Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 14:31:15 (6259)

2001-04-03 14:31:15# 126. lþ. 104.22 fundur 540. mál: #A almenn hegningarlög# (kynlífsþjónusta, klám) frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[14:31]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég hef í sjálfu sér engu við ábendingar hv. þingkvenna Samfylkingarinnar, Guðrúnar Ögmundsdóttur og Margrétar Frímannsdóttur að bæta. Mig langar þó að segja tvennt.

Ég vona að það sé ekki vísbending um hvernig verður fjallað um þessi mál innan hv. allshn. að hér skuli enginn taka til máls nema hann sé í stjórnarandstöðu.

Í annan stað langar mig til þess að vekja athygli hv. þingmanna á umfjöllun um Ísland í erlendum fjölmiðlum. Þrjú nýleg dæmi eru um það, tvö úr erlendum og eitt úr íslenskum fjölmiðli. Það er grein úr dagblaðinu USA Today sem fjallar um ferð nokkurra hundraða bandarískra karlmanna til Íslands af því að hér eru svo sætar stelpur. Það má skilja á hvern veg sem er. En um það fjallar greinin. Einnig er umfjöllun í virtu vikublaði, Time Magazine, um þær dásemdir sem Reykjavík hefur upp á að bjóða í þessum efnum sem öðrum. Síðast en ekki síst er það tímaritið Iceland Review sem slær upp mikilli umfjöllun um kynlífsiðnaðinn í Reykjavík. Allt má þetta svo sem vera gott og blessað. En ég held að við verðum að staldra við og íhuga það mjög vel, bæði á hinu háa Alþingi og líka úti í samfélaginu, hvaða mynd við erum að gefa umheiminum af okkur sjálfum.