Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 14:10:58 (6257)

2001-04-03 14:10:58# 126. lþ. 104.22 fundur 540. mál: #A almenn hegningarlög# (kynlífsþjónusta, klám) frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[14:10]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu felur í sér margar góðar ábendingar og breytingar þó að ég sé ekki að öllu leyti sammála þeim leiðum sem þar er lagt til að farnar verði, þá sérstaklega þegar ákvarða á í lögum hversu löng eða hversu mikil refsing skuli vera hverju sinni fyrir verknaði sem í dag eru ekki nægjanlega skilgreindir í íslenskum lögum og þær skilgreiningar koma heldur ekki fram í frv. sem hér er verið að ræða, sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Þuríður Backman flytja. Ég tel að skilgreiningin sem í frv. felst sé ekki nægjanlega skýr til þess að geta sett fram svo stórar ákvarðanir hvað varðar fangelsisvistun allt að fjórum árum og fangelsi allt að sex árum, eins og segir í 1. gr. frv. Og þó að ég telji vissulega ástæðu til að breyta 206. gr. í almennu hegningarlögunum m.a. vegna þess að hún er barn síns tíma og orðalagið þar af leiðandi afar sérkennilegt þegar talað er um vændi en í greininni segir, með leyfi forseta:

,,Hver sem stundar vændi sér til framfærslu skal sæta fangelsi allt að 2 árum.`` --- Síðan kemur:

,,Hver sem hefur atvinnu eða viðurværi sitt af lauslæti annarra ...`` --- og svo aftur seinna:

,,Sömu refsingu varðar það að ginna, hvetja eða aðstoða ungmenni, yngra en 18 ára, til þess að hafa viðurværi sitt af lauslæti.``

Það er eins og menn hafi veigrað sér við að tala um vændi eða skilgreina hvað í orðinu felst þegar þessi lög voru sett á sínum tíma. Og þó ekki væri nema vegna þess þá er sannarlega ástæða til að taka þessa grein sérstaklega fyrir og ræða hana og þær skilgreiningar sem hún felur í sér.

Ég vil beina þeirri spurningu til hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur hver sé viðmiðunin sem flutningsmenn setja, hvar þau taki viðmiðunina, þ.e. varðandi það hversu lengi má dæma einstakling í fangelsi fyrir þann verknað sem framinn er hverju sinni, allt að fjórum árum og allt að sex árum, eins og segir í 1. gr.

Í grg. er vitnað til samþykktar sem Evrópuráðið hefur gert og þær eru orðnar býsna margar. Skýrslur sem unnar voru af hæstv. dómsmrh. fyrir stuttu þar sem borið var saman lagalegt umhverfi á Norðurlöndum hvað varðar refsingar vegna vændis, um hvern þann sem stuðlar að vændi, á hvern hátt sem það er gert hverju sinni, og hvernig tekið er á því á Norðurlöndunum, og síðan nýja skýrslan þar sem í fyrsta skipti má segja, a.m.k. í sölum Alþingis, er viðurkennt af öllum og þá fyrst og fremst stjórnvöldum að vændi sé stundað á Íslandi og þá kannski ekki síst í höfuðborginni, í Reykjavík. Það er nefnilega ekkert langt síðan, ég held að ekki sé nema rétt rúmt ár síðan fjallað var um það í blaðagreinum og fjölmiðlum þar sem komu fram fulltrúar frá lögregluembættinu og að mig minnir frá Reykjavíkurborg, sem drógu verulega úr því að slík starfsemi væri stunduð, a.m.k. svo nokkru næmi í Reykjavík, eins og það var orðað þá. Skýrslan verður hins vegar til þess að opna augu fólks fyrir því að þarna er verulega þörf á því að taka á og setja nýja löggjöf.

[14:15]

Hæstv. dómsmrh. sagði í umræðu um daginn að hún hefði þegar skipað nefnd. Það kom ítrekað fram af hennar hálfu í fjölmiðlum að hún hefði í framhaldi af þessum tveimur skýrslum skipað nefnd til að vinna úr niðurstöðum þeirra og að hún muni í framhaldi af þeirri vinnu leggja fram frv. til laga um breytingar á lögum, ekki bara þeim sem hér um ræðir heldur ýmsum öðrum. Ég tel að vissulega sé þörf á því að skilgreina hvað er vændi og hvað er klám. Það þarf að skilgreina það þannig að við stöndum ekki aftur og aftur í raun og veru pínulítið vandræðaleg vegna þess að skilgreiningin á hugtakinu og hvað það felur í sér er ekki til staðar. Það verður alltaf svolítið loftkennt hvað það er sem við erum að ræða um hverju sinni.

