæmt þeim og aðalnámskrá grunnskóla, verði ekki fyrir borð borinn og að tryggt sé að nemendur í skólanum njóti a.m.k. jafngóðrar kennslu og fæst í öðrum skólum, þar með talið að ákvæðum grunnskólalaga um starfstíma grunnskóla eða lágmarksfjölda vikulegra kennslustunda og ýmsum ákvæðum grunnskólalaga er varða réttindi nemenda verði fullnægt.

Samkvæmt 12. gr. grunnskólalaganna skal vera skólanefnd í hverju skólahverfi sem fer með málefni grunnskóla eftir því sem lög og reglugerðir ákveða og sveitarstjórn eða sveitarstjórnir kunna að fela henni. Hvílir sú skylda á nefndinni að sjá til þess að öll börn á skólaskyldualdri njóti lögboðinnar fræðslu. Skólanefnd skal staðfesta áætlun um starfstíma nemenda ár hvert og fylgjast með framkvæmd náms og kennslu í skólahverfinu. Hver sveitarstjórn hefur þannig lögboðnar skyldur gagnvart þeim börnum á skólaskyldualdri sem eiga lögheimili innan marka sveitarfélagsins. Verður ekki vikist undan skyldum skólanefndar í þessu efni við framkvæmd tilraunaverkefnis af því tagi sem hér um ræðir. Í útboðsgögnum kemur fram að skólanámskrá og skólareglur verði háðar staðfestingu skólanefndar.``

Hvort sem sveitarstjórnir kjósa að bjóða út framkvæmd einstakra þátta skólastarfs eða ráða starfsmenn til þeirra verka milliliðalaust í sína þjónustu, breytir það engu um þá ábyrgð sem sveitarstjórnir hafa samkvæmt grunnskólalögum. Þá breytir það engu um ábyrgð sveitarstjórna gagnvart nemendum og forsjármönnum þeirra hvort einstakir starfsmenn starfi á grundvelli verksamninga eða ráðningarsamninga.

Í greinargerð flutningsmanna með frv. segir: ,,Ljóst er af nýlegum svörum menntamálaráðherra á Alþingi að hann hyggst leyfa að skólastarf í nýju íbúðarhverfi í Hafnarfirði verði boðið út eins og hver önnur atvinnustarfsemi og ábyrgð og framkvæmd þess falin þeim sem best býður.`` Þetta er ekki rétt og geta menn staðfest það með því að lesa ræðu hæstv. menntmrh. í utandagskrárumræðum 12. febrúar sl., enda liggur ábyrgð sveitarfélagsins fyrir, bæði samkvæmt lögum og leyfisbréfi ráðuneytisins, eins og áður var lýst.

Afgreiðsla menntmrn. á erindi Hafnarfjarðarbæjar fólst í því að menntmrn. gerði fyrir sitt leyti ekki athugasemdir vegna fyrirhugaðs útboðs Hafnarfjarðarbæjar á kennsluþætti grunnskóla bæjarins í Áslandi. Ráðuneytið féllst á að veita Hafnarfjarðarbæ vilyrði fyrir undanþágu á grundvelli 53. gr. grunnskólalaga, nr. 66/1995, með síðari breytingum, til rekstur grunnskólans í Áslandi sem tilraunaskóla, að því gefnu að endanlegur samningur um tilhögun verkefnisins verði í samræmi við þau skilyrði sem ráðuneytið hefur sett með hliðsjón af ákvæðum grunnskólalaga. Þegar endanleg tilhögun verkefnisins af hálfu Hafnarfjarðarbæjar liggur fyrir, verði málið kynnt ráðuneytinu til endanlegrar ákvörðunar. Framangreind afstaða menntmrn. byggðist á nokkrum atriðum sem ég ætla að gera hér grein fyrir:

1. Kennslan fari fram í samræmi við lög og reglugerðir um grunnskóla og ákvæði aðalnámskrár grunnskóla, lög nr. 72/1996, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, og lög nr. 86/1998, um lögverndun starfsheitis og starfsréttinda grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.

