Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 16:37:38 (6231)

2001-04-02 16:37:38# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[16:37]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Að mínum dómi er ekki verið að innleiða nýjungar í skólastarfi í Hafnarfirði. Það er verið að innleiða nýjungar í rekstri á grunnskólum landsins. Verið er að einkavæða grunnskólann. Og það er að sönnu nýjung. Við þyrftu að ræða þetta á mun rækilegri hátt hér á Alþingi áður en við förum út á þá braut. Það er okkar skoðun. Þess vegna spurði ég þessarar fyrstu spurningar: Hvort stjórnarmeirihlutinn vildi tryggja að þetta mál fengi faglega umfjöllun í nefnd og síðan afgreiðslu þingsins áður en ákvarðanir eru teknar um að einkavæða grunnskólann. Mér finnst það mjög mikilvægt. Ég efast ekkert um að hæstv. starfandi menntmrh. er alvara þegar hæstv. ráðherra segir að það sé rétt að starfa faglega og málefnalega í menntmrn. En spurningin snýst um hvort þetta tiltekna mál fái þar afgreiðslu og kallaðir verði til fagaðilar og Alþingi gefist síðan kostur á að taka afstöðu til þessa máls sem snertir grundvallaratriði í íslenskri stjórnsýslu og stjórnskipan og í skipulagi velferðarþjónustunnar í landinu.

Hæstv. ráðherra hefur engar áhyggjur af því að þetta muni leiða til mismununar á þann hátt sem ég rakti áðan. Það er mat hæstv. ráðherra. En mér finnst meginmáli skipta að málið fái afgreiðslu, lýðræðislega umfjöllun og að lokum afgreiðslu hér á Alþingi.