Ég hefði gjarnan viljað sjá úr því að hér er komið fram frv., sem felur í sér ákveðnar breytingar, að tiltekin væru ýmis tilmæli sem Evrópuráðið hefur sent íslenskum stjórnvöldum sem og öðrum aðildarríkjum Evrópuráðsins á undanförnum árum þar sem tekið er á ýmsum öðrum þáttum, eins og því að hver sá einstaklingur, sem fluttur er til landsins til að stunda vændi eða aðra ólöglega kynlífsstarfsemi, eigi rétt á því að þingað sé í hans málum fyrir íslenskum rétti, þ.e. hér á landi. Hins vegar hafa flest aðildarríki Evrópuráðsins brugðist þannig við að í hvert sinn sem yfirvöld taka einstakling, sem hefur verið fluttur löglega eða ólöglega til aðildarríkis til þess að stunda vændi eða aðra kynlífsþjónustu, er hann umsvifalaust sendur úr landi, í flestum tilvikum heim til sín þar sem viðkomandi einstaklingur á sér e.t.v. ekki viðreisnar von vegna þeirrar menningar, trúarbragða, viðhorfa og annarra þátta sem eru í heimalandi hans og þar sem hann fær í raun og veru aldrei að segja sína sögu.

Evrópuráðið hefur talið þetta mjög mikilsvert til að hægt sé að ná böndum yfir þá sem standa í slíkum innflutningi, reka starfsemina og bera raunverulega ábyrgðina. Ef þeir sem fluttir eru til landsins, löglega eða ólöglega, til að taka þátt í hvers kyns kynlífsþjónustu eða að stunda vændi, fá aldrei að koma fyrir íslenskan rétt, fá ekki skipaðan verjanda, fá ekki að segja sína sögu, þá er afar erfitt að koma böndum yfir þá eða þann sem ber hina raunverulegu ábyrgð. Það er margsannað að flestar þessara stúlkna --- þetta eru í flestum tilvikum stúlkur sem hafa verið fluttar milli landa til að stunda þessa starfsemi --- hafa leiðst út í þetta vegna fátæktar í heimalandi sínu hjá fjölskyldu sinni og þeim bjóðast í mörgum tilvikum mun meiri tekjur á einum mánuði en fjölskylda þeirra hefur haft sér til framfærslu á heilu ári, og oftar en ekki hafa þær verið blekktar til starfans. Þegar þær eru komnar inn í vændishús til starfa eða til þess að dansa eða hvaða starfsemi sem það er þá er oft og tíðum búið að misþyrma þeim andlega og líkamlega, taka af þeim myndir sem senda á heim til fjölskyldunnar og þær sitja undir verulegum hótunum og þvingunum af hálfu þeirra sem reka starfsemina.

Innan Evrópuráðsins, þar sem ég á sæti bæði í jafnréttisnefnd og mannréttindanefnd sem fjalla um þessi mál og svo vill til að ég sat á fundi jafnréttisnefndar Evrópuráðsins síðast í gær þar sem var verið að fjalla um mansal, er fullyrt að angar þessarar starfsemi teygi sig til allra aðildarríkja Evrópuráðsins. Þar er Ísland ekki undanskilið. Þessi starfsemi sé verulega falin, m.a. með svokölluðum súludansi sem við þekkjum hér t.d. af skemmtistöðum. Evrópuráðið hefur beint ákveðnum tilmælum til aðildarríkjanna og við getum séð á því hvernig umræðan hefur breyst að fyrstu tilmælin sem send eru frá Evrópuráðinu til aðildarríkja koma 1986 og þá er mansal og nauðarsala á konum og börnum sett í flokk með hryðjuverkum og flugránum. Þá var bálkur þar sem fjallað var sérstaklega um alþjóðlega glæpastarfsemi og þar var mansal og nauðarsal á konum og börnum sett í flokk með hryðjuverkum og flugránum. Evrópuráðið hefur beitt sér verulega í þessum málum alveg síðan 1986. Það sendi frá sér tilmæli á síðasta ári um ólöglega innflytjendur og baráttu gegn skipulögðu smygli á þeim. Ráðið telur að meðal ólöglegra innflytjenda megi finna mjög marga einstaklinga sem hafi verið smyglað til Evrópuráðslandanna og þar á meðal megi finna mjög marga sem enda í þessari starfsemi og þá fyrst og fremst vegna fátæktar og vegna lítilla eða engra möguleika á því að fá annars konar starf.

