Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 14:28:05 (6258)

2001-04-03 14:28:05# 126. lþ. 104.22 fundur 540. mál: #A almenn hegningarlög# (kynlífsþjónusta, klám) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[14:28]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Mér er kunnugt um þann tímaramma sem við settum okkur og skal því vera stuttorð. Mig langar til að segja nokkur orð um þetta mikilvæga mál sem ég er flutningsmaður að ásamt hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og Steingrími J. Sigfússyni.

Herra forseti. Það er kominn tími til að við förum að líta á það sem staðreynd --- eftir þær skýrslur og úttektir sem hér hafa verið gerðar --- að vændi er stundað á Íslandi. Það er ekki, eins og margir hafa haldið, að í vændi séu eingöngu konur sem hafa valið sér þá atvinnu til þess að afla sér aukatekna, konur sem hafa verið vel settar, hafa haft frítt val en hafi bara eingöngu valið sér þessa gömlu atvinnugrein af því að þær hafi mikið yndi af því að stunda þessa iðju. Það er ekki þannig, herra forseti. Þeir sem bera enn þá þessa ósk í brjósti að þannig sé vændið á Íslandi verða að fara að vakna og skilja að vændi er valdníðsla og ofbeldi gagnvart konum. Þær stúlkur og konur sem stunda í vændi í dag eru konur sem standa höllum fæti og hafa ekki allar af fúsum og frjálsum vilja farið út í þetta og eru ekki af fúsum og frjálsum vilja í þessari atvinnugrein.

Við erum hluti af alþjóðavæðingu, eins og hér hefur komið fram, og hún er í vændi og mansasli ekki síður en öðru og fer að verða ein ábatasamasta neðanjarðaratvinnugrein sem stunduð er. Sala á fólki, kvenfólki og börnum til kynlífsþrælkunar fer að verða af svipuðum meiði og sú atvinna sem stunduð er ólöglega með sölu á fíkniefnum.

Herra forseti. Ég vildi aðeins koma því að að við verðum að fara að líta þetta alvarlegum augum. Við þurfum að horfa á rekstur svokallaðra súlustaða, sem eru reknir hér, með það í huga að á bak við þá atvinnustarfsemi sé ekki skipulögð ólögleg starfsemi, þ.e. flutningur á þessum konum hingað til landsins. Eins þurfum við í raun og veru að byrja á því að koma okkur saman um og skilgreina hvað er vændi þannig að við getum byggt löggjöf okkar og allar þær aðgerðir sem við þurfum að fara í á þeirri skilgreiningu.