Skattfrádráttur meðlagsgreiðenda

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 18:04:35 (6243)

2001-04-02 18:04:35# 126. lþ. 103.7 fundur 270. mál: #A skattfrádráttur meðlagsgreiðenda# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[18:04]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins koma í ræðustól til að lýsa stuðningi mínum við þá tillögu sem hér hefur verið mælt fyrir af hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni. Ég tel að þarna sé hreyft afar þörfu máli. Það koma því miður stundum upp þær aðstæður hjá mönnum að þeim tekst ekki að standa í skilum með barnsmeðlög sín. Þegar svo er komið safnast á nokkrum árum upp vandi sem verður óviðráðanlegur. Ég held að það væri virkilega þarft verk og að mörgu leyti fjölskylduvænt að taka á vanda þeirra sem við þetta búa. Það er auðvitað óásættanlegt að einstaklingur sem hefur t.d. lent í skilnaði og þarf að greiða með börnum sínum sitji uppi með þá stöðu til jafnvel margra ára, jafnvel á annan áratug, að geta ekki stofnað til nýrrar fjölskyldu.

Ég held að sú leið sem vikið er að í þáltill., að menn hafi rétt til að draga frá tekjuskattsstofni hluta af greiðslu vegna meðlaga, sé eðlileg. Um þetta þarf auðvitað að setja reglur og þær þurfa helst að vera skýrar. Ég lýsi því sjónarmiði mínu að meðlagsgreiðandi með einu barni ætti t.d. ekki rétt á sérstökum skattafslætti þó að meðlagsgreiðandi með tveimur börnum eða fleiri ætti rétt á slíkri útfærslu. Það getur verið vandasamt að útfæra þetta en með þessari hugsun vil ég alla vega lýsa því sem ég teldi til bóta í þessum efnum.

Það er óásættanlegt að einstaklingar geti þurft að sitja uppi með það í heilan áratug eða jafnvel meira að geta ekki stofnað til eðlilegra fjölskyldutengsla vegna þess að tekjur þeirra eru það rýrar að þeir geta ekki verið framfærendur á nýju heimili. Ég vil því fyrir mitt leyti lýsa stuðningi við þetta mál.