Bætt þjónusta hins opinbera

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 17:45:32 (6241)

2001-04-02 17:45:32# 126. lþ. 103.6 fundur 269. mál: #A bætt þjónusta hins opinbera# þál., Flm. ÓÖH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[17:45]

Flm. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um bætta þjónustu hins opinbera. Þáltill. hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja markvissar aðgerðir til þess að bæta afgreiðslu og þjónustu opinberra stofnana við almenning og atvinnulífið.``

Herra forseti. Þessa þáltill. flyt ég eftir að hafa árum saman bæði reynt á eigin skinni og hlustað á umkvartanir úr þjóðfélaginu um að stjórnsýsla hins opinbera fylgi ekki að öllu leyti kröfum tímans --- kröfum tímans um skjóta og skýra afgreiðslu mála og sömuleiðis bætta þjónustu sem almenningur á að venjast.

Þjónusta hins opinbera er eins og við vitum margvísleg. Þar á meðal er eftirlit, leyfisveitingar, eignaumsýsla og stjórn framkvæmda. Til slíkra aðila þurfa almenningur, félög og fyrirtæki að sækja. Á öllum sviðum þjóðfélagsins höfum við séð þjónustuna batna. Við höfum séð hana ganga hraðar fyrir sig og kröfurnar aukast, ekki síst vegna vaxandi samkeppni hér innan lands. Sömuleiðis þurfum við að standast samkeppni við önnur lönd og fyrirtæki í öðrum löndum.

Þær ábendingar sem ég gat um áðan að hefðu borist mér til eyrna á síðustu missirum eru um að ákvarðanataka sé seinvirk hjá hinu opinbera, fundir um aðkallandi mál skili ekki niðurstöðu, bréfum sé svarað seint og illa og erfitt sé að átta sig á því hvar mál séu stödd. Það er ólíku saman að jafna þegar annars vegar er einstaklingur, félag eða fyrirtæki sem má engan tíma missa, hefur takmarkað fjármagn og þarf að fá skjóta úrlausn sinna mála, og hins vegar ríkisvaldið eða sveitarfélag sem hefur mikinn tíma, liggur e.t.v. ekki jafnmikið á að afgreiða mál en verður hins vegar, og því skal haldið til haga, að sjálfsögðu að vanda alla sína embættisfærslu og standa á hverjum tíma skil á því að rétt sé að málum staðið.

Ég tel að þarna geti hið opinbera bætt þjónustu sína verulega. Ég flyt þessa þáltill. til að ýta við ríkisvaldinu og því að það komi til móts við breytt viðhorf í þjóðfélagi okkar. Ég tel að þarna hljótum við líka að horfa til þess að hið opinbera verður að bera virðingu fyrir takmörkuðum tíma og mikilli fyrirhöfn almennings sem væntir þess að hið opinbera, þ.e. ríki og sveitarfélög, taki þátt í hraðri og skjóti afgreiðslu.

Á síðustu mánuðum hef ég haft samband við allmargar stofnanir, bæði stjórnendur, einstaklinga og starfsfólk innan stofnananna. Ég finn að í þessum stofnunum er gríðarlegur vilji hjá starfsmönnum til að bæta þjónustuna því að starfsmennirnir finna fyrir því þegar kvartanir koma fram hjá viðskiptamönnum. Um leið verð ég líka var við það að viðkomandi starfsmenn hafi jafnvel árum saman óskað eftir endurbótum en með litlum árangri. Þar er ekki endilega við stjórnendur viðkomandi stofnana að sakast heldur oft og tíðum æðstu stjórnendur og hina endanlegu ábyrgu stjórnendur stofnananna, þ.e. í ráðuneytunum sjálfum. Ég vil ekki nefna nein dæmi. Það er ekki viðeigandi við þetta tækifæri en ég hygg að í flestum ráðuneytum, í sumum meira en öðrum, sé ekki nægur kraftur í því að gera nauðsynlegar breytingar á þjónustuháttum og afgreiðslu stofnana.

Á þessu eru þó að sjálfsögðu undantekningar. Ég vil sérstaklega nefna að á vegum forsrn. er að störfum nefnd til að reyna að einfalda eftirlit með atvinnulífinu. Þar hefur m.a. hafist vinna að eftirliti sem snýr að ýmsu varðandi starfssvið Siglingastofnunar, þ.e. þar sem útgerð og skip og fragtflutningar þurfa að sækja eftir ýmiss konar leyfum og sæta eftirliti. Þar er verið að vinna að einföldun á því.

