Villtur minkur

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 18:36:36 (6248)

2001-04-02 18:36:36# 126. lþ. 103.11 fundur 334. mál: #A villtur minkur# þál., Flm. ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[18:36]

Flm. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um eyðingu villts minks og rannsóknir á minkastofninum.

Ég er flutningsmaður þessa máls ásamt fleiri þingmönnum en 1. flm. er Árni Gunnarsson varaþm. Hann á ekki setu á þingi nú um stundir og hef ég því með mikilli ánægju tekið að mér flutning málsins fyrir hans hönd og okkar annarra flutningsmanna, en þeir eru Drífa Hjartardóttir og Arnbjörg Sveinsdóttir. Þáltill. hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að skipa nefnd sem geri tillögur um stórauknar aðgerðir til eyðingar villiminks. Jafnframt verði nefndinni falið, í samvinnu við veiðistjóraembættið, að gera tillögur um fjármögnun aukinna minkaveiða og frekari rannsókna á minkastofninum og áhrifum hans á íslenska náttúru. Nefndin verði skipuð fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bændasamtökum Íslands og embætti veiðistjóra.``

Virðulegi forseti. Ég held að það sé samdóma álit flestra Íslendinga að villti minkurinn sé eitthvert mesta skaðræði í íslenskri náttúru. Minkurinn átti aldrei neitt erindi inn í íslenska náttúru. Hann er þar alger boðflenna og spellvirki. Íslensk náttúra var með engum hætti búin undir þá afdrifaríku aðgerð og ákvörðun að fá villtan mink hingað til lands sem var að sjálfsögðu ekki villtur þegar hann var fluttur hingað heldur í búrum en slapp síðan og hefur síðan farið umhverfis landið.

Allir sem koma eitthvað út í íslenska náttúru þekkja þau spellvirki sem minkurinn hefur unnið. Hann ber ábyrgð á stórfelldum skaða í fuglastofni landsins og má m.a. nefna að hinn sjaldgæfi fugl, keldusvínið, er útdauður fyrir tilverknað minksins. Aðrir stofnar anda eru líka í hættu og eru margir á válista, ekki síst vegna þess að minkur er þar álagavaldur. Ég vil nefna m.a. flórgoðann, þennan einstaka og merka fugl sem við Íslendingar berum mikla ábyrgð á. Hann á verulega erfitt uppdráttar vegna minksins. Að sjálfsögðu er þetta nokkuð misjafnt eftir fuglategundum, en einmitt fuglar sem eru í sefi og á slíkum slóðum eru tiltölulega auðveld bráð fyrir minkinn. Þá er einnig vitað að minkurinn situr um fisk og gerir mikinn usla í bæði vötnum og ám auk þess sem hann fælir þessi dýr frá sér.

Minkur hefur breiðst út um landið með ótrúlegum hraða. Þó er það svo að á ákveðnum svæðum landsins hefur minkur ekki náð jafnmikilli útbreiðslu og á öðrum svæðum og vil ég sérstaklega nefna þar Austurland og Austur-Skaftafellssýslu. Hefur jafnvel verið fullyrt í mín eyru að við gætum með markvissu átaki náð að eyða mink að stórum hluta á þessum svæðum og draga nýja varnarlínu um Norðausturland og ná þannig miklum árangri.

Veiðar á mink eru að sjálfsögðu afar mismunandi eftir sveitarfélögum og með hinum nýju lögum sem samþykkt voru á hinu háa Alþingi tel ég að með margvíslegum hætti hafi verið nokkur afturför. Sveitarfélögunum er ætlað að sjá um eyðingu minksins og þar fer því miður oft saman að sveitarfélag er víðlent og fámennt og um leið kjörland fyrir minkinn. Þetta horfir allt öðruvísi við í litlum sveitarfélögum, þ.e. sveitarfélögum sem eru ekki landmikil en þar sem fjölmenni er mikið. Vandinn er ekki síst hjá hinum víðlendu sveitarfélögum með tiltölulega lágar tekjur. Veiðarnar á minknum kosta gríðarlega mikið og eru þessum sveitarfélögum mjög þungar í skauti.

Þá vil ég einnig gera að umræðuefni þann mikla skaða sem æðarræktarbændur verða fyrir vegna minks. Verð ég að segja að það er með ólíkindum að margir málsmetandi menn og þar á meðal þingmenn telja að minkurinn eigi að hafa frið eða grið í friðlöndum og á náttúruverndarsvæðum. Ég get með engu móti tekið undir slíkt og vil ég gera skýran greinarmun á minknum annars vegar og refnum hins vegar.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum vekja athygli á merkri ritgerð sem kom út í júní á síðasta ári. Hún heitir ,,Ferðir og fæða íslenska minksins``. Þetta er mjög kærkomin skýrsla sem upplýsir okkur betur og gefur okkur upplýsingar sem við höfðum ekki áður. Þessi ágæta skýrsla er eftir Róbert Arnar Stefánsson og hvet ég þá sem vilja kynna sér þetta málefni frekar að skoða þessa skýrslu. En það er einmitt þetta sem skortir og það eru rannsóknirnar. Rannsóknir á lifnaðarháttum minks eru ótrúlega takmarkaðar.

Virðulegi forseti. Ég hvet þingheim til þess að styðja þetta mál, hvet nefndina sem tekur við því að veita því farsælan framgang og ég veit að almenningur á Íslandi mun fagna því ef ríkið tekst á við þennan mikla skaðvald í íslenskri náttúru.