2. Sveitarfélagið ber eftir sem áður ábyrgð á rekstri skólans í samræmi við ákvæði grunnskólalaga, og starfsemi einkaaðilans við rekstur grunnskólans lýtur stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.

3. Réttur nemenda samkvæmt grunnskólalögum, reglugerðum settum samkvæmt þeim og aðalnámskrá grunnskóla, verði tryggður.

4. Tryggt sé að nemendur í skólanum njóti a.m.k. jafngóðrar kennslu og fæst í öðrum skólum, þar með talið að ákvæðum grunnskólalaga um starfstíma grunnskóla eða lágmarksfjölda vikulegra kennslustunda og ýmsum ákvæðum grunnskólalaga er varða réttindi nemenda verði fullnægt.

5. Skólanefnd sjái til þess að öll börn á skólaskyldualdri njóti lögboðinnar fræðslu. Skólanefnd staðfestir áætlun um starfstíma nemenda ár hvert og fylgist með framkvæmd náms og kennslu í skólahverfinu. Skólanámskrá og skólareglur verði háðar staðfestingu skólanefndar. Skólanefnd ber ábyrgð á að tryggja nemanda annað kennsluúrræði ef honum er vikið úr skóla. Á skólanefnd hvíla lögboðnar úrskurðarskyldur sem hún hefur gagnvart nemendum og foreldrum við úrlausn stjórnsýslukæra vegna ákvarðana skólastjóra.

6. Kennsla verði veitt nemendum að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja nemendur eða forráðamenn þeirra um greiðslu fyrir kennslu, námsgögn eða annað efni er nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samræmist ákvæðum laganna og aðalnámskrá.

7. Leyfisveiting menntamálaráðuneytisins á grundvelli 53. gr. grunnskólalaga er háð því skilyrði að úttekt á starfsemi grunnskólans í Áslandi fari fram fyrir lok þriggja ára tilraunatímabilsins.

Eins og ég nefndi hér í upphafi ræðu minnar fór fram utandagskrárumræða um þetta sama mál í febrúar sl. og ég vil, með leyfi virðulegs forseta, vitna til orða hæstv. menntmrh. er hann sagði í lok sinnar fyrri ræðu:

,,Ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar að ríkið eigi að setja sveitarfélögunum strangar skorður um hvernig þau standa að því að reka grunnskólana. Ljóst er að menntmrn. hefur skyldum að gegna vegna námskráa, mats og eftirlits og námsgagnagerðar. Einnig er efnt til samræmdra prófa undir forsjá ríkisins. Breytt fyrirkomulag á rekstri grunnskóla í Hafnarfirði raskar ekki með neinum hætti þessu hlutverki ríkisins og unnt verður að fylgjast með innra starfi í þeim skóla eins og öðrum. Ég sé ekki nein rök fyrir því að hér sé um útboð á börnum að ræða eins og hv. þm. orðar það svo ósmekklega og ég sé ekki heldur að með þeim tillögum sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur kynnt menntmrn. sé vegið að jafnræði til náms á neinn hátt. Það er skoðun þeirra sem um málið hafa fjallað innan menntmrn. að hér sé um að ræða nýbreytni í rekstrarformi sem full ástæða sé til að reyna. Meðal annars færi þetta form rekstur skóla enn nær vettvangi og geti stytt allar boðleiðir í skólastarfinu.``

Hæstv. forseti. Ég held að þetta mál skýri sig sjálft. Ég tel fyllstu ástæðu til að fagna frumkvæði Hafnarfjarðarbæjar sem leitar nú leiða til að bæta frekar skólastarf í bænum. Samtök foreldra hafa lýst ánægju með framtakið, þar á meðal samtökin Heimili og skóli og foreldraráð Hafnarfjarðar. Ég tel að rétt hafi verið staðið að þessu máli og að hér sé um að ræða merkilega tilraun í skólastarfi.

Það frv. sem er hér til 1. umr. fær síðan eðlilega afgreiðslu á hinu háa Alþingi og verður væntanlega skoðað vandlega í hv. menntmn.