Villtur minkur

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 18:48:09 (6250)

2001-04-02 18:48:09# 126. lþ. 103.11 fundur 334. mál: #A villtur minkur# þál., DÁ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[18:48]

Daníel Árnason:

Herra forseti. Ég fagna fram kominni þáltill. um eyðingu villts minks og rannsóknir á minkastofninum. Fjölgun minks í landinu er mikið áhyggjuefni eins og staðfest er í greinargerð með tillögunni, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Í veiðidagbók 2000 segir veiðistjóri um minkaveiðina: ,,Í þeim til raunum okkar að halda minkastofninum niðri erum við í besta falli á skipulögðu undanhaldi, í versta falli er stríðið tapað með núverandi aðferðum.```` --- Svo mörg voru þau orð.

Málið er mikið hagsmunamál, ekki aðeins bænda og eigenda lands og veiðiréttar heldur einnig ögrun við náttúru landsins og dýralíf. Það er mikið alvörumál sem ber að gefa gaum að. Ég fullyrði að í mörgum héruðum landsins hefur minkurinn höggvið skörð dýra- og fuglastofna sem erfitt verður að ná til jafnvægis að nýju. Hér er því ekki aðeins um svæðisbundna hagsmuni að ræða heldur landsins alls.

Nauðsyn er að grípa í taumana með ákveðnum hætti. Í fyrsta lagi þarf að greina vandann og rannsaka atferli minksins og umfang. Í öðru lagi þarf að koma á skilvirku skipulagi og fjármagna þær aðgerðir sem grípa þarf til við þetta verkefni. Í því sambandi vil ég nefna að e.t.v. þarf að rýmka ákveðnar heimildir til veiðiaðferða. Þar get ég t.d. nefnt til lög nr. 64/1991 þar sem kann að þurfa að rýmka lögheimildir til að beita veiðiaðferðum til að ná árangri við þetta verkefni. Einnig kann að þurfa að þjálfa veiðimenn sérstaklega til verkefnisins. Þannig þarf að hyggja að ýmsu í þessu sambandi. Hefja þarf aðgerðir hið fyrsta og síðast en ekki síst þarf að meta árangurinn jafnharðan og verkefnið stendur yfir.

Ég tel jafnframt að unnt sé að nýta hinn mikla áhuga íslenskra áhugaveiðimanna til hagkvæmra lausna á þessu sviði. Í því sambandi nefni ég skotveiðifélög og aðra slíka.

Herra forseti. Ég fagna fram kominni þáltill. og hvet hæstv. umhvrh. og aðra þá sem tengjast þessu máli til að fylgja því vel eftir.