Ég vil nefna annað svið þar sem við gætum svo sannarlega tekið til hendinni en það er í veitinga- og gistihúsarekstri. Þar úir og grúir af margvíslegu eftirliti sem við erum skuldbundin að taka upp, bæði sjálfra okkar vegna og vegna skuldbindinga í Evrópusáttmálum. Þarna eru gríðarlega margir eftirlitsaðilar og mætti ábyggilega einfalda það kerfi.

Ég vil nefna tvö dæmi þar sem mér er ekki ljóst hvers vegna opinber stjórnsýsla liðkar ekki fyrir og nýtir sér nútímatækni. Annars vegar vil ég nefna útgáfu sakavottorða. Fyrir nokkrum árum gátum við farið á Hverfisgötuna og fengið sakavottorð ef við þurfum á slíku að halda, svo sem þegar menn tóku bílpróf og eins þegar menn þurftu að fá skotvopnaleyfi og annað þess háttar. Nú hefur þeirri afgreiðslu, að ég best veit, verið lokað og verður að sækja um slíkt í gegnum lögreglustjóra. Þetta tel ég vera afturför.

Ég nefni annað dæmi. Umsókn um bílpróf og afgreiðsla þess máls er að mínu mati allt of flókin. Ég ætla ekki að rekja allan þann feril en hann er margbrotinn og hefst með því að menn sækja um að fá að taka bílpróf til lögreglustjóra og síðan kemur sá ferill sem ég nefndi áðan, þ.e. sakavottorðið, og síðan eru samskipti við Umferðarráð. Þessu er öllu hægt, með nútímatækni og tölvuvæðingu, að koma fyrir í höndum Umferðarráðs og fela þeim aðila einum að sjá um málið. Falli t.d. viðkomandi unglingur eða sá sem er að taka bílpróf á hinu skriflega prófi þá þarf hann að fara og greiða endurtökugjald. Það getur hann að sjálfsögðu ekki gert hjá Umferðarráði heldur verður hann að fara aftur upp á lögreglustöð. Þetta gera foreldrarnir yfirleitt þegar unglingarnir eru að taka bílpróf. Snúningarnir eru margir og mikill akstur um borgina í staðinn fyrir að einfalda þetta með venjulegum reikningsviðskiptum og tölvuvinnu milli viðkomandi stofnana. Þarna er hver stofnun greinilega að hugsa um sinn hag en ekki litið til neytandans og hugsað: Hvernig er hægt að gera þessa afgreiðslu sem liprasta fyrir þann sem á að njóta þjónustunnar?

Ég nefni þetta aðeins vegna þess að þetta eru nærtæk dæmi sem fjöldi fólks þekkir en þetta eru e.t.v. ekki stórtækustu atriðin. Önnur og miklu stærri dæmi má finna.

Ég hef haft samband við ráðgjafarfyrirtæki og spurt hvort ríkisstofnanir séu að vinna í þessum málum. Sem betur fer er það svo. Ég vil t.d. nefna Tryggingastofnun ríkisins sem margir þurfa að leita til, margir sem eiga einmitt mjög erfitt með að reka sín mál sé ekki lipurlega að því staðið. Það er til fyrirmyndar að Tryggingastofnun ríkisins er nú að vinna að verulegum endurbótum og gæðastýringu á sinni þjónustu. Því miður eru þessar stofnanir þó tiltölulega fáar. Viðskiptavinir ráðgjafarfyrirtækjanna eru yfirleitt einkafyrirtæki.

Virðulegi forseti. Ég rek þetta ekki nánar en hér hefur verið gert. Ég hvet ríkisvaldið og sveitarfélögin til að beita nútímahugsunarhætti, til að horfa á viðskiptavininn, einstaklinginn, almenning, félög og fyrirtæki, setja sig í þeirra spor og spyrja: Hvernig má þjóna þessum aðilum sem best? Ég hvet ríkisvaldið til þess að sýna meiri lipurð í bréfaskiptum og samskiptum við almenning sem má sín lítils svo menn fái erindum sínum svarað skjótt og vel. Væri þetta gert teldi ég að ríkisvaldið hefði ekki aðeins uppfyllt embættislegar skyldur sínar heldur sýnt í verki að hið opinbera er að sjálfsögðu ekkert annað en þjónustuaðili við okkur, almenning í landinu, sem eigum mikið undir að tími okkar og hagsmunir séu virtir á þessu sviði sem öðrum.