Þessi tilmæli Evrópuráðsins voru upphaflega til komin vegna dauða tuga ólöglegra kínverskra innflytjenda sem voru lokaðir inni í gámi í Dover-höfn í Bretlandi, sem margir muna eftir, og þá var vakin athygli á mikilli fjölgun þessara innflytjenda og hörmulegum aðstæðum þeirra. Þá var einnig vakin athygli á að meðan það teljast vera grundvallarmannréttindi að flytjast úr landi þá njóti flutningur fólks til ríkja ekki sömu réttinda. Þá var rætt um að löglegum innflytjendum séu settar gríðarmiklar hömlur og í ljósi þess leiði slíkt óhjákvæmilega til þess að þeir sem hyggjast flytjast til aðildarríkja Evrópuráðsins nýti sér þjónustu skipulagðra glæpasamtaka. Einnig var vakin athygli á að einmitt þessi þróun neyddi fólk til að sinna ómannúðlegum og niðurlægjandi störfum. Hvatt var til þess að aðildarríki Evrópuráðsins ykju samstarf sitt til að berjast gegn þessu skiplagða smygli á innflytjendum og ráðherraráðið var hvatt til að samhæfa reglugerðir með þetta að markmiði og jafnframt hvatt til samstarfs við Evrópusambandið á þessu sviði.

Því miður hafa þessi tilmæli ekki einu sinni verið, mér vitanlega, þýdd á íslensku, hvað þá að það hafi verið reynt að koma þeim inn í löggjöf. Það er auðvitað hluti af því að við höfum ekki tekið þessi mál til jafnskipulegrar umræðu og hefur átt sér stað innan Evrópuráðsins og ýmissa alþjóðlegra samtaka, það er þessi takmarkaði aðgangur almennings og þingmanna að þeim samþykktum og þeim tilmælum sem eru þarna á ferðinni.

Árið 1997 voru samþykkt önnur tilmæli og þau voru til komin vegna þess að þá var verið að lýsa yfir áhyggjum vegna aukinna umsvifa skipulagðra glæpasamstaka við mansal og nauðarvændi og æ verri aðstæðna kvenna og barna sem þurfa að sæta slíkri starfsemi sem þá var talað um, eins og er reyndar gert núna, að væri í ætt við þrælahald. Í þessum tilmælum, sem eru nr. 13/25 og eru síðan 1997, þá er mansal og nauðarvændi skilgreint --- það kemur fram skilgreining á því hvað felst í þessum orðum --- og hvatt var til að ráðherraráðið beitti sér fyrir því að sáttmáli þessa efnis verði mótaður og undirritaður af öllum aðildarríkjum. Þá var einnig hvatt til þess að þolendum sé veitt ákveðin aðstoð og vernd, ekki síst þeim sem eru tilbúnir til að vitna gegn tjónvöldum og þessir tjónvaldar eru þeir sem kaupa einstaklingana til að sinna þessari kynlífsþjónustu.

Við vitum að þannig einstaklingar eða samtök eru hér. Það er ósköp lítið vitað um raunverulega starfsemi og í hverju hún felst vegna þess að við höfum afskaplega litla möguleika til að fara með í réttarhöld mál sem koma upp af þessu tagi, því eins og ég segi, þá virðist a.m.k. vera tilhneiging til þess að hvetja til þess að viðkomandi einstaklingur sé umsviflaust sendur úr landi.

Auðvitað hafa mun fleiri tilmæli verið samþykkt af Evrópuráðinu en núna er sem sagt verið að leggja sérstaka áherslu á að menn komi á fót samræmdri löggjöf þar sem tryggð sé vernd þeirra einstaklinga sem stunda þessa atvinnu, eru keyptir til þess, þannig að þeir fái að segja sína sögu, hún komi mjög skýrt fram, þannig að það megi koma böndum yfir þá sem standa að málinu og eru hinir raunverulega sökudólgar.

Virðulegi forseti. Ég vildi koma þessu á framfæri við umræðuna vegna þess að ég tel að út af fyrir sig sé það alveg rétt að það þurfi að vera mjög skýr löggjöf í þessum efnum og það þurfi að herða refsilöggjöfina en hins vegar þurfi að fara í þessa grunnvinnu fyrst, þ.e. skilgreiningarvinnuna, áður en við komum með breytingar á almennum hegningarlögum. Jafnframt þurfum við að leggja fram þær breytingar sem þarf að gera á öðrum lögum sem tryggja vitnavernd þeirra sem hlut eiga að máli og hafa hugsanlega verið fluttir hér inn til þess að stunda kynlífsþjónustu, og ég tala ekki um þau börn sem hafa verið neydd til þess að stunda hvers kyns kynlífsþjónustu, eins og mér finnst að megi lesa í skýrslu sem kom frá hæstv. dómsmrh. fyrir stuttu að því miður séu dæmi um. Við þekkjum dæmi þess að unglingar hafa m.a. verið neyddir til að horfa á mjög gróft kynlífsefni af vídeóspólum með fullorðnum til þess að þjónka þeirri afbrigðilegu hegðun sem í því felst hjá fullorðnum einstaklingum að neyða börn til slíks.