Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 14:47:40 (6263)

2001-04-03 14:47:40# 126. lþ. 104.23 fundur 558. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (lausir kjarasamningar o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[14:47]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi við þetta frv. og taka undir megininntakið í málflutningi hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar sem jafnframt er flutningsmaður frv. Hugsunin er sú að koma í veg fyrir að sú staða verði uppi að atvinnurekendur sjái sér beinlínis hag í því að tefja samninga. Ef atvinnurekanda tekst að tefja samninga koma þær kjarabætur sem um kann að semjast í samningum ekki til útborgunar fyrr en við undirskrift samninganna. Þetta er meginreglan við kjarasamningsgerð. Það er afar fátítt að séttarfélögum takist að fá því framgengt að kjarasamningar séu afturvirkir. Það tíðkaðist meira fyrr á tíð en er víkjandi regla, því miður.

Nú kann þetta að vera uppi af tvennum toga, ekki einvörðungu af illum ásetningi atvinnurekandans. Sú staða kann einnig að vera uppi að hann ráði ekki við samningsgerðina. Það á t.d. við í kjaraviðræðum sem fram fara við samtök opinberra starfsmanna hjá ríki og sveitarfélögum. Þar er tiltölulega fámenn sveit sem fyrir hönd sveitarfélaganna og ríkisins annast samningsgerðina sem fer fram á mörgum borðum við mjög mörg stéttarfélög og þá gerist það að sest er niður með því stéttarfélagi sem er stærst eða þar sem þörfin er talin mest knýjandi, t.d. þar sem verkfall hefur skollið á eða er yfirvofandi, þá er hinum hreinlega ýtt aftur fyrir. Þannig hefur það gerst núna að félög sem hafa staðið í biðröð allar götur frá því samningar losnuðu 1. nóvember á síðasta ári hafa sum hver enn ekki einu sinni fengið viðræður þótt þau séu fyrir löngu tilbúin með kröfugerð sína og öll af vilja gerð að setjast að því verki og klára það.

Því spyr ég: Er það sanngjarnt að við slíkar aðstæður séu kjarasamningar ekki afturvirkir? Mér finnst það mjög ósanngjarnt. Mér finnst það vera mjög ósanngjarnt því að þeir sem aðild eiga að þessum stéttarfélögum verða af þeim kjarabótum sem um er samið á endanum.

Og þá erum við aftur komin að upphafinu, þ.e. að það er atvinnurekandanum beinlínis í hag fjárhagslega að hafa þetta fyrirkomulag vegna þess að hann þarf ekki að greiða umsamdar kjarabætur í eins langan tíma og ella. Þetta er meginhugsunin í frv. hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar, að setja þarna einhver tímamörk. Tímamörkin kunna að vera álitamál. Þannig kann einhverjum að finnast það nokkuð langur tími að svigrúmið sé sex mánuðir eins og kveðið er á um í frv., að hafa ætti þann tíma styttri. Það kann að vera. Það er álitamál. En meginhugsunin í frv. er rétt, að sett séu einhver ákvæði í lög um kjarasamninga sem skyldi atvinnurekanda að greiða aftur í tímann eftir tilteknum reglum. Undir það vil ég taka.

Við upphaf þingdagsins voru mættir, svo dæmi sé tekið, fulltrúar frá Landssambandi lögreglumanna þar sem þeir voru að leita eftir fundi við fulltrúa ríkisstjórnarinnar, væntanlega hæstv. fjmrh., til að ræða þessi mál, að því er mér var tjáð. Þeir hafa haft lausa samninga frá því í haust. Og nú er yfirvofandi verkfall hjá háskólakennurum. En hvað gerist? Aflýst er fundi sem til stóð að halda með lögreglumönnum og honum vísað eitthvað fram í tímann. Og síðar þegar samningar nást á endanum munu þeir án efa mæta þeirri afstöðu hjá viðsemjendum sínum að ekki komi til greina að borga aftur í tímann, að samningar séu afturvirkir.

Mér finnst þetta í hæsta máta óeðlilegt. Við skulum ekki gleyma því heldur að ekki gekk svo lítið á hér í þingsal þegar menn voru að lögfesta farveginn sem kjarasamningar skyldu vera í. Þar er gert ráð fyrir að menn semji um tiltekna áætlun við kjarasamningssmíðina þar sem báðir aðilar skuldbinda sig til þess að láta hana standast. Hún er undirrituð. Ég man ekki einu sinni --- það er stolið úr mér hvað hún heitir. En þetta ferli er engu að síður bundið í lög. Og síðan þegar á reynir er það ekki haldið eða virt af hálfu viðsemjenda launafólks, stéttarfélaganna.

Eins og ég segi og ítreka gekk ekki lítið á þegar verið var að lögfesta þetta fyrirkomulag sem um margt á fyllilega rétt á sér að mínum dómi, að reyna að koma kjarasamningum í skynsamlegan og skipulegan farveg. En þá þurfa náttúrlega báðir aðilar að axla ábyrgð og það gera atvinnurekendur ekki.

Hrikalegasta dæmið sem við höfum er að sjálfsögðu það dæmi sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson tók í máli sínu og tíundar í grg. með frv. Það er dæmið af sjómönnum og samningsleysi þeirra; að á 14 árum skuli sjómenn hafa verið án samninga í sex og hálft ár. Nú höfum við þá stöðu fyrir sjómenn að þeir hafa verið, ef ég man rétt, án samninga í 13 mánuði. Þegar verkfall skall á fyrir fáeinum dögum og ríkisvaldið greip til gamalkunnra ráða og setti lög á deiluna höfðu sjómenn verið samningslausir í þetta langan tíma.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frv. að öðru leyti en því að ég ítreka stuðning minn við það og beini þeim orðum til atvinnurekenda, hvort sem þeir eru einkareknir eða ríkisreknir, hvort sem þeir eru opinberir aðilar eða atvinnurekendur á opnum markaði, að þeir verða að sjálfsögðu að axla ábyrgð sína. Við getum ekki búið við fyrirkomulag sem byggir á því að það sé beinlínis hagur atvinnurekenda að tefja samninga, að koma í veg fyrir samninga. Það er eðlilegt að löggjafinn sjái við þessu með lögum af því tagi sem hér eru lögð til.